Helzta markmið snjóflóðavarna er ekki lengur að koma í veg fyrir, að fólk lendi í snjóflóðum, heldur að hindra, að það flytji suður. Í þessu skyni er ákveðið að beita dýrari aðferðum, sem ná lakari árangri og eru þar að auki í óþökk margra þeirra, sem búa á hættusvæðum.
Varnargarðar eru reistir í stað þess að kaupa hús á hættusvæðum, taka þau úr ábúð og flytja nýbyggingarsvæði frá hættusvæðum. Sveitarstjórnir telja hættu á, að fólk flytji úr bænum, ef það geti losað um eignir sínar. Uppkaupin kunni að leysa fólk úr byggðagildrunni.
Í Bolungarvík á að reisa varnargarða fyrir 520 milljónir króna. Fyrir þá upphæð mætti kaupa 5060 hús. Á hættusvæði eru hins vegar ekki talin vera nema 1440 hús. Því er ljóst, að varnargarður er dýrari en húsakaup og er samt engan veginn örugg vörn gegn snjóflóðum.
Margir íbúar, sem hafa lent í snjóflóðum, vilja heldur flytjast á öruggari stað í sveitarfélaginu, heldur en að búa undir varnargarði. Þeir telja sér ekki vera rótt undir garðinum. Garðarnir megna ekki að veita fólki þá öryggistilfinningu, sem búferlaflutningur veitir.
Í fjárhagsdæminu hér að ofan er ekkert tillit tekið til óprýðinnar af varnargörðum, sem verða allsráðandi í landslagi og yfirbragði bæja á borð við Bolungarvík. Þeir munu líta út eins og tröllsleg ábending um, að menn séu staddir á endimörkum hins byggilega heims.
Byggðagildran hefur með þessu fengið dramatíska birtingarmynd í formi varnargarða. Áður hafði hún tekið á sig margar aðrar myndir, sem allar reyna að koma í veg fyrir, að fólk flytji úr bænum, og tryggja, að það verði að fara slyppt og snautt, ef það lætur slag standa.
Byggðagildra felst meðal annars í, að sveitarfélög fjárfesta í atvinnulífi í stað þess að fjárfesta í félagslegri þjónustu. Rekstur, sem beint eða óbeint er á vegum bæjarfélags, gengur verr en annar rekstur. Fjármagnið brennur upp í stað þess að nýtast samfélaginu.
Þar á ofan eru bæjarbúar hvattir til að taka sem hluthafar beinan þátt í þessum atvinnurekstri. Það fé brennur upp eins og annað og nýtist fólki ekki til að auka svigrúm sitt til ákvarðana um framtíðina. Það situr uppi með rangar fjárfestingar í pappírum og stórhýsum.
Ein nýjasta mynd byggðagildrunnar er, að verkalýðsfélög svæðisins nota lífeyrissjóði félagsmanna til að kaupa hlutabréf í hallærisfyrirtækjunum, sem bæjarfélögin eru sífellt að reyna að koma á fætur á nýjan leik. Þannig festi Lífeyrissjóður Vestfjarða fjármagn í Básafelli.
Framtíðarhagsmunum sjóðfélaga og öryggi þeirra á elliárunum er stefnt í hættu með því að brenna lífeyri þeirra í staðbundnum fyrirtækjum. Þetta er ein ógeðfelldasta mynd byggðagildrunnar, því að hún skerðir möguleika fólks á að eiga sómasamlega fyrir elliárunum.
Ýmsir þættir byggðagildrunnar mynda einn vítahring, sem knúinn er handafli sveitarstjórna. Fyrirtæki falla í verði og leggja upp laupana. Íbúðarhús falla í verði og verða illseljanleg. Fólk missir vinnutekjur og tapar lífeyri. Og nú er því sagt að hírast undir varnargörðum.
Allt er þetta ferli til þess fallið að draga kjarkinn úr heimafólki. Vegna tekjumissis, eignarýrnunar og þjónustuskerðingar hefur það minna fjárhagslegt svigrúm en ella til að taka skynsamlegar ákvarðanir um framtíð sína. Það situr fast í vítahring byggðagildranna.
Ekki má búast við, að þessir staðir verði girnilegri til búsetu, þegar tröllauknir varnargarðar verða orðnir að helzta kennileiti og einkennistákni þeirra.
Jónas Kristjánsson
DV