Fagfólk og amatörar

Nýmiðlun
Fagfólk og amatörar

Jane Intelligence Review sendi grein í yfirlestur til Slashdot og fékk mikið af athugasemdum. Blaðið umskrifaði greinina með tilliti til athugasemda amatöra. Þar með var tímaritið orðið aðili að samtali vefsins.

Samtals vita notendur fjölmiðla meira um mál en fagmenn í fjölmiðlun. Notendur munu yfirgefa fjölmiðla, ef þeir fá þar ekki fullnægjandi fjölmiðlun. Smám saman mun eignarhald blaðamennsku færast yfir á notendur, en blaðamenn verða áfram til.

Þróun mála hefur neikvæð áhrif á fjárhag fréttastofa. Þess vegna er ástæða til að óttast minnkað fé til rannsókna og úttekta. Ef hefðbundnir fjölmiðlar bila að þessu leyti, hvar eru þá bloggarar til að takast á við nýtt Watergate eins og Washington Post gerði?

Margir rannsóknablaðamenn starfa þó utan fjölmiðla. Wilfred Burchett: Hiroshima 1945. Seymour Hersh: My Lai 1970. Günter Wallraff: Ganz unten 1985. Paul Foot: Lockerbie 2001. Bækur um Kosovo, Afganistan og Írak.

Tækifæri hefðbundinna fjölmiðla: Furðulegt er, að sumir fjölmiðlar hafa ekki enn sett netföng blaðamanna við greinar þeirra. Ef blaðamenn eru ekki hluti umræðunnar, þá tala notendur bara hver við annan. Aðild blaðamanna að umræðunni er fyrsta skrefið.

Reynsla Gillmor af athugasemdum við blogg hans er, að þær koma af stað umræðu við heimildafólk og lesendur, sem segja honum hluti, sem hann vissi ekki. Stundum segir hann frá efni fyrirhugaðra greina til að fá sjónarmið lesenda í tæka tíð.

Opin blaðamennska minnir á opinn hugbúnað. Notendur tala ekki bara við höfunda, heldur hver við annan. Þar eru tröll í bland, en í stórum dráttum gengur umræðan vel. En allt þetta samtal grefur undan stjórn hefðbundinna fjölmiðla, trúaratriði þeirra.

Flestir starfandi blaðamenn í Bandaríkjunum skoða blogg Jim Romenesko hjá Poynterstofnuninni. Það er kaffivél fagsins. Þar heyra menn slúðrið um það, sem gerist í faginu. Slúðrinu fylgja krækjur í heimildir.

Sumir fjölmiðlar reyna að koma strax af stað umræðu í bloggi um skúbbfréttir. Þar með verður heimasíða fjölmiðilsins að miðstöð nýrra frétta. Aðrir fjölmiðlar telja blogg starfsmanna vera hagsmunaárekstur. Slíkir miðlar trúa enn á miðstýringu að ofan.

Krækjum fylgir álit, hlustun:
Á bloggi Gillmor setur hann oft krækjur í frásögur annarra, þar á meðal keppinauta. Það gera flestar fréttastofur. Athugið þó, að flestir notendur vefsins geta fundið þessar frásögur með Google án þess að nota krækjur.

Notendur beðnir aðstoðar: Við höfum birt lesendabréf og tekið símtöl, en þurfum að gera meira. Við allar fréttir þarf að vera netfang til að auðvelda notendum að senda efni, ljósmyndir og SMS skilaboð.

Athugið þó, að hætta getur verið á málaferlum. Inn getur borist efni, sem varðar við lög, dónalegt efni eða illort. Fjölmiðillinn getur orðið ábyrgur fyrir þessu efni. Viðkomandi blaðamaður þarf að verja miklum tíma í að taka þátt í samtali og í að grisja umræðuna.

Fjölmiðlar geta selt auglýsingapláss hjá efni frá notendum.
Þátttaka almennings í blaðamennsku getur leitt til þess, að honum finnst hann vera eins konar hluthafi í blaðamennskunni.

Hvetja til baráttu og segja frá henni: BBC hefur gert mikið í að auka aðild almennings, iCan. Er vettvangur fyrir baráttufólk til að sameina krafta sína. Blaðamenn sömdu vinnureglur og fjarlægja ólögleg ummæli, filtra efnið. Átak til stöðvunar eineltis í skólum.

Borgaralegir fréttamenn: OhmyNews er fréttaþjónusta á netinu, skrifuð af notendum. Þar eru 50 starfsmenn og 26.000 fréttaritarar. Þeir fjalla um mál, sem hefðbundnir fjölmiðlar hafa vanrækt. Sendar eru inn 200 sögur á dag, þar af birtar 70.

Tækni fréttastofunnar: Myndsímar. Hljóðbitar og myndbitar.
BBC lét starfsmönnum sínum í té 3G síma síðla árs 2003.

Ný kennsla: Kennsla í blaðamennsku er íhaldssöm. Þaðan koma nýliðar. Gagnvirk fréttaöflun og ritstjórn er orðin liður námsins. Áhrif frá leiklistardeild Yale. NYU reynir að sérhæfa starfandi blaðamenn eftir pöntunum þeirra.

Skólar í blaðamennsku þurfa að færa sig úr fyrirlestraformi yfir í samtalsform. Mikið af byggðum, 100.000 íbúar eða færri, hafa engan hefðbundinn fréttamiðil. Þar þarf að leita samstarfs við notendur, sbr. goskokie.com, bb.is, vf.is.

Spurning um traust:
Áfram þarf að varðveita forsendur á borð við sanngirni, nákvæmni. Og áfram þurfum við ritstjóra. Fólk treystir ekki bloggi, sem lýtur ekki aga.

Til skjalanna hafa komið þungavigtarbloggarar, vefsíðuhönnuðir, póstlistaeigendur og SMS-sérfræðingar, sem eru orðnir lykilfréttamiðlar fyrir aðra, þar með fyrir hefðbundna fjölmiðla og fagmenn í blaðamennsku.

Bloggarar eru alls staðar: Tilgangslaust er orðið að segja fréttir “off the record” í stórum hópum, þar sem er fólk, sem ekki þekkir eða vill ekki þekkja hugtök í blaðamennsku, en bloggar.

Helsta gagnrýnin á blogg felst í, að það sé sjálfmiðjað raus, aðeins áhugavert fyrir ættingja og vini. En vaxandi fjöldi blogga er skrifaður af fólki, sem vill tala greindarlega á sínu sérsviði. Groklaw er helsta fréttauppspretta um lagaflækjur SCO Group.

Þróun og bylting: Derakhshan breytti stillingum í Blogger og gat póstað á persnesku. PersianBlog. com var stofnað 2002 og hafði 100.000 notendur á innan við 2 árum. Það er vefur fyrir kúgaða þjóð, segir margt um stjórn, sem reynir að ná stjórn á tækninni.

Harðstjórnir geta þaggað niður í einstaklingum og gera það. Kínversk stjórnvöld áttuðu sig á þessu fyrir löngu og reyna að útiloka vinsælustu gagnrýnisraddirnar frá almennri dreifingu. En slíkar raddir heyrast samt. Árið 2007 heyrðust þær í Burma.

Hagnaðarlaus útgáfa borgaranna: Dæmi: Melrose Mirror, SilverStringer, Junior Journal. Þetta er ekki mikil samkeppni við hefðbundna fjölmiðla, en hefur kraft, sem vantar í hefðbundna fjölmiðlun. Þetta er útvíkkun fréttamennskunnar.

Annars konar miðlar blómstra: Jaðarmiðlar í Bandaríkjunum hafa ekki nýtt sér netið vel. Eitt besta dæmið er Indymedia, stofnað 1999 af andstæðingum hnattvæðingar. Var orðið öflugur miðill um allan heim árið 2003. Vantar þó ritstjórn og skortir áreiðanleika.

Fleiri dæmi: Democracy Now! Kuro5hin. Þar kjósa notendur og færa fréttir upp og niður. Command Post birtir efni um Írak. Center for Public Integrity hefur fína rannsóknablaðamennsku. T.d. The Buying of the President 2004.

Ef hefðbundnir fjölmiðlar dala, munu áhugahópar, áhugastofnanir og auðugir einstaklingar líta á fyrirbæri á borð við Center for Public Integrity sem leiðina til að veita upplýstum borgurum vald. Rannsóknablaðamenn munu fá vinnu hjá slíkum stofnunum.

Hér á Íslandi hefur þessi þróun ekki enn orðið. Hefðbundnir fjölmiðlar sjá enn um rannsóknir og aðra tímafreka blaðamennsku. Bloggarar eru enn einkum í skoðunum. Hér eru ekki enn til sjóðir, sem ráða blaðamenn til rannsókna til birtingar á vefnum.

Wikimiðla fyrirbærið: Ein merkasta birtingarmynd hinnar stafrænu aldar. Varð mikilvægt á þremur árum. Allir geta ritstýrt öllu. Skemmdarvargar spilla, en samt hefur Wiki náð fótfestu. Allt er lagað samstundis, eins og gert er við brotna rúðu í góðu hverfi.

Skemmdarvargar á Wiki átta sig á, að skemmdirnar eru lagfærðar innan fárra mínútna. Þeir gefast því upp. Sum atriði eru umdeilanleg. Og stundum eru menn bannfærðir. Venjulega er fólk gott.

Wiki Travel sýnir möguleika stefnunnar við réttar aðstæður. Það er leiðsögusafn skrifað af fólki, sem býr á staðnum eða hefur dvalist þar lengi.
Wiki þarf ekki að vera opinn, getur verið að baki eldvarnaveggs.

Viðskiptamynstur persónulegrar blaðamennsku framtíðarinnar: Áhugaverðir möguleikar eru að koma í ljós. Auglýsingar og áskriftir. Bloggið er auglýsing á höfundinum. Þetta er örútgáfa, byggist á lágum og engum kostnaði.

Örútgáfan nýtir holur, sem eru of litlar fyrir tímarit. Weblogs Inc. greiðir höfundum óskipt $ 1.000 á mánuði og 50/50 eftir það. Google getur sett auglýsingar á vefsíður eftir efni þeirra. Það gefur sumum dálitlar tekjur. BlogAds miðar bara við blogg.

Blogg getur auðveldað höfundum að koma freelance greinum á framfæri við hefðbundna fjölmiðla. Það gerir þekktan bloggara að viðurkenndum sérfræðingi á afmörkuðu sviði.

Nýtt viðskiptamynstur, samskotabaukurinn: Andrew Sullivan safnaði fé frá lesendum, svipað og Public Radio. Sendu mér peninga og ég fer til Írak. Þetta er erfitt, menn þurfa að vera fókuseraðir og skrifa um ágreiningsefni.

Josha Marshall safnaði fé til að fylgjast með forkosningu í New Hampshire.
Sennilega verða fáir ríkir á að blogga nema þeir hafi að baki sér sjóði, velgerðarmenn eða aðra tekjupósta.

Í stað þess að reka fréttaflutning í samkeppni við einkamiðla, getur Rúv breyst í sjóð, sem fjármagnar rannsóknir óháðra blaðamanna til birtingar á vefnum. Þannig má fyrir óbreytt fjármagn fá miklu virkari leið til að veita aðhald hefðbundnum fjölmiðlum.

Sjá nánar:
Dan Gillmor: We the Media, Grassroots Journalism by the people for the people, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé