Heimildarmenn

Fréttir
Heimildarmenn

Blaðamaðurinn hefur þrenns konar heimildir:
1) Mannlegar heimildir. Ráðamenn og fólk, sérfræðingar og vitni, málsaðilar.
2) Hlutlægar heimildir. Skrár, skjöl, uppsláttarrit, greinar.
3) Netheimildir.

Blaðamaður sér ekki mikið betur en heimildir hans. Blaðamaður ver tíma á hverjum degi með föstum heimildamönnum. Hann hringir í menn á stofnunum, hann ráfar um stofnanir og fyrirtæki og fær sér kaffi með fólki.

Milt Sosin hjá AP er lýst þannig: Hann stingur höfðinu inn á kontóra og rabbar við ritara. Hann spjallar við lögmann í lyftunni. Hann ræðir stuttlega við blaðamann fyrir utan dómsal. Hann opnar dyr kurteislega fyrir fólki.

Hjá Sosin er sjarminn sterkasta vopnið. Allir þeir, sem hann talar við, geta fyrr eða síðar orðið heimildir að fréttum. Allir vita, að hann gefur ekki upp nöfn þeirra. Hann sinnir fólki og spyr það, hvort eitthvað sé að gerast.

Seymour M. Hersch hjá New Yorker hefur góðar heimildir. Hann les fréttabfréf CIA og NSA, sér hverjir eru að ljúka störfum, semur við þá um einkaviðtöl. Úr því kemur oft mikið af fréttum, hvar í flokki sem menn standa.

Sara Nathan frétti af því hjá lögmanni, sem hún þekkti, að Firestone dekk hefðu verið innkölluð á Ford Explorer bílum í sex löndum, en ekki í Bandaríkjunum. Hún skrifaði um það frétt, sem kom skriðu af stað.

Heimildir geta verið hættulegar. Fyrir innrásina í Írak fullyrti ríkisstjórn Bandaríkjanna, að þar væri fullt af gereyðingarvopnum. Þetta kom frá sömu heimild og New York Times notaði, landflótta Íraka með annarleg sjónarmið í pólitík.

Stundum kemur blaðamaður nýr að máli og hefur ekki haft tíma til að byggja upp kerfi heimildamanna. Þá er hægt að hringja í alla þá 20, sem taldir eru hafa sérfræðivit á málinu og biðja þá um að hjálpa sér af stað. Flestir hjálpa.

Þetta þurfa ekki að vera bæjarstjórar, ráðherrar eða forstjórar. Þetta geta verið ritarar eða skrifstofustjórar, lagafulltrúar eða hraðritarar, öryggisverðir eða húsverðir, skiptiborðsdömur eða póstflutningsmenn.

Í umgengni við heimildarmenn má ekki flýta sér of mikið. Hugsaðu ekki bara um fyrirsögnina á morgun. Einnar nætur vinir gefa sjaldan fullnægingu. Þú verður að líta á þá, er gefa þér fréttaskot, sem manneskjur.

Terry Schrader hafði efasemdir um heimild, sem sagðist hafa farið í plastaðgerð. Hann kannaði málið og komst að raun um, að konan var blaðafulltrúi fyrirtækisins, sem framleiddi plastið og hafði farið á námskeið í umgengni við fjölmiðla.

Ekki eru allir jafn klárir á því, hvað eru góðar heimildir. Þegar þingmenn vildu fá upplýsingar um meiri kostnað og minni tekjur, kölluðu þeir fyrir sig leikarana Sissy Spacek og Jane Fonda, sem höfðu leikið bændafólk í bíómyndum.

Blaðamenn eru oft gagnrýndir fyrir að vera í sambandi við þröngan hóp manna, forstjóra, bankamenn, embættismenn, stjórnmálamenn, blaðafulltrúa, álitsgjafa, þótt umræðuefnið fjalli fyrst og fremst um fólk, til dæmis líf þess í verðbólgu.

Blaðamaður þarf heimildarmann og heimildarmaðurinn þarf blaðamann til að fá viðbrögð við hugmyndum sínum. Smám saman verður blaðamaðurinn háðari heimildum sínum. Tíðast eru heimildamenn liprir, af því að þeir vilja sjá réttar fréttir.

Stundum er blaðamaður beðinn um að halda heimildinni leyndri. Flest ríki vernda nafnleynd heimildarmanna. Þar sem svo er ekki, þarf blaðamaðurinn að gera ráð fyrir að geta lent í fangelsi fyrir að koma ekki upp um heimildarmann.

Russell Baker sagði: “Aðeins fáviti heldur, að yfirvöld segi sér rétt um, hvað sé í fréttum.”

Murey Marder sagði: “Það er ekkert til sem heitir óháð heimild. Það fyrsta, sem blaðamaður þarf að spyrja sig að, þegar hann talar við fyrirhugaða heimild, er, hver þessi heimild sé. “Af hverju er hún að tala við mig? Hvað sér hún í því?

Fyrst þarf ég að finna, hvað heimildarmaðurinn sér í málinu fyrir sig. Ég mundi aldrei gera ráð fyrir, að heimild segi mér allan sannleikann, af því að ég held ekki, að heimildin viti allan sannleikann.”

Steve Coz hjá National Enquirer segist borga fyrir upplýsingar. Tímaritið borgar bílstjórum, stofustúlkum, matsveinum, alls konar illa launuðu fólki, sem vinnur fyrir frægðarfólkið. Þetta er kallað ávísanablaðamennska og er sjaldgæf.

Fjórar reglur Lucy Morgan hjá St. Petersburg Times:
1) Vertu almennilegur við alla. Finndu hvað þeir heita. Síðar kemur það að gagni.
2) Biddu fólk um aðstoð. Ótrúlega margir eru hjálpsamir.
3) Hjálpaðu fólki, sem þú umgengst, að skilja fréttir. Þú heyrir síðar frá því.
4) Hlustaðu. Vertu þolinmóður, þótt þú hafir þegar fengið það, sem þú þarft.

Fólk hefur tilhneigingu til að trúa þeim, sem fara með völd. Því meiri völd, þeim mun meira traust. Blaðamaður verður að forðast að láta valdhafa skilgreina aðstæður og atburði. Hann notar mest þær heimildir, sem áður hafa verið bestar.

Áreiðanlegar heimilir:
1) Sá heimildarmaðurinn atburðinn eða heyrði um hann?
2) Hefur heimildarmaðurinn góða athyglisgáfu?
3) Getur hann bent á smáatriði.
4) Eru margir heimildarmenn með sömu upplýsingar?

Vikublað upplýsti, að Culpeper sveit hefði flesta kynferðisafbrotamenn í landinu, 225 alls. Blaðið gleymdi að skoða málið betur og komast að raun um, að allir þessir 225 sátu inni í ríkisfangelsinu, sem er í þessari sveit.

Lovenstein stofnunin upplýsti á netinu könnun um greind forseta Bandaríkjanna síðustu 60 árin. Skoðun blaðs leiddi í ljós, að stofnunin var ekki til, nema sem brandari hjá húmorista. Rannsóknin var ekki til.

Varnir gegn heimildum á veraldarvefnum:
1) Álit, virðing. Hver á heimasíðuna? Geturðu náð sambandi við ráðamenn hennar?
2) Nákvæmni. Eru raktar heimildir fyrir staðreyndum.
3) Tímabærni. Er heimasíðan uppfærð, eru staðreyndirnar gamlar?
4) Fullnægjandi. Vantar í upplýsingarnar, er málsatriðum sleppt?
5) Hlutlægni. Eru auglýsingar aðskildar frá upplýsingum?

Röð gagnlegra heimilda, samkvæmt Steve Miller hjá New York Times:
1) Opinber gögn. Næstum alltaf áreiðanleg.
2) Gögn háskóla. Oftast undir smásjá jafningja, oftast áreiðanleg.
3) Hagsmunahópar. Að vísu hlutdrægir, en hafa virðingar að gæta.
4) Heimasíður. Minnst áreiðanlegar, oft vafasamar.

Hlutlægar, efnislegar heimildir eru óteljandi. Umfang þeirra takmarkast bara af getu blaðamannsins til að spanna heimildir, sem hann hefur aðgang að. Gagnabankar gefa ágætar upplýsingar um heimildir. Tölur eru betri en mat embættismanns á þeim.

Pappírsslóðin: Læra má margt með því að leita að persónu í gögnum þeim, sem hún skilur eftir á ævi sinni. “Follow the paper trail”. Þar er fæðingarvottorð, sjúkraskýrslur, skólaskýrslur, afsöl fasteigna, giftingarvottorð, dánarvottorð.

Heimilið: Hvað kostaði það, hver var útborgun og hvað mikið tekið að láni, hver er lánveitandi, veðbönd á eigninni, fasteignaskattar og staðan á sakaskrá.
Bíllinn: Skráningarnúmer, eignarhald, tegund og aldur.

Martha Mendoza hjá AP notaði tölvuna til að rekja viðskipti út af reglugerð um verndun villtra hesta. Menn gátu tekið þá í fóstur og starfsmenn kerfisins notuðu það til að slátra hestum og stinga sláturtekjunum í eigin vasa.

Eftir slys er gott að fara til lögreglunnar, þar sem menn eru að slá inn skýrslur. Næst á eftir þeim, sem sáu slysið, eru skýrslur lögreglunnar besta heimildin. Fólk þarf að geta rápað um á lögreglustöðinni.

Blaðamaður í tímahraki hefur ekki tíma til að fara á slysstað og símtöl við lögregluna bera lítinn árangur. Hann hringir í spítalann og fær nafn nánasta ættingja. Í síma hans svarar bróðir hins slasaða og veitir umbeðnar upplýsingar.

Blaðamaður kannar slúður um, að fólk sé hætt að lesa. Hann fer á bókasafnið, talar við gamalt fólk, sem styttir sér stundir við lestur, og við námsfólk, sem les þar kennslubækur. Hann nær mörgum viðtölum og veit allt um bókasafnslestur.

Góðir blaðamenn nota bæði persónur og hluti sem heimildir. Rannsókn sýnir, að Pulitzerverðlaunahafar notuðu fjölbreyttari heimildir en aðrir blaðamenn, notuðu fleiri skjöl, skýrslur, bækur. Viðtöl eru mikilvæg, en segja ekki alla söguna.

Markar mikilvægustu fréttir í útvarpi og sjónvarpi byrja með ábendingu. Aðrar byrja með heimildamönnum, sem fréttamenn hafa komið sér upp í stofnunum, samtökum og fyrirtækjum. Stöðvar, sem eru þekktar fyrir rannsóknir, fá fleiri sendingar.

“Ég veit ekki um öll atriði málsins, en ég get gefið þér upp nafn, sem veit meira, ef þú heldur mínu nafni leyndu.” Orðalagið “heldur mínu nafni leyndu” er lykillinn að því að þróa hóp heimildamanna og halda honum við efnið.

Fljótasta leiðin til að losna við heimildamann er að brjóta loforð um þögn. Fáir gefa fréttamönnum hugmyndir án loforðs um þögn. Það loforð verða menn að halda. Áður en þeir lofa neinu, verða þeir að vera vissir um, hverju þeir eru að lofa.

Fréttamaður notar aldrei heimild af þessu tagi sem grundvöll að sögu fyrr en hún hefur verið sannreynd. Sannreynsla er oft erfið, einkum í tímahraki. Til að tryggja rétta frásögn, eru oft fengnar tvær eða þrjár heimildir til viðbótar.

Flestir stöðvarstjórar hafa þá reglu, að fréttamenn segi einum yfirmanni á staðnum frá heimildamanninum, áður en þeim er leyft að senda út málið, sem var til rannsóknar. Vanræksla á þessu sviði getur haft skelfilegar afleiðingar.

Oft er gott fyrir fréttamann að ræða við starfsbræður um heimild, áður en mikil vinna er lögð í hana. Þeir hafa kannski slæma reynslu af heimildinni og geta stöðvað fréttamanninn í tæka tíð. Þeir, sem fá að vita um nafn, verða að þegja.

Þegar fréttamenn finna góða og áreiðanlega heimildamenn og halda trúnað við þá, kemur venjulega í ljós, að þeir útvega fleiri upplýsingar, stundum árum saman. Fréttamenn halda þeim við efnið og benda þeim á samfélagslegt mikilvægi þeirra.

Aðrar góðar upplýsingar koma frá vinum, sem fréttamenn rækta á skrifstofum, þar sem skjöl eru geymd, til dæmis í dómhúsum og á lögreglustöðvum. Þótt menn hafi rétt til aðgangs að gögnum, er alltaf gott að hafa persónusamband til viðbótar.

Upplýsingar frá nafnlausum aðila í stjórnkerfi eða fyrirtækjum eru kallaðar leki. Frægasti lekinn var, þegar forseti og varaforseti Bandaríkjanna létu leka nafni starfsmanns leyniþjónustunnar, Valerie Plame, til að refsa eiginmanni hennar.

Áður en það mál kom upp var frægasti lekinn í máli hæstaréttardómarans Clarence Thomas, sem sagður var hafa beitt konu kynferðislegri áreitni. Annars eru lekar hluti af daglegu lífi á Bandaríkjaþingi og hjá flestum ríkisstjórnum landsins.

Leki eins manns er nauðsynleg afhending tímabærra upplýsinga hjá öðrum aðila. Frægur var leki “Deep Throat”, sem var valdamaður í Hvíta húsinu á stjórnarárum Nixons og lak upplýsingum um Watergate, en kom fram undir nafni löngu síðar.

Sérstök tegund af leka er “tilraunabelgur”, sem opinberir aðilar setja á loft til að fá fréttamenn til að segja frá fyrirhuguðum gerðum stjórnvalda. Síðan meta þessir aðilar viðbrögðin, framkvæma málið eða hætta við það eftir viðbrögðum.

Þegar ekki má nefna heimildamann með nafni, má oft staðsetja hann, t.d. “talsmaður” utanríkisráðuneytisins, “heimild” í varnarmálaráðuneytinu. Þetta fór í öfgar í Lewinskymálinu: “Upplýstar heimildir.” “Óstaðfestar heimildir.”

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé