Blaðamennska
Fréttanef-Viðtöl
Sjö undirstöðureglur frétta:
Hver gerði (sagði) hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?
Hefðbundin blaðamennska gerir ráð fyrir, að fréttir svari öllum þessum spurningum.
Lalli Jóns braust inn í Búlluna við Mýrargötu upp úr miðnætti í nótt. Hann braut rúðu í eldhúsi og fór þar inn. Nágrannar urðu þessa varir og gerðu viðvart. Lalli náðist á staðnum og sagðist hafa verið svangur. Mál hans verður tekið fyrir eftir páska. (Allt í 45 orðum)
Allt byrjar með fréttamanninum. Ritstjórar, efnisstjórar, vaktstjórar geta verið góðir og staðið sig vel í tímahraki. En geta ekkert, nema fréttir komi í hús.
Dagur fréttamanns (10 reglur):
1. Hringja daglega í fasta heimildamenn til að afla hugmynda.
2. Vera á morgunfundi með þrjú mál og skrifblokk.
3. Vera með málin klár á fundinum: Fólk, fókus og fyrirsögn.
4. Hugsa í burðarfréttum. Mistök fara undir strik. Eða í eindálka.
5. Breyta fólki, fókusi og fyrirsögn eftir því sem efni vinnst.
6. Vera í samráði við fréttastjóra, efnisstjóra, vaktstjóra.
7. Panta sértækar myndir áður en farið er að skrifa texta.
8. Byrja á fókus og fyrirsögn, skrifa síðan textann.
9. Vera búinn að afgreiða sín mál fyrir kvöldmat.
10. Nota segulbandstæki í öllum viðkvæmum samtölum.
Blaðamaður þarf að vera heilsteyptur (hinir fari í almannatengsli), forvitinn (hafa áhuga á öðru fólki og högum þess), nákvæmur (1,3 verði ekki að 13, kennarafélag verði ekki nemendafélag), vinnusamur (manískur), óháður, áreiðanlegur, rækilegur.
Ágengni: Blaðamaður þarf að vera ákveðinn (jafningi viðmælandans), þolgóður (tekur ekki höfnun gilda, tekur ekki höfnun inn á sig), ágengur (samt ekki ruddalegur). Blaðamaður þarf að víkka svigrúm hins mögulega í starfinu.
Tíu reglur fréttanefs:
1. Blaðamaður þarf að vita, hvað sé frétt (maður bítur hund, óvenjulegt). Hið venjulega er sjaldnar frétt en hið óvenjulega. Í hverri frétt þarf að finna fókus, sem gefur fyrirsögn og fréttin er skrifuð út frá þeirri fyrirsögn.
2. Blaðamaður þarf að átta sig á samhengi staðreynda (brúðguminn mætti ekki í kirkjuna, hvers vegna?). Allt getur verið rétt í frétt, en sjálfan sannleikann vantar í hana, af því að lykilatriði í málinu kemur ekki fram.
3. Blaðamaður þarf að sjá undir yfirborðið (spunakarlar eru alls staðar á ferð). Yfirborðið gefur oft ranga mynd af því, sem er undir niðri. Blaðamaðurinn þarf að vita hvernig hlutir gerast, vera “street smart”.
4. Blaðamaður verður að efast, ekki taka hlutina góða og gilda. Geta fundið, hvort heimildarmaður gætir annarlegra hagsmuna. Þeir, sem leka í blaðamenn, hafa margir einhverja ástæðu, sem getur farið fram hjá blaðamanninum.
5. Blaðamaður þarf að geta losað um málbeinið á fólki (viðtalstækni, kemur síðar). Hann þarf að geta lesið skjöl og lesið milli línanna. Hann þarf að mynda hóp af traustum heimildamönnum.
6. Blaðamaður þarf að hafa líkamlegt þrek, blaðamennska er erfið. Hann þarf að vera skipulagður (margar fréttir í senn, símtöl kruss og þvers), geta hugsað um mörg mál í einu. Eins máls fólk á oft erfitt með að fóta sig í erlinum.
7. Blaðamaður þarf að sjá, að samlagning nokkurra staðreynda er ekki sannleikur (leita betur). Sannleikurinn getur verið margs konar, sjónarhornin mörg. Þau eru stundum eitt, en stundum eru þau líka fleiri en tvö. Sannleikar eru stundum margir.
8. Blaðamaður þarf að vera óhlutdrægur (ekki endilega hlutlaus) og sanngjarn gagnvart umræðuefninu. Þetta gildir einkum um fréttamenn. Dálkahöfundar og aðrir slíkir þurfa hins vegar að setja fram skoðanir sínar.
9. Blaðamaður býr við harðstjórn klukkunnar. Hann þarf að ákveða, hvort hann fer með það, sem hann hefur, eða reynir eitt símtal enn. Verið getur, að kjarni málsins sé enn í felum og síðasta símtalið leiði hann í ljós.
10. Blaðamaður hefur í huga, að traust og trúverðugleiki er mikilvægasta eign hans og fjölmiðilsins. Traust byggist á hvoru tveggja, að menn kunni að fara með löndum og kunni að rjúfa lögmálið um, að oft megi satt kyrrt liggja.
Lýsingar: Persónuleg reynsla blaðamanns, t.d. lýsing á kappleik, stríði. Blaðamaðurinn er fulltrúi lesandans og þarf að geta sett hann inn í aðstæður á staðnum, þar á meðal ýmis smáatriði, sem skipta miklu.
Viðtöl: Allar lengdir viðtala, frá einu orði og upp úr. Í síma eða augliti til auglitis. Viðtal getur verið spurning um símanúmer eða fundatíma. Viðtal getur líka verið margar síður. Sérstakir fyrirlestrar um viðtöl eru í þessari vefbók.
Reynslan sýnir, að mikilvægt er, að viðtalsefni viti, hver sé að tala við það, blaðamaður. Reynslan sýnir líka, að óvant fólk reynist stundum ekki gera sér grein fyrir, að það er að tala við blaðamann, þótt því sé sagt frá því.
Notkun segulbanda er mikilvægt öryggisatriði, ekki mikilvægt vinnugagn. Oft segist fólk hafa sagt annað en stóð í fréttinni og blaðamaðurinn þarf að eiga sönnunargagnið. Uppskriftir af segulbandi leiða hins vegar til lélegs textastíls.
Nafnlaus viðtöl binda hendur. Nafnlaust fólk gerir þig ábyrgan fyrir því, sem það otar fram. Hversu mikið veit ónafngreindur heimildarmaður í rauninni, er hann hlutdrægur? Vendu heimildamenn þína á að segja það sem þeir vita réttast.
Viðtöl: Undirbúa sig, þekkja málefni og menn, forðast að vera plataður eða fá of lítið að vita. Hafa spurningalista til öryggis, en muna helstu spurningarnar. Fara út úr listanum, ef viðtal þróast í áhugaverðari áttir en ráð var fyrir gert.
Sími eða auglit (fylgst með hegðun, umhverfi), ekki skellt á símanum. Síminn sparar tíma, en gefur takmarkaðri sýn. Klæðaburður og stjórn viðtals. Vera hlutlaust klæddur, stjórna viðtalinu, hafna hliðarhoppum og undanbrögðum.
Margir eru leiknir, tala mikið, en veita lítil svör. Þegar viðmælandi er með undanbrögð, þarf stundum að orða spurningarnar upp á nýtt. Í versta tilviki þarf hreinlega að segja, að undanbrögð dugi ekki, maður vilji fá svör.
Slægir viðmælendur: Lagaðu spurningar, nýtt orðalag. Segðu að lokum “ég vil fá svar”. Segulband er vörn gegn “rangt var eftir haft”, en nýtast ekki til að skrifa upp viðtal. Byrja með þægilegu snakki, fá formsatriði rétt inn á band.
Níu reglur um þinn málaflokk:
1. Komdu þér út af ritstjórn og inn á skrifstofur málsaðila.
2. Settu þér dagleg markmið, t.d. um burði, undirstrik og eindálka.
3. Byggðu upp flokk heimildarmanna, sem þú talar helst við daglega.
4. Spurðu grófra spurninga, víðtækra spurninga, heimskulegra spurninga.
5. Biddu um allt, þú gætir jafnvel fengið það.
6. Hlustaðu vel og fylgstu vel með, orð fólks og texti er bara hluti málsins.
7. Ekki bregðast trausti, ekki lofa því sem þú getur ekki staðið við.
8. Farðu beint í upprunalegu gögnin, láttu ekki mata þau fyrir þig.
9. Komdu þér upp símaskrá og hringdu á föstum tímum.
Kældu þig niður, þegar þú ert búinn. Ef þú ert ekki í tímahraki, er gott að dreifa huganum, skoða myndasögur, tala við efnisstjórann. Síðan ferðu aftur að sögunni, skrifar hana upp á nýtt, þegar þú ert búinn að fá fjarlægð frá efninu.
Fimmtán reglur um viðtöl:
1. Byrjaðu á auðveldu, enda á erfiðu. Auðvelt upphaf liðkar fyrir
2. Byrjaðu á því, sem þú veist um, tékkaðu svarið við veruleikann.
3. Fylgstu með hegðun viðmælanda, roðnar hann. Smáatriði segja oft sögu.
4. Skilurðu svörin? Láttu viðmælandann hjálpa. Sérfræðingar vilja hjálpa.
5. Hvers vegna, hvernig, hvað svo? Ekki gleyma þessum þremur lykilspurningum af sjö.
6. Spurðu, hvað kom viðmælandanum á óvart. Virkar oft vel.
7. Leitaðu að sögum, hvað gerðist í raun. Fáðu viðmælandann til að segja frá.
8. Gerðu alltaf ráð fyrir svari, ekki spyrja: Viltu svara þessu.
9. Breyttu orðalagi spurningar, komdu aftur og aftur að spurningunni.
10. Vektu viðbrögð: Þessi segir þetta um málið, hvað segirðu við því?
11. Notaðu háværar þagnir, sá vinnur sem lengst þegir.
12. Erfiðustu spurningarnar koma síðast, þegar gott rennsli er komið í viðtalið.
13. Haltu áfram að tala, þegar segulband og nótubók eru komin í vasa.
14. Þakkaðu fyrir þig, taktu síma og netfang, jákvæður endir.
15. Lestu bara beinar tilvitnanir í síma og sendu alls ekki neitt í tölvupósti.
Sérefni:
Fréttir úr landsmálunum eru nauðsynlegar: Hvernig breytast skattarnir mínir? Viðskiptalíf og kennslumál hafa lengi verið vanræktir flokkar. Á síðustu árum hafa aukist fréttir um viðskiptalíf, sérstakir efnisflokkar í blöðunum.
Málaflokkar:
Sveitarstjórn, lögregla, dómstólar, skólar, heilsa, sjúkrahús, fyrirtæki. Allir blaðamenn þurfa að koma sér upp sveit heimildamanna á sínum sviðum. Allir blaðamenn þurfa að vera sjálfbærir á sínum sviðum.
Hver gerði (sagði)
hvað,
hvar,
hvenær,
hvernig,
hvers vegna og
hvað svo?
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé