Bagdikian I

Umræða
Bagdikian I

Ben H. Bagdikian
The New Media Monopoly
2nd Edition 2004

Eftir háfa öld af félagslegum markaðsbúskap að hætti Franklin Delano Roosevelt tóku Bandaríkin stefnu til hægri um 1980. Síðan þá hefur róttæki hægri kanturinn orðið að miðju í pólitíkinni. Auðmenn og stórfyrirtæki hafa grætt, fátækir hafa tapað.

Fjármagn til kosningabaráttu kemur frá auðmönnum og fyrirtækjum. Án gífurlegs fjármagns getur enginn boðið sig fram til Bandaríkjaþings. Fjármagnseigendur og málsvarar þeirra stýra stjórnmálum og fjölmiðlun í upphafi 21. aldar.

Raunverulegt val kjósenda og neytenda fjölmiðlunar er minna í Bandaríkjunum en í öðrum vestrænum ríkjum. Fjölmiðlar fá upplýsingar sínar hjá stjórnendum og forstjórum og talsmönnum opinberra stofnana og fyrirtækja og hægri samtaka.

Hugmyndafræði í Bandaríkjunum kemur frá samtökum á borð við Heritage Foundation, American Enterprise Institute og Hoover Institution. Frá slíkum stofnunum á hægri kanti stjórnmálanna koma umræðuefni fjölmiðla nú á tímum.

Fjölmiðlar hafa ævinlega stutt valdið í Bandaríkjunum. Þeir studdu dómsglæpinn gegn Sacco og Vanzetti á þriðja áratug síðustu aldar, uns stuðningur varð of seinn. Þeir studdu McCarthy árum saman á sjötta áratugnum.

Fjölmiðlar hafa ævinlega ráðist gegn spillingu í opinberri þjónustu, en hafa lítið gert gegn spillingu í einkarekstri. Pólitískur rétttrúnaður segir, að hið opinbera sé af hinu illa, en einkarekstur sé af hinu góða.

Clear Channel er stærsta útvarpskeðjan í Bandaríkjunum, á 1240 stöðvar og rekur þær með 200 starfsmönnum. Keðjan útvarpar músík og niðursoðnum þáttum róttækra hægri manna. Fox sjónvarpskeðjan er á róttækum og ofbeldishneigðum hægra kanti.

Fimm fyrirtæki stjórna fjölmiðlun í Bandaríkjunum:
1) Time Warner
2) Walt Disney
3) News Corporation (Murdoch)
4) Viacom
5) Bertelsmann

Þessi fimm fyrirtæki eiga flest dagblöð, tímarit, bókaútgáfur, kvikmyndaver, útvarps og sjónvarpsstöðvar í Bandaríkjunum. Stjórnir þeirra eru skipaðar sams konar fólki og sumpart sama fólkinu. 45 stjórnendur eru sameiginlegir.

Fyrirtækin fimm starfa saman að ýmsum verkefnum, fjárfesta sameiginlega í 141 tilviki og liðka til hvert fyrir öðru. Þau standa saman um aðgerðir til að tryggja velvild stjórnvalda. Innihald fjölmiðla þeirra er einsleitt.

Fjölmiðlun í Bandaríkjunum er ekki kapítalismi að hætti Adam Smith. Hún er fáokun, þar sem menn hafa einokun, hver á sínu svæði og gera gríðarlegar arðsemiskröfur, sem hafa leitt til mikillar fækkunar á ritstjórnum fjölmiðla.

Öll þessi fyrirtæki eru í eðli sínu íhaldssöm og styðja stjórnmál á hægri væng. Það endurspeglast í einsleitum fjölmiðlum. Sjónarmið, sem í Evrópu væru talin vera miðlæg í pólitík, eru í Bandaríkjunum talin vera á vinstri jaðrinum.

Fjölmiðlar risanna fimm endurspegla ekki grundvallarviðhorf kjósenda. 42% kjósenda eru frjálslyndir, en aðeins 33% íhaldssamir. Fjölmiðlarnir snúast um, að aðeins þeir síðarnefndu hafi nokkuð til síns máls, hinir séu hættulegir.

Sjónarhorn fjölmiðla er frá toppi þjóðfélagsins. Viðmælendur fjölmiðla eru valdamenn, ekki almenningur. Fullyrðingar valdamenn eru teknar trúanlegar, þótt reynslan sýni, að þeir segja ekki alltaf satt. Vandi almennings er lítt ræddur.

Í upphafi 21. aldar hafa venjulegir Bandaríkjamenn mestar áhyggjur af lélegri menntun barnanna, lélegum aðgangi að heilbrigðisþjónustu, vaxandi hættu á atvinnuleysi, heimilisleysi fólks og hrakandi fjárhag ríkis og sveitarfélaga.

Þetta eru ekki þau mál, sem fjölmiðlarnir taka fyrir, enda eru þeir í eigu aðila, sem hafa allt önnur vandamál, lækkun skatta og liðkun á svigrúmi fyrirtækja til að haga sér eins og þeim þóknast, til dæmis í umhverfismálum.

Flestir kjósendur hafa gefist upp og telja ofangreint ástand vera óhjákvæmilegt. Koma veraldarvefsins kann að breyta því. Voldugum mótmælaaðgerðum hefur verið komið af stað á grundvelli vefsins eins, þegar fjölmiðlar hafa þagað um þær.

Stjórnendur og stjórnarmenn fyrirtækjanna fimm eru sams konar fólk, sama fólkið og stjórnar fyrirtækjum í öðrum geirum atvinnulífsins. Þetta fólk hefur engann skilning á blaðamennsku eða fréttaflutningi og er andvígt rannsóknarblaðamennsku.

Árið 2002 brugðust bandarískir fjölmiðlar notendum sínum. Þeir tóku trúanlegar fullyrðingar um, að Írak hefði 500 tonn af efnavopnum, 25.000 lítra af miltisbrandi, og 38.000 lítra af bótúlisma. Á þessum forsendum var ráðist á Írak.

Bandarískir fjölmiðlar tóku líka trúanlega sögu hersins af hetjudáðum Jessica Lynch í Írak. Þær reyndust vera uppspuni frá rótum eins og gereyðingarvopnin í Írak. Enn þann dag í dag trúa margir Bandaríkjamenn bæði stóru og litlu lyginni.

Sex mánuðum of seint sýndi New York Times fram á, að Bush Bandaríkjaforseti hafði logið um Írak. Það kom líka í ljós, að blaðið hafði vitað á réttum tíma fyrir stríðið, að þetta var lygi, en hugsað sem svo: “Oft má satt kyrrt liggja.”

Mörg dæmi eru um, að bandarískir fjölmiðlar hafi birt sannleikann í málum af þessu tagi, en jafnan allt of seint, þegar of seint var orðið að hindra hræðilega atburðarás. Samt var sannleikurinn jafnan finnanlegur á fáförulum stöðum.

Robert Byrd öldungadeildarmaður var stimplaður elliær, þegar hann skýrði frá sannleikanum í þinginu. Sannleikurinn birtist í vefritinu Slate og í tímaritinu The New Yorker, þar sem Seymour Hersh fletti enn einu sinni ofan af stjórnvöldum.

Ljóst er, að meginstraumur bandarískra fjölmiðla lætur stjórna sér til að þegja nógu lengi yfir sannleikanum til að gera kjósendum ókleift að meta aðgerðir stjórnvalda í tæka tíð. Fjölmiðlar hræðast þá, sem veifa þjóðerni og fána.

Hvað eftir annað hefur komið í ljós, að meginstraumur fjölmiðla tekur trúanlegar fréttatilkynningar frá valdamiðstöðvum þjóðfélagsins og leiðir hjá sér andstæðar upplýsingar frá aðilum, sem taldir eru “frjálslyndir” eða “vinstri sinnaðir”.

Þegar fjölmiðlar höfðu stutt McCarthy í sex ár, kom Edward R. Murrow upp um hann á sjónvarpskeðjunni CBS. Í framhaldi af því var þáttur Murrow lagður niður og hann settur í önnur verkefni, sem fólust í þægilegum viðtölum við frægðarfólk.

Í meira en áratug studdu bandarískir fjölmiðlar stríðið í Víetnam. Það var eftir þrettán ár, að The New Yorker fór að birta greinaflokka, er sýndu, að stríðið var rugl, sem byggt var á margs konar lygi. 212.000 Bandaríkjamenn fórust í stríðinu.

Stríðið gegn Spáni um Kúbu 1898 var uppfinning blaðakóngsins William Randolph Hearst með aðstoð blaðakóngsins Joseph Pulitzer. Þá strax kom fram kenningin: “Þeir, sem ekki eru með okkur, eru á móti okkur.” “Við” erum yfirstétt landsins.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa séð notendum sínum fyrir svo lélegum og rangsnúnum upplýsingum, að Bandaríkjamenn skilja alls ekki, að fólk í öðrum löndum sé ekki óumræðilega þakklátt fyrir blóðug afskipti Bandaríkjanna.

“Af hverju hata þeir okkur svona,” spurði fólk, þegar það sá myndir af fólki með spjöldin: “Amy go home”. Bandarískir fjölmiðlar hafa færri fréttamenn erlendis en breskir, franskir og þýskir fjölmiðlar hafa hver fyrir sig.

Þess vegna skilja kjósendur í Evrópu utanríkismál og þess vegna skilja kjósendur í Bandaríkjunum ekki utanríkismál. Hinir síðarnefndu er fóðraðir á áróðri, sem framleiddur er af yfirvöldum, en hinir fyrrnefndu fá fréttir af vettvangi.

Þótt alfræðibækur upplýsi, að CIA og Henry Kissinger hafi staðið fyrir byltingu hersins í Chile, hefur New York Times ekki fattað það enn. Þótt alfræðibækur segi, að Bandaríkin studdu blóðbað Suharto, hefur New York Times ekki fattað það.

Um aldamótin síðustu var sífelldur flaumur upplýsinga um afbrot bandarískra stórfyrirtækja, svo sem Enron. Flestir fjölmiðlar þögðu um það. Markaðssíður þeirra fjalla um dásemd fyrirtækja og forstjóra, ekki um dómsmál þeirra.

Nútíminn hélt innreið sína með Mark Willes á Los Angeles Times 1985. Hann tók birtingarvald af ristjórum og afhenti það samstarfsnefndum ritstjóra og auglýsingadeildar. Ritstjórnarefni og auglýsingar áttu að vinna saman.

Sjá nánar: Ben H. Bagdikian
The New Media Monopoly
2nd Edition, 2004

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé