Inngangurinn

Textastíll
Inngangurinn

Hafðu innganginn skýran og sértækan

Inngangur getur verið samantekt. Hann getur líka verið örsaga, sem skýrir málið. Hann getur lyft upp einu atriði málsins. Hann getur sett drama, lit og líf í fréttina. Hann getur færst aftar í fréttina, verið frestaður inngangur. Hann getur falist í tilvitnun í málsaðila.

Inngangur getur líka snúist um viðbrögð eða fréttaskýringu við meginefni fréttar. Hann getur falið í sér spurningu, sem fréttin svarar. Val á tegund fer eftir ferskleika fréttar, ætlaðri þekkingu lesandans, áhuga hans á málinu, hvort hún fjallar um fólk.

Nú á tímum eru fréttir oft svo stuttar, að þær rúma ekki inngang. Með öðrum orðum eru þær svo stuttar, að þær eru bara inngangur. Aukið vægi fyrirsagna og inngangs í fréttaskrifum kallar á aukna getu blaðamanna við að leysa gátuna í örfáum orðum.

Fremst er inngangurinn, beitan, freistingin, gildran, sem á að festa lesandann. Hann hefur löngum valdið blaðamönnum ótta og skelfingu. Vertu samt óhræddur. Ímyndaðu þér, að hann kosti þig 100 krónur á orðið. Hugsaðu hagkvæmt, sparlega.

Góður inngangur hefur rétta spennu eins og fiðlustrengur. Hann er forrétturinn, sem gefur smakk til að örva bragðlaukana, en er ekki umfangsmikill aðalréttur. Hann kemur ekki í stað þriggja rétta máltíðar. Hann er skýr og sértækur.

Muldur í inngangi stafar af:
1) Of mörg smáatriði.
2) Óhlutlægt og almennt orðalag.
3) Óræði
4) Áhersla á aðstæður yfirlýsingar, ekki á yfirlýsinguna sjálfa.
5) Áhersla á tímaröð

Til að losna við muldur í inngangi, finndu aðalatriðið. Það getur verið erfitt, ef mikið gengur á. Byrjaðu svona: “Héraðsdómur Suðurlands heimilaði fjölskyldu Jónu Jónsdóttur að stöðva læknisaðgerðir og leyfa henni að deyja eftir sjö ára dá.”

Ekki svona: “Í tímamótaúrskurði, sem tefldi rétti til að lifa á móti rétti til að deyja, kvað dómari á Suðurlandi upp úrskurð, sem verður líklega endanlegur, um að leyfa fjölskyldu Jónu Jónsdóttur að stöðva gjöf næringarefna í æð Jónu Jónsdóttur …”

“Hljóðhraða orrustuflugvél fyrir langflug og návígi hefur lengi verið draumur flugvélasmiða.” Þetta er nokkuð skýrt. Í fréttatilkynningu frá flughernum hljómar þetta hins vegar eins og banvæn uppskrift frá Pentagon:

“Orrustuflugvél, sem sameinar hljóðhraða í langflugi og aukna getu til loftbardaga á hljóðhraða hefur lengi verið fjarlægur draumur flugvélasmiða.” Hvaða draumur er ekki fjarlægur? Af hverju tvítaka hljóðhraðann?

Ekki segja: “Björn Bjarnason ráðherra og þrír andstæðingar hans líta á vanda glæpamála, stærsta áhyggjuefni kjósenda samkvæmt könnunum, á mismunandi hátt.” Þetta er að segja bless við lesandann.

Forðastu muldur með sértækni og hlutlægni, gefðu lesandanum mynd. Hjálp er í orðtökum, gamni og háði: “Guðjón A. Kristjánsson þingmaður kom sínum 150 kílóum fyrir í ræðustól og sagði, að leyfa eigi þéttvöxnu fólki að ættleiða börn.”

Eða: “Ævistarfi hans var lokið, börnin farin að heiman, aldurinn kominn yfir áttrætt, lífsbaráttan fyrir löngu að baki. Samt settist Jón Jónsson niður dag nokkurn og bjó til betri músagildru.”

Mörg orð eru óþörf. Stuttur inngangur hefur fyrst og fremst það hlutverk að festa lesandann við fréttina, selja honum þá hugmynd, að hann eigi að lesa hana til enda: “Ef það kostar peninga, voru kjósendur í gær ekki að kaupa.”

Flestar sögur eru hver annarri líkar, um glæpi, fundi, ákvarðanir. Til þess að lyfta þér og lesendunum upp úr hversdagsleikanum þarf að finna það einstaka við hverja sögu. Góður inngangur forðast að vera eins og hver annar inngangur.

Oft er hið einstæða til, en þú tekur bara ekki eftir því. Þú skrifar bara hugsunarlausan texta: “Bíl var ekið inn á skyndibitastað í hádeginu í gær, sögðu lögreglumenn, með þeim afleiðingum, að tveir dóu og sex slösuðust.”

Betra er að finna það sérstæða: “Bíl var ekið inn á skyndibitastað í hádeginu í gær. Þar dóu aldurhnigin hjón. Þau höfðu komið við til að fá sér hádegissnarl áður en þau færu í jarðarför í fjölskyldunni. Sex aðrir gestir slösuðust.”

Ekki: “140 sótugir brunaliðsmenn börðust við sinubruna á Mýrum í gær og tókst undir kvöld að stöðva hann.” Betra er: “Þolinmæði og fjórðungur af vatninu, sem Álftaneshreppur notar á viku, nægðu til að slökkva sinubrunann í gærkvöldi.”

Því meiri viðburðir sem eru í inngangi, því betra. Kröftug sagnorð eru mikilvæg. Veikburða sagnorð eru til dæmis: fara, gera, vera, áætla, búast við, undirbúa. Gott er: “Þeir flykktust að skipinu, klifruðu um borð, þrifu stýrið og undu segl við hún.”

Gott: “Nokkrum skítugum verkamönnum undir Ermasundi tókst það í gær, sem Flotanum ósigrandi, Napóleon, Hitler og skriffinnum Evrópusambandsins hafði ekki tekist. Þeir tengdu Bretland við meginland Evrópu.”

Beinum tilvitnunum fylgja ýmsir pyttir, sem menn falla í. Forðast ber að endurtaka sama atriðið í tilvitnun og öðrum texta. Algengast er, að tilvitnun endurtaki að nokkru leyti það, sem búið er að segja í inngangi:

Ekki skrifa: “Fræðsluskrifstofunni kom á óvart úrskurður dómara um, að óheimilt sé að banna drengjum með sítt hár og eyrnalokka aðgang að skólum. “Við vorum dálítið hissa”, sagði Jón Jónsson, fræðslustjóri Norðurlands eystra.”

Ekki heldur: “Helmingur deilda Listasafnsins var lokaður í gær vegna skorts á safnvörðum. Talsmaður safnsins, sagði deildunum hafa verið lokað, af því að borgarstjórn hafði ekki útvegað fjármagn fyrir einn safnvörð til viðbótar.”

Betra er að spara plássið, nota óbeina tilvitnun og segja: “Helmingur deilda Listasafnsins var lokaður í gær af því að borgin hafði ekki útvegað fjármagn fyrir einn safnvörð til viðbótar, sagði Jón Jónsson safnstjóri.”

Allt of margir inngangar byrja á langri aukasetningu, sem fer framúr aðalsetningu og grefur undan áhrifum hennar. Þú heyrir slíkar málsgreinar ekki í mæltu máli.

Algengt er að byrja á aðalsetningu og villast síðan inn á hliðargötu aukasetningar: “Clinton forseti, með tilvísun til samstarfs Mexikó í vörnum gegn fíkniefnum, sagði, að viðræður um viðskiptasamning ríkjanna mundu hefjast …”

Ef aukasetning er mjög stutt, getur hún gengið fremst: “Með annan vænginn logandi nauðlenti orrustuflugvél á Kennedyflugvelli um kvöldmatarleytið í gær.” Jafngott er: “Orrustuflugvél nauðlenti með annan vænginn logandi á Kennedyflugvelli …”

Blaðamenn reyna stundum að draga fjöður yfir aldur frétta. Þeir segja ekki “í fyrradag”. Þetta getur verið vandamál, ef ekki er neitt nýtt að frétta af málinu til umræðu. Í því tilviki má endurnota efni úr fyrri fréttum.

Framhaldsfrétt, ekkert nýtt: “Kaliforníuríki varði 16 mánuðum og 2 milljónum dollara til að þyngja refsingar þriggja fanga, þar af tveggja, sem sitja hvort sem er í lífstíðarfangelsi. Þeir voru fundnir sekir á fimmtudaginn …”

Nýr vinkill fundinn á gamalli frétt um eldsvoða.: “Ferðamenn í Hollywood fengu í gær að fara í hópferðir og skoða rústir kvikmyndavers Universal Studios, sem brann í fyrradag.”

Inngangur er oft of langorður, reynir að segja alla söguna. Hann reynir að svara öllu: Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo. Hann þarf ekki að svara nema þremurfjórum af þessum sjö spurningum.

Opinberir dómar og ákvarðanir hafa oft að geyma tæknilegar frásagnir og flækjur í lögfræði. Í inngangi er oft ekki nægilega reynt að þýða þetta efni yfir á mannamál. Í stað þess að segja, að dómari hafi neitað að stöðva atkvæðagreiðslu:

“Sýslumaður Suðurlands neitaði á miðvikudaginn að gefa út lögbann til að stöðva kosningu í stéttarfélagi um dómsúrskurð um kaup og kjör í deilu Póstmannafélagsins og Ríkispóstsins.” Þessi útgáfa af inngangi er kölluð ping-pongútgáfan.

Annað dæmi: “Alríkisdómstóll samþykkti á miðvikudag að endurskoða héraðsdóm, sem hafði úrskurðað, að Eftirlitsnefnd kjarnorkumála hefði sýnt réttinum óvirðingu með því að neita að opna almenningi aðgang að fundum um fjárhagsáætlunina.”

Blaðamenn beita pingpongaðferðinni með tilheyrandi klisjum úr tungumáli dómara og embættismanna. Þeir treysta sér ekki til að þýða þetta yfir á mannamál. Þeir leita sér öryggis í skjóli klisjanna.

Breyting hefur orðið á fréttum, þar sem “í gær” og “í fyrradag” hafa vikið fyrir dögum vikunnar, “mánudaginn” og “þriðjudaginn”. Gættu þess að hafa dagsetninguna á eftir sagnorðinu. Sumir bæta við óþörfu aukaorði, “á”, segja “á miðvikudaginn”.

Dagsetning getur valdið erfiðleikum við smíði á inngangi. Þá er allt í lagi að fresta henni fram í næsta málslið á eftir innganginum. Tímasetning atviks er yfirleitt ekki svo brýn, að hún þurfi að vera í sjálfum innganginum.

Markmið í inngangi: Þú stefnir að stuttum og hreinum málslið, aðalatriði fremur en aukaatriðum, fylgir rökréttri leið hugans, stefnir að hlutlægu og sértæku orðalagi.

Áttunda regla Jónasar:
Hafðu innganginn skýran og sértækan.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé