Fréttir
Gögn og tækni
Blaðamenn nota margs konar tæki, svo sem tölvu, hljóðsnældutæki og síma. Þeir nota þessi tæki og einkum internetið til að finna fólk, opinber gögn, áreiðanlegar upplýsingar og annað gagnlegt.
Blaðamaðurinn:
1) Kann að nota gagnabanka og stafræn gögn.
2) Þekkir lög um aðgang að upplýsingum.
3) Notar tölvu til að safna upplýsingum og kanna þær, til að skrifa þær og koma þeim til ritstjórans.
4) Getur metið trúverðugleika upplýsinga á netinu og víðar.
5) Skilur stærðfræði og tölfræði og getur metið gildi skoðanakannana.
Stærðfræði er það, sem þarf. Jack Marsh, Argus Leader: “Færið mér blaðamann, sem kann prósentur.” Skoðanakönnun Columbia sýnir eina mikilvæga samræmið milli einkunna og árangurs í blaðamennsku vera í stærðfræði. Stærðfræði er “sine qua non”.
Mikilvægi bloggsins: Þegar 60 Minutes sýndi haustið 2004 gögn um, að Bush forseti hefði komið sér undan herþjónustu, voru bloggarar á fáum mínútum búnir að sjá, að skjölin voru fölsuð, gátu ekki verið úr ritvél frá árinu 1970. En varið ykkur á blogginu.
Hugbúnaður blaðamanna:
1) Heimildir á vefnum.
2) Töflureiknar, t.d. Excel.
3) Gagnagrunnar, t.d. Access, FileMaker.
Þurfa að læra “Boolean logic”, sem byggist á þremur leitarskilyrðum:
1) Og.
2) Eða.
3) Ekki.
CARtækni (computerassistedreporting) hefur aukist jafnt og þétt meðal fréttamanna. Hana má nota við flestar fréttir til að auka dýpt þeirra. Oft koma þar upp nýjar fréttir. Menn þurfa að þjálfa sig til að nota þessa tækni á auðveldan og eðlilegan hátt.
Enginn gat sagt Charlotte Observer, hversu margir hafa dáið á kappakstursbrautum. Blaðið varð að finna svarið með því að nota hátækni og hefðbundnar rannsóknir. Það fann, að 260 manns, þar af 29 áhorfendur, höfðu látið lífið á einum áratug.
Eftir að hafa lokið þessu öllu, talaði blaðið við meira en 400 manns. Útkoman var greinaflokkur, sem vakti mikla athygli og leiddi til miklu strangari reglna um öryggi á kappakstursbrautum og við þær.
Samkvæmt John Pavlik hjá Rutgers University þarf nútíma blaðamaður 13 tæki:
1) Margra (tíu) megapixlna myndavél og vídeóvél fyrir hágæða ljósmyndir og vídeó.
2) Fartölva
3) Lófatölva, svo sem Palm með samdraganlegu lyklaborði með dagatali og nafnaskrá, sem skipuleggur vinnuna.
4) Segulbandstæki.
5) Gemsi, ekki bara fyrir símtöl, heldur einnig til að tengjast netinu og vafra á því (GPRS).
6) Fartölvupósttæki, svo sem Blackberry til að halda sambandi.
7) GPS-staðsetningartæki til að finna staði.
8) Þráðlaust internettæki fyrir tölvupóst.
9) Ferðadiskur með margra gígabæta minni.
10) Hugbúnaður á fartölvunni til ritstjórnar á vídeói, ljósmyndum, gröfum, textavinnsla og töflureiknir, tölvupóstforrit og vafrari.
11) Instant Messenger og Voice over IP fyrir ókeypis samskipti með texta, rödd og myndir á netinu.
12) Faxtæki og harður diskur, sem gerir honum kleift að vera eins konar fréttastofa.
13) Gervihnattasími (Iridium), nógu lítill til að komast í handfarangur, gerir kleift að ná sambandi við “uplink” gegnum gervihnött.
Í stríðsfréttum frá Afganistan voru mörg slík tæki notuð. Stakur blaðamaður gat gegnt öllum hlutverkum sjónvarpsgengis í senn og sent frá sér lifandi útsendingu frá afskekktum stöðum í landinu til höfuðstöðva fréttaflutnings í heiminum.
Sérhver blaðamaður þarf ýmis uppflettirit, svo sem stílbók fjölmiðilsins, orðabók, alfræðiorðabók og símaskrár. Í tölvusímaskrám má fletta upp á númerum við heila götu í senn og ná þannig í vitni um atburði í þeirri sömu götu.
Mikið af uppflettiritum er komið á geisladiska og á veraldarvefinn. Marquis Who’s Who hefur meira en milljón ættfræðiágrip á vefnum. Fréttastofur eru áskrifendur að gagnabönkunum Encyclopedia Britannica, LexisNexis og Factiva.
Philip Meyer: “Blaðamaður þarf að vera gagnagrunnstjóri, gagnavinnslustjóri og gagnakönnuður, allt í senn.” Í auknum mæli nota heimildamenn blaðamanna tölvur við vinnu sína. Sá, sem ekki kann tölvuvinnslu, er úreltur blaðamaður.
98% blaðamanna skoða tölvupóstinn a.m.k. daglega. Nota netið til samskipta, til að leita að hugmyndum, koma sér upp nýjum heimildum og leita að tilkynningum, sem gætu leitt til frétta. Að meðaltali þrír tímar á dag í að senda póst og svara.
Bob Port: “Ég get fundið, hvort hann hafi verið kærður, sé skilinn og hvort hann sé á sakaskrá. Ég get á minna en fimm mínútum staðsett alla Bandaríkjamenn, sem hafa krítarkort og sennilega fundið heimilisföng fjölskyldunnar innan hálftíma.”
Byltingin er í tölvuvæddri blaðamennsku, ekki aðeins í stórum rannsóknum, heldur líka í hversdagsfréttum. Ný tæki og ný tækni hafa gert blaðamönnum kleift að grafa upp mikilvægar upplýsingar í tímahraki og bæta við þær dýpt og samhengi.
Netið hefur milljónir heimasíðna, þar sem gífurlegt magn skjala er að finna, uppflettiskrár, myndir, töflur og aðrar gagnlegar upplýsingar. Þar er líka fullt af rugli og úreltum gögnum. Blaðamaðurinn þarf að kunna að greina þetta sundur.
www.sedlabanki.is, www.sima skra.is/ og www.hagstofan.is/ eru gagnlegar slóðir fyrir blaðamenn. Fasteignamatið (www.fmr.is/ ) og ökutækjaskráin (www.us.is/id/1072) veita ekki aðgang að eigendum, svo að fara verður krókaleiðir til að ná þeim.
Margir leggja of mikinn trúnað á það, sem stendur á netinu. Leitarvélar eru bara hjálpartæki við rannsókn, koma ekki í stað rannsóknar. Þær eru góðar fyrir þá, sem eru góðir, en afleitar fyrir þá, sem eru latir, segir Neil Reisner.
Þú getur raðað lista upp á nýtt:
1. Stafrófsröð. Sýndi, að starfsmenn höfðu fleiri en eitt starf.
2. Upphæðaröð. Sýndi, að sumir höfðu risavaxna yfirvinnu.
3. Samræmi við annan lista. Bera strætisvagnastjóra saman við sakaskrá.
Slík vinna sýndi: Tóbak og áfengi er einkum auglýst í hverfum minnihlutahópa. Svartir menn fá hærri dóma. Margfaldast hafa kærur út af 150 km hraða eða hærri. Ólöglegar greiðslur til þingmanna í Indiana eru miklar.
Töflureiknar á borð við Excel eru hugbúnaður, sem geymir gögn í dálkum og línum. Auðvelt er að raða slíkum skjölum upp á nýtt, leggja saman dálka, sameina þá og gera ýmsa útreikninga. Þú getur lagt saman þúsundir talna á einni sekúndu.
Aðgengilegar skrár í Ameríku:
1. Álagningarskrár, afsöl og kaup og sala fasteigna.
2. Leyfi, svo sem veitingaleyfi, hundaleyfi, vínveitingaleyfi, starfsleyfi.
3. Sveitarfélagakort, sýna götur, gönguleiðir, mörk fasteigna.
4. Byggingaleyfi, vangreiddir skattar, veð.
5. Úrslit kosninga.
6. Fyrirtæki og sameignarfélög. Nöfn stjórnenda og eignarhlutir.
7. Reikningar og ljósrit af ávísunum vegna innkaupa opinberra aðila.
8. Fundargerðir sveitastjórna, fjárhagsáætlanir og greiðslur.
9. Flest dómskjöl, svo sem ákærur, yfirheyrslur, málflutningur, dómar.
10. Erfðaskrár, gjaldþrot og bústjórn.
11. Flestar lögregluskýrslur.
Öll ríki Bandaríkjanna hafa sólskinslög, sem skylda opinbera aðila til að láta gögn sín liggja frammi fyrir almenning. Ef gagnabankar eru til, er skylt að veita blaðamönnum aðgang að þeim. Margar stofnanir hafa skjöl sín beinlínis á netinu.
Undantekningar í bandarískum sólskinslögum eru skattskýrslur fólks (ekki álagning á fólk), mál sem varða öryggi ríkisins eða utanríkismál, bréf milli stofnana og nokkur önnur upp talin atriði. Takmörk eru á tíma, sem menn mega taka í að svara.
Oft eru reikningsvillur í gagnabönkum. Komman getur hafa færst til. Blaðamaður þarf að geta reiknað út, hvort niðurstaðan er fráleit eða ekki. Hann þarf líka að ráða við prósentur, meðaltöl og hlutfall.
Prósentur og hlutfallareikning þurfa blaðamenn að kunna. Meðaltöl eru hættulegri. Þau geta falið í sér
1) meðaltal (mean),
2) hágildi (mode) með mesta tíðni, eða
3) miðgildi (median).
Töflureiknar hafa formúlur, sem reikna öll þessi gildi.
Tölur segja okkur mikið um, hvernig við lifum. En fyrir blaðamenn eru tölurnar bara upphafið. Bak við prósenturnar, hlutföllin, meðaltölin, hágildin og miðgildin er lifandi fólk og það er saga þess, sem blaðamenn eiga að segja.
Skoðanakannanir eru mikið notaðar, enda geta þær verið nákvæmar. Það þýðir ekki, að taka beri allar kannanir alvarlega. Þeim fylgja vandamál, sem könnuðir flagga stundum ekki. Blaðamenn þurfa að skilja eðli þeirra, möguleika þeirra og takmörk.
Skoðanakönnun er kerfisbundin aðferð við að finna, hvað fólk hugsar núna, með því að spyrja úrtak þess. Blaðamenn, sem ekki skilja aðferðina, sem telja tölur hafa dularfullan mátt, eru dæmdir til að verða fórnardýr skoðanakannana.
Kannanir fela í sér skekkjur og skekkjumörk, sem blaðamenn taka oft ekki eftir, þegar mjótt er á mununum. Þeir taka ekki eftir, hversu margir voru spurðir og hversu margir svöruðu, taka ekki eftir orðalagi spurninganna. Eða hver spurði.
Hafa verður í huga, að kannanir eru ekki kosningaspár. Þær meta aðeins stöðuna eins og hún er í dag, ekki eins og hún verður á kosningadegi. Einnig verður að hafa í huga, að atkvæðagreiðslur, t.d. á netinu (menn velja sig sjálfir) eru ekki gildar kannanir.
Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé