Keikó bjargar hvölunum

Greinar

Flutningur Keikós höfrungs til Íslands táknar endanlegan sigur hvalavina yfir hvalveiðisinnum á Íslandi. Með þessari frábæru leikfléttu mun bandarískum hvalavinum takast að fá Íslendinga endanlega ofan af hvalveiðihugsjónum sínum og það með góðu.

Veitingamenn í Vestmannaeyjum geta ekki haft hvalkjöt á matseðlinum, þegar útlendir hvalavinir eru farnir að flykkjast til Eyja og flagga gullkortunum sínum. Þegar til kastanna kemur, mun hugsjón peninganna verða yfirsterkari hugsjón hvalveiðanna.

Nú þegar leggja hvalaskoðunarferðir meira til þjóðarbúsins en hvalveiðar mundu gera, ef þær yrðu leyfðar að nýju. Nokkur sveitarfélög við sjávarsíðuna hafa gert hvalaskoðun að helzta vaxtarbroddi atvinnulífsins og fleiri munu feta gróðaslóð hvalavináttunnar.

Hugsjón hvalveiða hefur verið á tveggja áratuga skipulegu undanhaldi hér á landi. Fundnar voru upp “veiðar til innanlandsneyzlu” og “vísindaveiðar”, unz Japanir þorðu ekki lengur að kaupa hvalaafurðir héðan af ótta við refsiaðgerðir Bandaríkjamanna.

Allan þennan tíma hefur meirihluti þjóðarinnar stutt hvalveiðar í skoðanakönnunum. Þjóðernishugsjón hvalveiðanna hefur aldrei bilað, þótt smám saman hafi á tveimur áratugum verið að koma í ljós, að hún væri bæði óframkvæmanleg og ákaflega dýrkeypt.

Lengi ímynduðu menn sér, að unnt væri að sameina hugsjón og peningadýrkun með því að selja útlendingum hvalaafurðir. Komið hefur í ljós, að svo er ekki. Ekki þora einu sinni Japanir, sem nú í vikunni voru peningalega dregnir í land af Bandaríkjunum.

Enn ímynda Íslendingar sér, að unnt sé að selja mönnum hvalaskoðunarferðir og selja þeim síðan hvalkjöt í kvöldmatinn. Þegar vinum Keikós verður svo boðin amma hans í matinn, munu þeir bara taka hugsjónakokkinn og fleygja honum í sjóinn.

Hin einfalda staðreynd þessa máls er, að peningarnir tala. Þegar sjávarsíðan er farin að hafa miklar tekjur af hvalavináttu og Vestmannaeyjar eru orðnar að heimkynnum frægasta höfrungs heims, verður ekki aftur snúið. Sögu íslenzkra hvalveiða er endanlega lokið.

Helztu aðmírálar hins hægfara undanhalds hafa verið ráðherrarnir Halldór Ásgrímsson og Þorsteinn Pálsson. Sá síðarnefndi sá hættuna, sem stafaði af heimferð Keikós og svaraði umsókninni neitandi. Hann tók fram, að slíkum umsóknum yrði framvegis neitað.

Davíð Oddsson veit hins vegar, að hvorki er hægt að éta kökuna og eiga hana, né að éta hvalinn og eiga hann. Hann hefur feiknarlega lítið álit á Þorsteini hugsjónamanni og flýtti sér að taka fram fyrir hendur hans, þegar heimferð Keikós var orðin að alvörumáli.

Halldór Ásgrímsson hefur í tvo áratugi slegið ódýrar keilur innanlands á þrautseigju sinni við að framleiða lokleysur í fjölþjóðastofnunum til stuðnings vonlausum hvalveiðum. Gaman verður að fylgjast með, hvernig hann meltir stöðuna, sem nú er komin upp.

Engu máli skiptir, hvort hvalastofnar þoli hvalveiðar eða ekki. Þetta mál hefur fyrir löngu yfirgefið slóðir raka og rökleysu, en flýgur á þöndum vængjum tilfinninga. Með því að taka við Keikó hefur íslenzka ríkið endanlega beygt sig fyrir einfaldri staðreynd.

Meirihluti þjóðarinnar verður senn að kyngja hetjuskap sínum og hugsjón sinni, því að glóandi peningarnir hafa talað og greitt atkvæði með hvölunum.

Jónas Kristjánsson

DV