Blaðamennska
Fréttaljósmyndir
Hlutverk mynda hefur breyst. Fleir myndir eru notaðar dramatískt. Meiri áhersla er lögð á myndir til að segja sögur og gefa innsýn. Þessi bók er ekki handbók um tækni, hún er bók um innihald. Hún er um myndrænar ákvarðanir blaðamannsins.
Mikið er vitnað í ljósmyndara. Þeir segja frá, hvernig þeir “sjá” frétt. Við reynum að skyggnast inn í hug þessa fólks. Við sjáum, að heppnin er með þeim, sem er vel undirbúnir. Sagt er frá stafrænni ljósmyndun og áhrifum hennar á traust.
Ljósmyndablaðamennska: Að segja sögu með mynd, skrifa með myndavél, fastsetja andartakið. Henri Cartier-Bresson: “Úrslitastundin.” Ljósmyndablaðamennska er ekki bara mynd úr stríði á fjarlægum stað, hún er á næsta götuhorni, í ráðhúsinu.
Ljósmyndablaðamennska nær kjarnanum í hamingju sigurvegarans og einmana andartaki í örvæntingu taparans. Ljósmyndarinn sýnir fólki það, sem það gat ekki séð sjálft. Hann tekur andartak í sögunni og varðveitir það til framtíðarinnar.
Sérstaka ástríðu þarf til að ljósmyndablaðamennska heppnist. Það er ástríða, sem lyftir einum ljósmyndara upp yfir aðra. Fyrir utan misgóða tækni, þá er það ábyrgð og skuldbinding, sem ræður úrslitum.
Mike Morse: “Sumir líta á allt, sem þeir gera, eins og vinnu og þeir vilja vera góðir iðnaðarmenn. Síðan eru aðrir, sem ljósmynda af ástríðu. Þeir hafa raunverulegan áhuga á starfinu og það sést í myndum þeirra.”
Fréttaljósmyndarinn þarf að hugsa meira eins og blaðamaður heldur en sem ljósmyndari. Menn fara í þetta til að láta að sér kveða, sýna líf fólks, gleði þess og ótta og sorg. Að segja heiminum, hvað sé að gerast kringum hann.
J. Bruce Baumann: “Ljósmyndarar eiga að vera á höttunum eftir nýjum hugmyndum, fara nýjar leiðir, leita að hlutum, sem eru að gerast.” Ljósmyndarinn er undir það búinn að fá kvöldmatinn oft kaldan.
Langir dagar eru algengir. Ljósmyndarar þurfa að taka hundruð ákvarðana á degi hverjum. Verð ég á réttum stað? Næ ég myndinni, sem ég er með í huganum? Verð ég með réttu linsuna og réttan lýsingartíma til að segja söguna?
Amy Sancetta: “Þú verður að elska starfið, því að vinnutíminn, verkefnin, tilfinningalegar hæðir og lægðir eru oft of mikið af því góða, ef þú elskar það ekki. Þetta er starf að sköpun.” Ef þú nærð ekki góðu myndinni, líður þér illa.
J. Pat Carter: “Ljósmyndarar geta ekki verið töffarar.” Margir ljósmyndarar hafa verið viðstaddir mikinn harm og mikla sorg. Þetta þyrmir yfir marga ljósmyndara. En þeir hafa vinnu að vinna. Þeir eru augu umheimsins að atburðinum.
Ed Reinke myndaði umferðarslys, þar sem rúmlega tuttugu ungmenni fórust í rútu, og var næstu daga að mynda eftirleikinn, jarðarfarir og kveðjuathafnir: “Ég var kominn á leiðarenda, ég gat ekki meira.” Hann varð að taka nokkurra daga frí.
David Longstreath myndaði sprenginguna í Oklahoma City: “Allar aðstæður hafa áhrif á þig. Þú viðurkennir, að þú ert bara mannlegur. Þú setur tilfinningarnar á hliðarspor meðan þú lýkur verkinu, en síðan verður þú að leyfa þér að finna til.”
Longstreath áfram: “Þú verður að bera þungann af augnaráði og reiðiorðum. Þú verður að hafa meðvitund um þarfir fólks og ljósmynda af tilfinningu.” Michael DuCille: “Þú verður að umgangast viðfangsefnið af virðingu og án fordóma.”
Ljósmyndari veit, hvenær hann á að hætta að mynda og draga sig í hlé. Jerome Delay: “Þú sérð, þegar þú ert kominn inn í einkalíf fólks. Þetta er eins og að dansa með úlfunum.” Andspænis persónu sem hefur misst ástvin í slysi eða stríði.
Góður ljósmyndari fylgist með straumnum, en hefur sjálfur nokkra stjórn. Allir geta rekið myndavél framan í alla, en góður ljósmyndari metur stöðuna og sér myndefnið, þegar það gerist. Heppni er blanda undirbúnings og tækifæra.
Til skamms tíma var Baumann ekki ánægður með framavonir ljósmyndara: “Praktískt séð var ekki neitt til hærra fyrir ljósmyndara en að verða aðstoðarritstjóri mynda og grafadeildar.” En nú eru hann og fleiri orðnir fréttastjórar.
Til þess að ljósmyndarar geti unnið sig upp virðingarstigann, þurfa þeir að geta talað mannamál við fólk um ljósmyndir. Ef menn geta tjáð sig á skiljanlegan hátt, fá þeir meiri virðingu, sem leiðir til þess, að þeir klifra upp stigann.
Ljósmyndari þarf að “selja” yfirmönnum ljósmynd eins og blaðamaður “selur” frétt. Hann talar ekki um “visual impact”, heldur notar orð, sem fólk skilur. Hann útskýrir sögugildi myndarinnar með sömu hugtökum og aðrir blaðamenn.
Ljósmyndari á uppleið hefur þann forgang, að hann þekkir fleiri svið ritstjórnar en skrifin ein. Áður var ljósmyndin ekki hluti af því mynstri, heldur viðbót. Nú er ljósmyndin eins mikill hluti af sögunni og skrifaði textinn er.
Því er eftirspurn eftir fólki, sem skilur ljósmyndir og áhrif þeirra á notendur fjölmiðla. Afleiðingin af því er, að upp á síðkastið er farið að ráða millistjóra ljósmyndadeilda sem fréttastjóra á dagblöðum.
Þessi bók er skrifuð að því gefna áliti, að þú kunnir á myndavél, vitir um lýsingartíma og kunnir að fara með stafrænar myndir á skjá. Hún er tilraun til að leiða þig áfram upp úr tækninni og yfir í góða ljósmyndablaðamennsku.
Íþróttir: Það er ekki nógu gott að taka mynd, sem meinar ekkert. Stundum förum við eftir formúlunni og leitum ekki að myndinni einu. Við eigum að leita að aðalandartaki sögunnar. Svo einfalt er það. Lykillinn að því er að veita eftirtekt.
Eric Risberg: “Vertu ekki alltaf á sama stað. Reyndu aðra tökustaði. Það heldur áhuga þínum og athygli þinni við að líta á leikinn frá öðru sjónarhorni.”
Rusty Kennedy notar alltaf mjög langar kíkislinsur, 400-800 mmm, til að einangra myndefnið. “Ég reyni alltaf að nota eins langa kíkislinsu og hægt er. Ég fæ góða hreyfingu, bakgrunnur hverfur út út fókus og myndefnið stekkur út úr myndinni.”
Íþróttamyndarar fást í kippum fyrir krónu, en ljósmyndarinn, sem nær viðbrögðum, er hátt yfir hina hafinn. Ljósmyndarar þurfa að hafa auga fyrir fjölbreytni í myndefninu, taka alltaf öðru vísi myndir en þeir hafa áður tekið.
Körfubolti:
1) Farðu að hliðinni og myndaðu inn á völlinn að körfunni með 85-105 mm linsu til að einangra atburðinn og deyfa bakgrunninn.
2) Notaðu 180 mm linsu frá miðjunni. Lýsingin verður betri af því að þú skýtur ekki á móti dökku. Og myndirnar verða betri af því að þú ert með meira af augum og minna af olbogum í myndinni.
3) Fylgstu með viðbrögðum þjálfaranna til að gefa íþróttastjóranum aukaefni. Sögunni fylgja alltaf ummæli þjálfarans.
4) Ef lýsing er vond, reyndu að komast upp. Með því að skjóta ekki gegn ljósum verður lýsingin betri.
Golf:
1) Kannaðu vallarkortið og findu fléttu af holum, sem þú getur haft yfirsýn yfir.
2) Tryggðun þig með því að taka snemma nokkrar myndir af toppmönnum á teig.
3) Ekki vera nákvæmlega í skotlínu golfarans.
4) Fylgstu með bakgrunni. Vertu þar sem bakgrunnur er hlutlaus. Himinn er vondur bakgrunnur, af því að hann gefur svo breytilega birtu.
John Biever les íþróttatímarit og fylgist með íþróttaþáttum í frístundum. Íþróttamyndarar þurfa að lifa sig inn í sportið og finna fyrir æsingnum. Þeir þurfa líka að venja sig á að hugsa eins hratt og íþróttamennirnir.
Amy Sancetta vissi, að McEnroe tennisleikari var myndaefni utan vallar. Þegar hinir ljósmyndararnir létu linsurnar falla að loknum leik, hélt Sancetta áfram og náði mynd, þegar McEnroe sparkaði í sjónvarpsmyndavél.
Susan Ragan heyrir ekki ljósmyndara eða annað fólk tala í umhverfinu, þegar hún myndar á velli. Hún er með einbeittan fókus á myndefninu. “Hugurinn vafrar ekki,” segir hún. “Ég reyni að sjá fyrir atburði. Það er eðlisávísun, held ég.”
John Biever: “Ég nota aðallega tvær myndavélar, eina með langri linsu og hina með hóflegu súmmi.” Hann notar súmmið á föstu: “Þegar ég fer að fikta í súmminu, er ég dauður.” Það verður að hafa hlutina einfalda, þegar allt gerist í andránni.
Þrengt hefur verið að ljósmyndurum á kappleikjum vegna samninga við sjónvarp. Ljósmyndarar verða að kunna heimavinnuna sína og mæta snemma. Þeir þurfa að koma sér vel fyrir og sannfæra staðarhaldara um, að þeir séu ekki að trufla leikinn.
Mikilvægt er, að láta rækilegar skýringar fylgja myndum til fréttastjórans. Því meira, sem hann veit, þeim mun betri verður árangurinn í blaðinu.
Sjá nánar:
Brian Horton, AP Guide to Photojournalism, 2. útgáfa 2001
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé