Kosovo II

Umræða
Kosovo II

Donald Trelford, ritstjóri Observer:
Atlantshafsbandalagið hrakti blaðamenn frá Kosovo, svo að þeir yrðu háðir fréttafundum í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles. Efasemdir blaðamanna um heiðarleika bandamanna byggðust á reynslu þeirra frá Persaflóastríðinu, þar sem margar fullyrðingar bandamanna reyndust vera tóm lygi.

Ef komið hefði til landhernaðar Atlantshafsbandalagsins í arfaríkjum Júgóslavíu hefði meira reynt á heiðarleika og áreiðanlega fjölmiðla, sem hefðu þá sætt enn harðari árásum stjórnvalda fyrir stuðning við óvininn og hrein landráð. Það er mjög erfitt fyrir fjölmiðla að standast slíkt.

Philip Hammond, South Bank University:
Fréttaflutningur af Kosovostríðinu var einhliða. Ekki var sagt frá fjöldamorðum á Serbum, jafnvel ekki þegar komið var að KLA-hryðjuverkamönnum Albana, þar sem þeir voru að pynda Serba í pyndingastöð í Prizren. Við höfum ekki lengur breskar stríðsfréttir, bara breskan stríðsáróður.

Stephen Brill, ritstjóri Brill’s Content:
Nútíminn hefur í för með sér stórfyrirtæki, er eiga fréttastofur, sem þurfa að segja fréttir dag og nótt, hungrar í hvað sem talist getur nýtt, sætta sig við sífellt lakari kröfur um heimildir og staðfestingar og hafa sífellt styttra minni.

Dæmi er um, að blaðamenn Washington Post, þegar þeir lásu skýrslu og voru að teygja sig í skúbb, féllu gersamlega fyrir rangri hlið málsins. Skoðun WP málsins leiddi í ljós, að rangar fréttir hefjast til flugs, studdar af umræðusýningum í sjónvarpi og bloggi á veraldarvefnum.

Annað dæmi er um New York Times, sem fór með notkun heimildamanna á lægra stig en áður var þekkt, teygði framsetningu þeirra og togaði, svo og eina heimildamannsins, sem getið var. Allt var að tilhlutan leyniþjónustunnar, sem reyndi að nota fjölmiðlana í sína þágu.

Margt var vel gert hjá fjölmiðlum, t.d. Amanpour hjá CNN, R. Jeffrey Smith hjá Washington Post, Barry Bearak hjá New York Times og ýmsir fréttaskýringaþættir hjá BBC, ennfremur Masha Gessen hjá Slate, Paul Watson hjá Los Angeles Times, loks fréttaskýringar hjá CNN og 60 Minutes hjá CBS.

En að öðru leyti hefur blaðamennska fullyrðinga tekið við af blaðamennsku staðfestinga. Vitleysa fer af stað hjá Washington Post, er gripin á lofti af New York Times, verður að umræðuefni í umræðusýningum og fer síðan í bloggið á netinu, án þess að nokkur geti stöðvað vitleysuna.

Í stað þess að leita staðfestinga reyna sjónvarpsstöðvarnar að finna tvo aðila, sem geta rifist á skjánum. Það er ódýrast og einfaldast, kemur í staðinn fyrir blaðamennsku. Stöðvarnar þurfa að fá viðbrögð hér og nú. Þar er ekki verið að senda neina Bernstein og Woodward í margra mánaða rannsókn.

Sjónvarpsstöðvarnar taka aðeins einn hlut fram yfir rifrildi tveggja manna á skjánum. Það eru lýsandi myndir, til dæmis af flóttamannabúðum. Stöðvarnar hafa minni aðeins til skamms tíma og vilja helst ekki fjalla um meira en eitt mál í senn, Móníkuskandal eða óhæfuverk Serba.

Afleiðingin af öllu þessu er utanríkisstefna, sem er eins fljótandi og almenningsálitið, sem lætur stjórnast af rifrildi í umræðusýningum og dramatískum fréttamyndum. Þannig hafa breyttar aðstæður í fjölmiðlum kallað fram breytta utanríkisstefnu. Og við fáum ekki réttar fréttir af stríðunum.

Seth Ackerman, Fairness and Accuracy in Reporting:
Almennt séð hefur fréttaflutningur þungamiðju bandarískrar fjölmiðlunar, svo sem hjá New York Times, endurspeglað sjónarmið Atlantshafsbandalagsins og Bandaríkjanna. Þannig var sagt, að 80 Albanir hafi verið myrtir í þjóðahreinsun Serba, þótt síðar kæmi í ljós, að þeir féllu í loftárás Nató.

Í Tyrklandi hafa á fimmtán árum 35.000 Kúrdar verið drepnir, 3000 þorpum þeirra eytt og tvær milljónir þeirra verið hraktir úr heimkynnum sínum. Sagt er frá þjóðahreinsunum Serba, af því að þeir eru andstæðingar Bandaríkjanna, en ekki frá þjóðahreinsunum Tyrkja, af því að þeir eru bandamenn.

Mörg dæmi úr New York Times sýna, að blaðið fylgir línu varnarmálaráðuneytisins og lætur niður falla fréttir, sem því eru ekki þóknanlegar. Hinar frægu kröfur blaðsins og nokkurra annarra blaða um gæði heimilda ná ekki til frétta frá Atlantshafsbandalaginu, sem oft hafa reynst vera rangar.

Norman Solomon, ritstjóri Media Beat
Fullt af ríkjum hafna mannréttindum, þar á meðal mörg vinaríki Bandaríkjanna. Þess vegna verður að velja og hafna, sprengja Serbíu og láta Tyrkland í friði. Við notum nýyrði spunakarla hersins yfir manndráp okkar, svo sem “neutralise”, “take out” og “collateral damage”. Fjölmiðlarnir hlýða þessu.

Almennt taka fjölmiðlar trúanlegar upplýsingar frá okkar mönnum í stríði. Úr þessu verður stríður straumur áróðurs, sem valtar yfir allt. Framsókn hernaðarhyggjunnar verður ómótstæðileg. Fjölmiðlar verða bumbuslagarar í framrásinni. Vont er að Írak sprengi Kúrda, en OK að Tyrkir geri það.

John Simpson upplýsti í Sunday Telegraph, að Atlantshafsbandalagið kastaði klasasprengjum á Serbíu. Þessar sprengjur eru sérstaklega hannaðar til að valda meira manntjóni en eignatjóni. Þær springa í lausu lofti og brotin þeytast um víðan völl, eitt grimmdarlegasta vopn nútímans, vopn bandalagsins.

Will King, ritstjóri CNN:
Ekkert hefur bent til, að ritskoðaðar fréttir, sem CNN sendi frá Belgrad, höfuðborg Serbíu, hafi verið vitlausari en falsanirnar, sem við fengum í hendur í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles. Við sýndum þjáningar Serba eins og við sýndum þjáningar Albana og annarra.

Michael Massing, Columbia Journalism Review:
Sama gilti um fréttir Brent Sadler, fréttaritara CNN í Belgrad, og fréttir Christiane Annanpour, fréttaritara CNN hjá Nató. Við sáum að vísu tvær hliðar málsins, en báðar voru yfirborðskenndar. Þrátt fyrir allt er CNN fréttastofa, sem talar í fyrirsögnum og fylgir eindregið bandarískum sjónarmiðum.

Bandarísku dagblöðin voru ekki eins hlutdræg. Washington Post sagði ýmsar fréttir, sem við áttum ekki að fá að heyra. Los Angeles Times var með fínar fréttir Paul Watson frá Pristina. Að magni til sló New York Times öðrum fjölmiðlum við. Almennt má þó segja, að stóru blöðin skorti burði til stríðsfrétta.

Nicholas Varchaver, Brill’s Content:
CNN sækir á í alþjóðlegum fréttaflutningi, meðan CBS, ABC og NBC draga saman seglin. Með 24 erlendum fréttastofum jafnast CNN þó ekki á við BBC, sem er með 45 fréttastofur erlendis.

Sjá nánar:
International Press Institute:
The Kosovo news & propaganda war, 1999

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé