Óvinsældir

Rannsóknir
Óvinsældir

Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill 2000

Þetta er bók um stöðu rannsóknablaðamennsku eins og hún var í lok síðustu aldar. Hún tekur ekki tillit til breytinga, sem hafa komið með veraldarvefnum og er því svartsýnni en efni standa til. En hún felur í sér gagnleg umræðuefni fyrir rannsóknablaðamenn.

Meginþema bókarinna er, að ýmsir erfiðleikar steðji að rannsóknablaðamennsku. Það næði um hana kaldir vindar. Ekki er ljóst, að fjölmiðlar séu að fjarlægjast rannsóknir, þótt því sé haldið fram í bókinni. Reikningsblaðamennska hefur aukizt mjög.

Gene Roberts: Hversu vel fréttastofnun líkar við rannsóknablaðamennsku sýnir, hversu vel henni gengur að gegna skyldum sínum við þjóðfélagið. Flestar slíkar stofnanir eru að fjarlægjast rannsóknablaðamennsku, nema nokkur stórblöð.

Almennt séu eru yfirmenn á íslenskum fjölmiðlum hlynntir rannsóknablaðamennsku, t.d. með því að styrkja svona námskeið fjárhagslega. Hins vegar þarf oft að selja einstök verkefni, því að yfirmenn fjölmiðla vilja ekki kasta fé út um gluggann.

Um leið og mönnum finnst oft rannsóknablaðamennska verða dýr í rekstri, þá átta þeir sig á, að hún er vinsæl, eykur til dæmis áhorf í sjónvarpi. Í Bandaríkjunum eru rannsóknafréttir einkum birtar í könnunarvikum, þegar áhorf er mælt.

Komið hefur á óvart, að meirihluti fólks styður prentfrelsi aðeins sem hugmynd, en ekki sem veruleika. Meirihlutinn vill í raun, að blaðamenn séu skráðir og þeir verði látnir sæta sektum fyrir rangar og hlutdrægar fréttir.

Íþyngjandi refsningar fyrir óviðurkvæmileg skrif hafa skotið upp kollinum í Bandaríjunum. Tillaga um slíkt hefur komið fram á Alþingi, einkum borin fram af þingmönnum úr Sjálfstæðisflokknum. Bubbi vill fá milljón fyrir mynd af honum að reykja.

Af djúpri skapraun og vantrausti á fjölmiðlum hafna Bandaríkjamenn (og Íslendingar) forsendu í stjórnarskrá landsins og eru sáttir við að gefa eftir hluta af mannréttindum þjóðfélagsins. Hvernig hefur þetta getað gerst?

Ein aðalástæðan er þétting eignarhalds á fjölmiðlum inni í stórum keðjum fyrirtækja, sem hefur haft slæm áhrif á efni fjölmiðla. Önnur ástæða eru óskýrari skil milli eðlilegra frétta og æsifrétta. Í þriðja lagi frægðarfólk í faginu, einkum sjónvarpsfólk.

Breytingar í þjóðfélaginu, í hagkerfi þess, nýlegum dómsúrskurðum, í menningu og tækni hafa bæði ljós og leynd áhrif á efni fjölmiðla og á skoðanir fólks á efni fjölmiðla. Rannsóknablaðamennska er víkjandi og einnig vinsældir hennar.

Ritstjórar og fréttastjórar hafa verið að breytast í framkvæmdastjóra, sem þurfa að fylgjast betur með arði heldur en efni. Sums staðar hafa verið settar upp flóknar aðferðir við að meta framleiðslu blaðamanna. Eins og færibandafólks.

Fréttadeildum utan höfuðborga og í útlöndum hefur verið lokað. Mjúkar fréttir og þjónustufréttir hafa sótt sig í veðrið á kostnað harðra frétta og rannsóknafrétta á forsíðum um land allt. “Ef það kostar tíma og fé, reyndu það ekki.”

Almenningur veit um breytingar á eignarhaldi fjölmiðla og hvaða áhrif það getur haft á efnið. En ímyndar sér hins vegar, að skráning blaðamanna og önnur beisli á blaðamennsku muni bæta nákvæmni og sanngirni frétta. Að þessu leyti bregst fólk.

Almenningur sér ekki, að þrenging laga og dóma um prentfrelsi og víkkun laga og dóma um einkamál ógnar aðgangi hans sjálfs að upplýsingum og getu hans til að hafa áhrif á stjórnmál og að viðhalda borgaralegu samfélagi. Fólkið sjálft brást.

Óvæntir dómar hafa fært fjölmiðlum nýjar hættur. Áður þurftu þeir bara að vara sig á meiðyrðamálum, sem hafa orðið sjaldgæfari. Nú er fremur kært fyrir árás á einkalíf (og fjármál) fólks. Og það er ekki lengur nóg til varnar að hafa sagt sannleikann.

Þungir dómar og mikil málskostnaður getur leitt til tilmæla að ofan um að leggja minna upp úr umdeildum fréttum og forðast þær, sérstaklega ef þær eru þess eðlis, að öflugir aðilar geti höfðað mál út af þeim. Maxwell í Bretlandi sigaði lögmönnum, lögbann.

Rannsóknablaðamennska hefur að mestu leyti haldist svipuð um tíðina, en snýst þó meira en áður um neytendamál og útreikning, fremur en um stjórnmál og viðskipti. Vinsældir hennar hafa risið og hnigið, en ekki fannst munur milli áranna 1980 og 1995.

Tengsl eru milli rannsóknablaðamennsku og smábrotsblaðamennsku (tabloid). Oft er munur hefðbundinnar blaðamennsku og smábrotsblaðamennsku aðeins munur á sjónarhól. Önnur siðferðileg atriði skipta máli í stöðu rannsóknablaðamennsku.

Dómsúrskurðir síðustu ára hafa kælandi áhrif á vinnubrögð við fréttaöflun. Nú þurfa fréttamiðlar að fá sér mistakatrygginu til að greiða kostað í tengslum við málaferli. Gera tryggingafélög kröfu um rólegri og minna umdeildar fréttir? WSJ.

Einnig koma til spurningar um, hvort rannsóknablaðamennska sé stéttbundin við hina hvítu yfirstétt karlmanna og sinni lítið minnihlutahópum og þeim, sem minna mega sín. Veggurinn milli auglýsingadeilda og ritstjórna hefur víða gatast. LA Times.

Afsögn Nixons forseta árið 1974 er af flestum talin vera hápunktur bandarískrar blaðamennsku á 20. öld, af því að dagblöð höfðu þar forustu. Brill: “Watergate kom með frábæra fréttamennsku, sem síðan var snúið við í Lewinskyhneykslinu.”

Árásum á fréttaöflunarleiðir pressunnar og á fullyrðingar hennar um hlutlægni og sanngirni fóru að vaxa, þegar íhaldssöm stjórn kom til valda árið 1981. Margt fólk taldi fjölmiðlana hrokafulla. Málaferli gegn fjölmiðlum færðust í vöxt.

Í lok aldarinnar var svo komið, að almenningur var síður en svo hlynntari fjölmiðlum en hann hafði verið fyrir Watergate. Og yfir heildina sáust ekki merki um, að fjölmiðlar væru gefnari fyrir rannsóknablaðamennsku en fyrir Watergate.

Kvikmyndin All the President’s Men árið 1976 var auðvitað ekki eins og bókin og gaf ekki rétta mynd af málinu. Það voru ekki Bernstein og Woodward einir, sem felldu Nixon, heldur hin og þessi fréttaöflun í mörgum fjölmiðlum.

All the President’s Men bjó um tíma til hetjur úr rannsóknablaðamönnum. Síðan kom kvikmyndin Absence of Malice árið 1981 og fór hina leiðina, fjölmiðlarnir voru þá orðnir skúrkar að nýju og blaðamaðurinn leiksoppur blekkinga.

Ýmsar merkar uppljóstranir komu í fjölmiðlum á þessum tíma. Blaðamannaskólar höfðu fyllst af áhugasömu fólki, sem vildi reyna við rannsóknablaðamennsku. Þetta fólk fór inn á fjölmiðla að loknu námi og hafði þar áhrif.

Rannsóknafréttir vöktu staðbundna athygli, en þjóðin tók betur eftir fréttum um falsanir blaðamanna. Patricia Smith og Mike Barnicle voru rekin frá Boston Globe, Janet Cooke var rekin frá Washington Post, Jayson Blair frá New York Times.

Washington Post lét umboðsmann lesenda gera innanhúsrannsókn á vinnubrögðum Janet Cooke blaðamanns. Niðurstöðurnar sýndu, hversu auðvelt var að fara með rangt mál. “Það er engin vörn til gegn liprum lygara, sem hefur unnið sér traust.”

Efasemdir voru útbreiddar um réttmæti vinnubragða, sem byggðust á trausti á heiðarleika blaðamanna og ritstjóra. Þessar efasemdir voru mikið notaðar af aðilum, sem vildu ekki fjalla um efnisatriði málsins í rannsóknablaðamennsku.

Sérstaklega var rætt um, að ekki mætti nota nafnlausar heimildir, blaðamenn mættu ekki villa á sér heimildir, taka viðtöl við óundirbúið fólk og ekki ryðjast inn í einkalíf fólks. Bernstein og Woodward höfðu notað flestar þessar aðferðir.

Tveir þriðju þjóðarinnar voru ósáttir við, að blaðamenn villtu á sér heimildir og meirihlutinn var andvígur földum myndavélum og hljóðnemum, ennfremur andvígur greiðslum til heimildarmanna og notkun nafnlausra heimildamanna í fréttum.

Sérstaklega var viðkvæmt, að nafnlausir heimildamenn gátu í sumum tilvikum komið að villandi upplýsingum í skjóli nafnleyndar. Þetta var stórmál, því að flestir fjölmiðlar beittu þessari aðferð, sem var lykill að uppljóstrunum um Watergate.

Það var reiðarslag fyrir blaðamenn, þegar ABC News var dæmt til að greiða Food Lion háar skaðabætur fyrir réttar fréttir af sóðaskap í matvinnslu. Fréttamenn höfðu gerst starfsmenn fyrirtækisins og földu inni á sér hljóðnema og myndavélar.

Í málaferlum þessa tíma varð minna um meiðyrðamál og meira um mál, sem byggðust á umdeildum aðferðum rannsóknablaðamennsku, til dæmis árásum hennar á einkalíf fólks. Dómvenja breyttist fjölmiðlum í óhag og sektargreiðslur hækkuðu.

CBS hætti við að sýna uppljóstrun á fölsunum tóbaksframleiðenda, af því að sveit lögmanna hótaði sjónvarpskeðjunni öllu illu. “Ótæmandi fjárhirslur geta bæði keypt embættismenn og hrætt stóra fjölmiðla til hlýðni”, skrifaði Frank Rich.

Þrátt fyrir Watergate og sumpart vegna Watergate hafði þjóðin efasemdir um fjölmiðlana. Þessar efasemdir mældust í skoðanakönnunum, sem sýndu, að hálf þjóðin hafði slíkar efasemdir, taldi fjölmiðlana vera of áhrifamikla, hnýsist of mikið.

Upp úr þessu komu fram hugmyndir um félagslega blaðamennsku, sem starfaði á grundvelli breiðra og sameiginlegra gilda þjóðarinnar í stað þess að líta á þjóðfélagið að utan. Þetta var félagslegi rétttrúnaðurinn undir lok aldarinnar.

Samkvæmt þessari hugmynd eiga fjölmiðlarnir að starfa innan frá, en ekki utan frá, vinna að samstarfi og samvinnu um framfarir, vera í betra samstarfi við stjórnvöld, einkum sveitastjórnir og nefndir og ráð á vegum þeirra. Hér er mikið um slíka vinnu.

Þetta var eins konar endurskilgreining á blaðamennsku sem leit að betri heimi með þátttöku í samfélagslegri vinnu. Þessi blaðamennska fór á fjölmiðlum að keppa um fé, fólk og athygli við rannsóknablaðamennsku, sem efaðist um allt þetta.

Stuðningsmenn rannsóknablaðamennsku töldu, að félagslega blaðamennskan væri fíkjublað til að fela undirlægjuhátt. Fréttastofa, sem markaðssetur sig sem vin samfélagsins, mun áreiðanlega forðast að gera neitt, sem stuðar samfélagið.

Marilyn Greenwald & Joseph Bernt
The Big Chill 2000

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé