Textastíll
Alþýðustíll
Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn
Matthew Arnold: Hafðu eitthvað að segja
Jónas Kristjánsson: Stuttur stíll er skýr og skýr stíll er spennandi.
Góður stíll felst alls ekki í að kunna rétta stafsetningu. Menn geta fyrst byrjað að fást við stíl, þegar þeir kunna stafsetningu. Stafsetning er bara forsenda, sem allir þurfa að kunna. Hún er ekki millistöð og hvað þá endastöð í leit okkar að góðum stíl.
Rétt stafsetning er nauðsynleg en ekki fullnægjandi. Stafsetning er endastöð í námi í íslenzku. Nám í stíl er hins vegar fjölþjóðlegt. Reglur um stíl eru hinar sömu viða um heim indóevrópskra tungumála. Amerískur stíll er hinn sami og íslenzkur stíll.
Kvartað er yfir amerískum áhrifum á íslensku. En það er ekki góð ameríska, sem spillir íslensku. Það sem menn kvarta um, er yfirfærsla á vondri amerísku. Vond ameríska verður vond íslenska. Góð ameríska er hins vegar svipuð góðri íslensku.
Góður stíll er Halldór Laxness og Íslendingasögurnar. Góður stíll er Ernest Hemingway og George Orwell og Graham Greene. Alls staðar nota menn sömu aðferðir við að spúla texta og snurfusa hann. Svo að hann verði frambærilegur fyrir venjulegt fólk.
Stíll menntamanna: “Skilningur á orsakasamhengi í tengslum við óhóflega drykkju þeirra gæti leitt til betri meðferðar þeirra.” Stíll almennings, Íslendingasagna og Halldórs Laxness: “Við gætum hjálpað þeim, ef við skildum hvers vegna þeir drekka úr hófi.”
Hér verður kenndur stíll fólks. Þess vegna þurfa háskólamenn að umpólast á þessu námskeiði. Til að skrifa góðan stíl, þurfa menn að sleppa úr greipum bureaucratese, legalese, academese, journalese. Þetta eru angar af kansellístíl, málfari einstakra hópa.
Menntamenn nota ekki einföld sagnorð. Þeir breyta “brjóta”, “stöðva”, “drepa” í nafnorð eða lýsingarorð, í heilar setningar. Þær hengja þeir á alhæfð sagnorð á borð við “gera” og “vera”. Nota þolmynd í stað germyndar, “kannað var” í stað “ég kannaði”.
C. Wright Mills: “Flókinn stíll fleirkvæðisorða ræður ríkjum í félagsvísindum. Þessi torskildi stíll stafar ekki af flókinni hugsun. Hann byggist nánast eingöngu á ruglingi í höfði menntamanns um, hver sé staða hans í tilverunni.”
Douglas Chadwick (NYT): “Oft skiljum við þeim mun minna, þeim mun meira sem höfundar útskýra. Apar virðast skilja það, sem aðrir apar segja þeim. En vafasamt er, að vísindamenn skilji það, sem aðrir vísindamenn segja þeim.”
Tom Goldstein (NYT): “Í tímaritum lögfræðinga, í ræðum þeirra, í fyrirlestrum og í dómsölum, eru lögmenn farnir að hafa áhyggjur af, að þeir skiljist ekki. Og þeir eru farnir að uppgötva, að þeir skilja ekki einu sinni hver annan.”
“Viðurkenning á þeirri staðreynd, að kerfi í málfræði eru breytileg frá einu tungumáli til annars getur verið grunnur að alvarlegri skoðun á vandamálum, sem þýðendur stórverka í heimsbókmenntum standa andspænis, þegar þeir þýða af öðrum málum en ensku.” Vont.
Þetta er helmingi styttra á máli almennings og þýðir þar: “Þegar við skiljum, að tungumál hafa misjafna málfræði, getum við skoðað vandamál þeirra, sem þýða heimsbókmenntir yfir á ensku.” Í stað 38 orða eru hér komin 19 orð.
Allir hópar fræðinga hafa sérstakt tungumál. Embættismenn notuðu kansellístíl áður fyrr. Læknar og lögmenn hafa sitt tungumál nú á dögum. Unglingar hafa sérmál. Alltaf eru menn að greina sig frá fjöldanum, varpa þoku á texta, svo að hann skiljist ekki fólki.
Dæmi: Í fræðiritum nútímans er talið gróft að segja: “Ég kannaði skoðanir Skagamanna á pólitík.” Í staðinn eru höfundar látnir segja: “Framkvæmd var athugun á dreifingu skoðana íbúa Akraness á atriðum, sem varða afstöðu þeirra til stjórnmálaflokka.”
Vondur stíll einkennist af löngum málsgreinum og löngum málsliðum. Af of lítilli notkun sagnorða og hossi á stirðum nafnorðum. Af of mikilli notkun lýsingar- og atviksorða og smáorða yfirleitt. Af notkun þolmyndar og af stöðugum klisjum og endurtekningu.
Góður stíll einkennist af stuttum málsgreinum og liðum. Af sagnorðum á kostnað nafnorða, lýsingarorða, atviksorða, smáorða og klisjusetninga. Af frumlagi nafnorða og germynd sagnorða. Einkum þó einkennist hann af harðri útstrikun hvers konar truflana.
Margir skrifa vondan stíl, því að þeir frjósa, er þeir horfa á skjáinn. Þeir leita skjóls í úreltum reglum um stíl úr háskólahefðum um ritgerðir. Aðrir skrifa illa, af því að þeir eru hræddir. Þeir líta á texta sem fljót, sem þeir geti stigið yfir, með því að tipla á nafnorðum.
Svo reyna sumir bara að gera sig merkilega með því að blása froðu inn í textann. Algengast er þó, að menn skrifi illa, af því að þeir skilja ekki, hvernig fólk les texta. Og hvernig það getur ekki lesið texta. Lykillinn að lausninni er að hugsa og skrifa einfaldan texta.
Fréttaskrif eiga að vera skýr, þétt, nákvæm og áhugaverð. Þau eru raunar furðu góð miðað við erfiðar aðstæður í tímahraki. Ekki er hægt að sjá neinn mun á gæðum frétta, sem skrifaðar eru í tímahraki, og hinna, er hafa fengið betri tíma.
Vandamálið er skortur á tæknilegri meðvitund. Við erum ekki heimsk, heldur töpum við athyglisgáfunni. Okkur mistekst í litlu skrefunum, natninni, sem fagmennska heimtar. “Að skrifa vel er eins erfitt og að vera góður” sagði Somerset Maugham.
Byrjaðu á að hreinsa smáatriði á borð við “upp”, eins og í “lyfta upp”. Það er nefnilega ekki hægt að “lyfta niður”. Einnig “núna”, eins og í “hann er núna þingmaður”. Það er ekki hægt að vera þingmaður án þess að vera það núna.
Víða eru bólgnar setningar: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram þrátt fyrir þá staðreynd, að andstaða í þinginu fer vaxandi.” Styttra og skiljanlegra er þetta: “Ríkisstjórnin ætlar að halda áfram, þrátt fyrir vaxandi andstöðu á þinginu.”
Í vinnunni sæta blaðamenn stöðugri textabólgu, klisjum frá heimildarmönnum í embættismannakerfi, stofnunum og stórfyrirtækjum. Blaðamenn verða að reyna að þýða bullið á mannamál. En stundum verður þeim fótaskortur á slíkum þýðingum.
George Orwell sagði, að versta stig í skrifum nú á tímum felist í að nota ekki orð vegna inntaks þeirra. Heldur með því að líma saman langar raðir orða, sem einhver annar hefur búið til. Þannig verða til klisjur, sem dreifast um heiminn.
Flott (AP): “Stundum horfir Mary Freedland á son sinn og man eftir barninu, sem hjólaði niður Colonel Bell Drive með félögum sínum. Síðan horfir hún aftur og veruleikinn síast inn. Það eru liðnir tveir áratugir og hann er ennþá þetta sama barn.”
Markmið tungumáls er að gera sig skiljanlegan. Til þess notum við alls ekki sérhæft klisjumál fagstétta. Við notum til þess tungumál almennings, kraftmikið tungumál, sem er þétt og tært í senn. Það segir það, sem segja þarf, og hafnar froðunni.
Gissur Sigurðsson: “Klisjur eru alls staðar, einkum hjá ungu fólki. Blaðamaður skrifar: “Ekki er vitað til að neinn hafi orðið fyrir meiðslum.” (10 orð). Þetta þýðir á íslensku: “Engan sakaði” (2 orð).”
Við skulum ekki hafa áhyggjur af þessu og ekki reyna að muna allt í einu. Allir geta umpólast, ef þeir ráðast gegn vandanum með leiðbeiningum námskeiðsins. Við tökum bara eitt atriði í einu. Við byrjum á að banna allar málsgreinar, sem eru lengri en 23 orð.
Slepptu aukasetningum, sem byrja á “þótt” eða “enda þótt”: “Nefndin undir forustu Moakley sagði á miðvikudaginn, að efi væri um, hvort fólkið, sem skipulagði morðin, hefði verið fundið, þótt höfuðsmaður hafi verið handtekinn.”
Betra er að klippa í tvennt og segja: “Höfuðsmaður í her Salvador hefur verið handtekinn. En Moakleynefndin sagði, að óvíst sé, að handtekið hafi verið fólkið, sem skipulagði morðin.”
Sleppið lýsingarhætti nútíðar: “Cheney varaforseti sagði, að 5.000 hermenn yrðu fluttir brott frá Suður-Kóreu með 7.000 til viðbótar verandi fluttir brott frá Filipseyjum að sögn embættismanna.” Amerísk áhrif.
Betra er að nota tvær málsgreinar: “Cheney varaforseti sagði, að 5.000 hermenn yrðu fluttir frá Suður-Kóreu. Til viðbótar verða 7.000 hermenn fluttir frá Filipseyjum að sögn embættismanna.”
Ekki skrifa: “En þeir sögðust ekki mundu vilja sækja tíma, þar sem þeir krefðust þess, að fyrsti svarti skólastjórinn yrði ráðinn og að fleiri svartir nemendur yrðu settir í nám á hærra stigi.”
Betra: “En þeir sögðust mundu hunsa skólatíma til stuðnings kröfu sinni um fyrsta svarta skólastjórann. Þeir vilja líka, að fleiri svartir nemendur verði settir í nám á hærra stigi.” Einni 31 orðs málsgrein verið skipt í tvær 14 orða málsgreinar.”
Ungu Sovétríkin undir forustu Leníns þjóðnýttu flestar einkaeignir eftir byltinguna 1917 og átak Stalíns við að ná landinu af bændum með samyrkjubúum á fjórða tug aldarinnar leiddi til mannfalls milljóna manna af hungursneyð og fjöldamorðum.
Betra er: “Sovétríkin þjóðnýttu flestar eignir eftir byltinguna undir stjórn Leníns. Stalín þjóðnýtti landið á fjórða áratugnum með samyrkjubúum. Það leiddi til mannfalls milljóna af hungursneyð, nauðungarflutningum og fjöldamorðum.”
Farsímar eru að verða tölvur almennings. Þar er skjárinn lítill. Það eykur kröfur til aukins hraða á textanum. Í forritinu Twitter, sem notað er í fjölpósti í farsíma, er hámarksfjöldi stafa 140. Það jafngildir einni 17-23 orða setningu. Einni skjámynd í farsíma.
Þú kemst langt í stíl, ef þú tileinkar þér fyrstu reglu Jónasar:
Skrifaðu eins og fólk, ekki eins og fræðimenn
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé