Umræða
Ben Bradlee
A good life, 1995
Ég hef verið heppinn. Að lifa af lömunarveiki. Að lifa af þrjú ár í Kyrrahafsstríðinu. Að kaupa hús í Georgetown nokkrum mánuðum áður en Kennedy flutti í næsta hús. Að sannfæra Phil Graham um að kaupa Newsweek á réttum tíma. Að finna Katherine Graham á réttum tíma, þegar hún tók við Washington Post.
Að skrifa er eitthvað, sem maður lærir, að minnsta kosti ég. Ég var búinn að skrifa í fimmtán ár áður en ég var orðinn nógu viss um, að ég gæti látið frá mér fara vel skrifaða frétt í góðu samhengi. Ritstjóri þarf góðan eiganda. Bestu blöðin í BNA eru í eigu fjölskyldna, sem taka þau alvarlega.
Fór beint frá Harvard í flotann. Í skóla hafði ég hallast að ræðumennsku, blaðamennsku og leiklist. Sextán ára var ég sendill hjá Beverly Evening Times og fékk að skrifa eindálka. Ég fór allt Cabotstræti og spurði í öllum búðum, hvort eitthvað væri að gerast hjá þeim. Fólk talar, ef því líður vel.
Fjölskyldan átti í erfiðleikum með áfengi. Bróðir minn er í afturbata, náði tökum á fíkninni fyrir löngu. Faðir minn drakk of mikið og áttaði sig aldrei á, hversu mikið persóna hans breyttist. Ég drakk eitthvað á hverjum degi eftir vinnu. Í Harvard var algert sjálfstæði, þú mættir eins og þú vildir.
Á þessum tíma hafði ég ekki eina sjálfstæða hugsun, til dæmis um pólitík. Ég las íþróttafréttir í blöðum. Ég náði litlum árangri í Harvard, rétt slefaði í prófi. Ég las engar bækur fyrr en ég var kominn í flotann. Ég var á nítján herskipum til að taka saman skýrslu um stjórn þeirra. Góð umsögn.
Ég vildi fara í blaðamennsku, en það gekk illa. Fór fyrst í bókasafnsvinnu. Var síðan með í að stofna vikublað í Manchester í New Hampshire. Okkur gekk vel að selja lesendum, en auglýsendur vildu ekki sjá okkur. Ég var mjög stoltur af efni þess, sem var verðlaunað. En það gekk ekki upp og var selt.
Eftir það komst ég í vinnu hjá Washington Post, þar sem menn vissu um vikublaðið. Byrjaði að umskrifa fréttatilkynningar og komst svo í héraðsdóm. Kynntist Lippmann. Komst í almennar fréttir, sem voru besti staðurinn á ritstjórn. Skrifaði mikið um fólk, sem átti í erfiðleikum.
Á þessum tíma sá Washington Post ekki svertingja. Við vorum hneykslaðir á, að blaðið þorði ekki að segja sannleikann. Ritstjórarnir voru hluti af yfirstéttinni. Ég hef alltaf verið andvígur lokuðum dyrum og reykfylltum herbergjum. Ég tel, að sannleikurinn muni gera yður frjálsa.
Alla ævi mína eftir flotavistina hef ég verið upptekinn af blaðamennsku, ástfanginn af henni. Samt tók ég starf upplýsingafulltrúa hjá USIS í París. Þar kynntist ég diplómatíu og hafnaði henni sem ævistarfi. Á þessum tíma skildum við hjónin. Arnaud deBorchgrave mælti með mér við Newsweek.
Erfiðast var að eiga við yfirreið ritstjóranna. Muir lifði fyrir umgengni við ríka og fræga fólkið. Vildi, að ég skipulegði fundi og dinnera með þeim í París. Harry Kern hafði meiri áhuga á góðum mat og víni. John Denson hafði ekki áhuga á neinu, vildi ekki sjá neinn Frakka og borðaði bara amerískt.
Blaðamenn og einkum ritstjórar eru alltaf hræddir um að vera ginntir af stjórnmálamönnum. Feimni við einkalíf frægs fólks hefur horfið. Við hjónin vorum miklir vinir Kennedyhjónanna, en ég vissi ekki neitt um víðtækt framhjáhald hans. Í þá daga var ekki til siðs að fjalla um slíkt, gengi ekki núna.
Ég er sár yfir því, sem hefur komið í ljós um einkalíf Kennedys. Eftir á er ég hneykslaður á kæruleysi og fyrirslætti hans í kvennamálum. Jack var sáttur við pressuna, en Jackie var illa við hana og nálægð hennar við einkalífið. Hún fyrirgaf mér aldrei bókina um Kennedy og þóttist eftir það aldrei sjá mig.
Kennedy og pressan voru sköpuð hvert fyrir annað. Hann notaði pressuna og pressan notaði hann. Báðir höfðu gaman af nærverunni, rifust stundum eins og vinir rífast, en skildu alltaf hlutverk hvors aðila um sig. Honum líkaði við blaðamenn, af því að þeir voru forvitnir um menn og málefni.
Skömmu eftir að ég flutti frá Parísarkontór inn á Washington-kontór Newsweek, kom í ljós, að blaðið var til sölu. Ég hringdi í Paul Graham og hvatti hann til að kaupa blaðið, sem hann gerði. Ég var gerður að fréttastjóra og fékk þar að auki hlutabréf í Washington Post fyrir að liðka til við söluna.
Newsweek losnaði við verslunarráðssvipinn, viðskiptalífssvipinn, repúblikanasvipinn og fór að leita að nýjum miðum. Fljótlega framdi Phil Graham sjálfsmorð vegna þunglyndis. Ég þekkti lítið til ekkju hans, Katerhine Graham, en eigi að síður bauð hún með starf sem fréttastjóra við Washington Post.
Eisenhower ávarpaði flokksþing repúblikana með því að horfa í blaðamannastúkuna og skamma blaðamenn, kallaði þá æsiálitsgjafa. Síðar þegar ég kynntist Barry Goldwater vakti athygli mína, hversu ofsalega smásálarlegir og þröngsýnir helstu ráðgjafar hans voru. Sjálfur var hann í lagi.
Ég hafði afþakkað tvö boð um frama hjá Newsweek, en tók boðinu frá Washington Post. Fréttastjóri hafði verið Al Friendly, sem sinnti lítið smáatriðum og hafði því tapað stjórn. Ég fór strax í að ráða bestu menn, sem völ var á. Engir voru svartir og WP stóð sig illa í málefnum blökkumanna.
Ekki nógu góðar sögur. Enn erfitt að lesa blaðið. Framleiðslan var léleg. Hönnunin var beinlínis ljót. Ég fór strax að hamast í að fá aukið fjármagn. Lærði, að þú verður alltaf að vita meira en fjármáladeildin. Gerði mikið úr tveimur ritstjórnarfundum, öðrum kl. 14:30 og hinum kl. 19.
Leiðarasíðan var á mínu valdasviði. En ég hafði litlar og ópólitískar skoðanir. Hafði meiri áhuga á staðreyndum og fólki en á skoðunum á þessum staðreyndum. Ráðning góðra manna varð að meginhlutverki mínu. Ég vildi, að WP hefði bestu menn landsins á öllum sviðum. Við réðum og réðum fólk.
Við keyptum International Herald Tribune og áttum í heiftarlegri samkeppni við alþjóðaútgáfu New York Times. Löngu síðar varð samstarf beggja blaðanna um þessa útgáfu, eftir langvinnan taprekstur. IHT var alltaf blaðamennskulegt afrek, en gekk aldrei vel fjárhagslega.
Ég var andvígur því, hvernig Vietnam stríðið mergsaug Bandaríkin og olli flokkadráttum. En ég hafði lagt trúnað á söguna um, að Bandaríkin ættu að hjálpa hinum litlu. Aftur kom að hjónaskilnaði í lífi mínu. Eins og fyrri konan gat hún lítinn þátt tekið í linnulausri ást minni á blaðamennsku.
Pentagon Papers skúbb NYT var WP lærdómsríkt. Nokkrum dögum síðar náðum við líka í eintak. NYT hafði verið stöðvað með dómsúrskurði að halda áfram birtingu. Við birtum samt málið. Allir voru sammála um það. Við vildum geta borið höfuðið hátt, létum ekki stjórnvöld eða hæstarétt stjórna okkur.
Pentagon Papers málið varð til að efla traust milli Graham fjölskyldunnar og fréttastofu blaðsins. Menn fengu aukið sjálfstraust, tilfinningu fyrir markmiðum og samkomulag um ný takmörk og hvernig þeim skyldi náð. Aldrei hef ég séð nein dæmi um, að birting Pentagonskjalanna hafi skaðað ríkið.
Watergatemálið var vendipunktur hjá WP. Eftir það var ekki talað um NYT, heldur um NYT og WP. Við vorum orðnir jafningjar. Við vorum í níu mánuði einir um fréttina, nöguðum hér og þar utan í hana án hjálpar annarra fjölmiðla. Eftir níu mánuði tók NYT við sér og Walter Cronkite hjá CBS.
Í fyrstu vissum við ekki, að þetta var feluleikur, skipulagður í Hvíta húsinu. Talsmenn stjórnvalda hömuðust á lélegri blaðamennsku WP. Woodward og Bernstein héldu áfram að grafa og grafa. Enn eiga menn erfitt með að skilja, hvernig WP gat haldið áfram, þrátt fyrir stöðugar afneitanir stjórnvalda.
Smám saman áttuðum við okkur á, að fréttir okkar voru réttar. Það var hægt að fá þær staðfestar, þegar við endurprófuðum þær. Hvíta húsið talaði um samansafn fáránlegra staðhæfinga, en NYT fór að vinna á sama hátt og við. Böndin bárust að ráðgjöfum Nixons, einkum Haldeman, og síðan að Nixon sjálfum.
Smám saman fóru dómar að falla, gegn innbrotsþjófunum í Watergate of yfirmönnum þeirra. Sirica dómari felldi harða dóma. Eftir það fór pressan í fullan gang og málið varð óstöðvandi. Áhuginn fluttist yfir til þingnefndar Ervins. Þá vissi enn enginn um segulböndin í Hvíta húsinu, sem komu síðar í ljós.
Blaðafulltrúi Nixons baðst síðan afsökunar, bæði WP og blaðamennina tvo, Woodward og Bernstein. Allt stefndi í óefni hjá Nixon, enginn botn var sjáanlegur. John Dean vitnaði fyrir nefndinni og Butterfield skýrði frá segulböndunum. Öll leyndarmál Watergatemálsins voru á þessum segulböndum.
Eftir á að hyggja er ég dálítið hissa á, að ég skyldi ekki krefja Woodward um, hver Deep Throat væri, lét mér nægja að vita um, hvar hann stæði í kerfinu. Miðað við, hve mikið var í húfi, hefði ég átt að vita það. Ef þetta væri að gerast núna, mundi ég heimta að fá að vita, hver hann væri. Nú veit ég.
Archibald Cox saksóknari var ákveðinn í að ná í seguböndin. Til þess að þurfa ekki að reka hann sagði Richardson dómsmálaráðherra af sér. Leon Jaworski tók við af Cox og hélt áfram sömu stefnu. Allt varð vitlaust í þjóðfélaginu og Nixon tapaði stuðningi flestra þingmanna repúblikana.
Þegar Nixon sagði af sér, bannaði ég, að blaðamenn annarra fjölmiðla kæmu á ritstjórn WP. Ég vildi engar sögur af fögnuði á WP. Virðing okkar hafði verið í voða í tvö ár og ég vildi ekki spilla sigrinum með óviðeigandi fögnuði. Enda bjó Nixon sjálfur til sitt eigið helvíti.
Því miður hafa stjórnmálamenn aðeins lært eina lexíu af Watergate: Ekki láta koma upp um þig. Dómum yfir fulltrúum hins opinbera hefur fjölgað úr 43 árið 1975 í 429 árið 1984. Eftir Watergate hafa fulltrúar stjórnvalda almennt og af eðlisávísun haldið áfram að ljúga, þegar spurt er óþægilega.
Ég hef fyrir löngu fullkomnað þá list að hanga í fréttastofunni, rabba við fólk frá einum hópi til annars, hlusta, segja kjaftasögur og spyrja blaðamenn um, hvernig fólkið sé, sem þeir eru að skrifa um. Þetta hangs er besti tími dagsins og besti hluti starfsins.
Sally Quinn hætti hjá okkur af því að hún var skotin í mér og fór að vinna hjá CBS. Það gekk ekki og NYT passaði ekki fyrir hana heldur. Hún kom því til baka, grunuð um að vera ástkona Bens. Ég var 52 ára, hún tuttugu árum yngri. Við áttum eftir að eiga að langt og spennandi líf saman.
Í þriggja mánaða fríi eftir Watergate skrifaði ég Converstations with Kennedy. Ég hef alltaf orðið órólegur eftir tvær vikur í fríi. Ég hef neitað að fara í Gridiron klúbbinn. Eftir Watergate var lengi friðsamt á innanlandsmarkaði frétta í Bandaríkjunum, svipuð stórmál komu ekki í ljós.
Kvikmyndin All the Presidents men var góð. Stælingin á ritstjórnarskrifstofu WP var fullkomin. Það kom mér á óvart, að hægt væri að koma helstu atriðum Watergatemálsins fyrir í 147 mínútum. Woodword og Bernstein urðu stjörnur, sem þeir áttu skilið. Inn í stéttina kom fullt af ungu og efnilegu fólki.
Eftir Watergate er sama, hvað spunameistarar segja, þá hef ég alltaf byrjað að leita sannleikans eftir að þeir hafa talað. Almennt eru blaðamenn fullir efasemda um sannsögli stjórnmálamanna og embættismanna. Blaðamenn urðu hluti yfirstéttarinnar, sem hefur svo haft vandamál í för með sér.
Pressan var þjóðinni ekki til mikillar hjálpar, þegar sparisjóðirnir voru að hrynja. Pressan brást líka þjóðinni í Iran-Contra málinu. Bæði þessi mál voru stórmál, sem þjóðin meðtók ekki, meðal annars vegna lélegrar frammistöðu fjölmiðla. Watergate stendur eitt eftir sem stóra mál fjölmiðlanna.
WP lenti í miklum átökum við stéttarfélag starfsmanna. Prenta varð blaðið annars staðar og ráða nýtt starfsfólk í prentsmiðju. Engar sættir náðust og verkfallinu lauk eftir 139 daga. Blaðið kom út allan þann tíma, nema fyrsta daginn. Stéttarfélag starfsmanna hafði lítinn sóma af þessu ævintýri.
Í mínum huga hefur alltaf verið óhugsandi, að forseti Bandaríkjanna, forstjóri FBI, verslanaeigandi eða reiður lesandi geti sagt mér, að ég eigi að birta eða birta ekki eitthvað í blaðinu, og enn síður, hvort það eigi að vera á forsíðunni eða ekki. Samt hef ég gert slíkt tvisvar á ævinni.
Er hægt að treysta því, að öryggi ríkisins sé í hættu, ef einhver valdamaður segir það. Pentagon Papers sögðu okkur þið gagnstæða. Öryggi ríkisins er nánast aldrei í hættu. Samanber Jordaníumálið. Við urðum ekki við beiðni Jimmy Carter, þótt hann játaði allt og væri einlægur. Öryggi ríkisins var OK.
Blaðamenn eru mjög viðkvæmir fyrir sjálfum sér. Þeir telja nægja, að verk þeirra séu daglega til sýnis, ólíkt verkum annarra stétta. Við höfum lengi haft okkar eigin umba, frá 1969. Þeir eru óháðir eftirlitsmenn með sanngirni, nákvæmni og mikilvægi.
Róttækir hægri menn í þjóðfélaginu hafa öflugt eftirlitskerfi, sem kaffærir blaðamenn í fullyrðingum um, að fréttir þeirra séu rangar. Einkum er þar Accuracy in Media, framtak Reed Irvine, sem hefur lengi verið plága á baki fjölmiðla í Bandaríkjunum. Hann hefur sérstakt horn í síðu WP.
Okkur vantar djúpt grundaða gagnrýni á pressuna. Flest dagblöð eru nú sátt við leiðréttingadálkinn á bls.2 eða 3. Oft eru birtar nýjar fréttir til að leiðrétta missagnir í fyrri frétt. Mesti galli pressunnar er þó sá, að við birtum falsaðar upplýsingar frá forsetum, spunameisturum og fíflum.
Við þurfum að vanda betur heimildamenn okkar. Við eigum helst að láta nöfn þeirra koma fram og að öðrum kosti þrengja staðsetningu þeirra í kerfinu. “Samkvæmt heimildamönnum blaðsins” er vont orðalag. Við þurfum að skilgreina þá, svo að lesendur geti áttað sig betur á, hvort hægt sé að treysta þeim.
Janet Cooke var stóri skandallinn hjá WP. Hún var ráðinn á forsendum, sem síðar reyndust falsaðar. Hún þóttist hafa tekið viðtal við átta ára heroínsjúkling, sem reyndist síðar vera uppspuni. Blaðið fékk Pulitzerverðlaun fyrir þetta skelfilega viðtal, sem enn hvílir eins og mara á mér.
Ég fékk umba blaðsins í málið og hann skrifaði fjögurra síðna grein, það rækilegasta sem nokkur fjölmiðill skrifaði um það. Í 18.000 orðum skilgreindi hann vandann og lagði til endurbætur. Hann taldi, að gæðaeftirlit á ritstjórn WP hafi brugðist í málinu, það er að segja ritstjórnin sjálf.
Ég skilaði Pulitzerverðlaununum og bauðst til að segja af mér, en því var hafnað. Við höfðum því miður treyst Cooke, höfðum látið undir höfuð leggjast að tékka hana af, við vorum orðnir slappir í kröfum um heimildamenn og rákum ekki nógu mikið eftir því að fá að vita nöfn þeirra.
Vandinn er sá, að erfitt er um varnir, þegar lipur lygari læðist inn í herbúðir þínar. Tékkaðu starfsumsóknir vel. Varaðu þig á sögum, sem þú vilt, að séu sannar. Leitaðu aðila, sem eru annarrar skoðunar. Láttu aðra blaðamenn meta málið. Vertu svo aldrei leiður yfir því, að hlutir fara oft illa.
WP átti í miklum erfiðleikum út af dagsannri frétt um kaupsýslumanninn Tavoulareas, sem höfðaði meiðyrðamál gegn blaðinu og vann á sumum dómstigum. Það var ekki fyrr en eftir hálft áttunda ár, að hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði WP í vil með atkvæðum sjö dómara gegn einu.
Reglan um einkalíf er þessi: Drukkinn heima, hans mál, drukkinn á þinginu, okkar mál. Við höfum oft verið sakaðir um að birta ríkisleyndarmál, þótt til dæmis Sovétríkin hafi vitað um þau. Við vorum sakaðir um hástig villimennsku, en ekkert hefur komið fram um, að fréttin hafi skaðað ríkið.
Það hefur alltaf verið til skaða, þegar við höfum sýnt valdamönnum uppkast að frétt. Eftir að hafa hlustað á fullyrðingar Nixons um ríkisleyndarmál eiga blaðamenn mjög erfitt með að trúa fullyrðingu um ríkisleyndarmál. Enginn á að geta blekkt þjóðina á þeim grundvelli, að blaðamenn þori ekki.
FBI sakaði einu sinni fréttaritara WP um að hafa tekið við 1.000 dollurum frá KGB-manni. Þetta var tilbúningur, sem framleiddur var til að varpa skugga á góðan blaðamann og á WP. Blaðamaðurinn hafði skrifað eitthvað, sem kom illa við CIA og stofnunin ákvað að koma honum illa í staðinn.
Smám saman hafa blöð nálgast einkalíf fólks í skrifum. Gary Hart var ósvífinn og ögraði blaðamönnum og þeir komu upp um kvennafar hans. Hann varð að hætta við framboð. Sama hefði gerst með Kennedy, ef fjölmiðlar hefðu verið orðnir eins grimmir á hans tíma. En það var löngu áður og tímarnir voru aðrir.
Vond er blaðmennska, þar sem blöð hella olíu á hvaða reyk, sem þau finna, áður en þau komast að því, hvað sé að brenna og hvernig standi á því. Blaðamennska má samt vera skemmtileg aflestrar. Blöðin hafa fært sig hæfilega nær einkalífinu en áður, en alltaf hafa sum þeirra farið yfir strikið.
Ég fann, að ég var búinn að reyna nóg í blaðamennsku og að engin stórmál mundu koma upp á næstunni. Ég hætti störfum árið 1991, sjötugur að aldri, þegar ég var búinn að vera á WP í tæp 29 ár. Verst þykir mér, að erfiðara er nú en áður að ná sannleikanum. Fólk lýgur þindarlaust, ef sannleikurinn er sár.
Sjá nánar:
Ben Bradlee
A good life, 1995
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé