Prent 2000

Forsagan
Prent 2000

Ekki er til það áhugamál, að ekki sé gefið út um það tímarit. Hér á landi hafa lengi verið gefin út tvö mánaðarrit um hesta. Á tímabili voru gefin út tvö tímarit hér á landi um skák. Gefið er út í Ameríku sérstakt tímarit um Oprah Winfrey.

Almennum tímaritum hefur hnignað og sérhæfð tímarit koma til skjalanna. Úr sögunni eru almenn blöð á borð við Saturday Evening Post, sem var gefið út í 3 milljónum eintaka. Einnig Fálkinn. Í staðinn koma sérhæfð blöð á borð við The New Yorker.

Nú á tímum eru tímarit yfirleitt sérhæfð, skrifuð fyrir markhópa með auglýsingum fyrir markhópa. Ódýr póstur var dreifingartækni tímarita frá upphafi, en eftir 1990 varð veraldarvefurinn að nýjum kosti í dreifingu tímarita.

Skrifborðsútgáfa tímarita hófst með hugbúnaði, sem gerði almenningi kleift að setja upp og brjóta um síður og arkir í tölvum. PageMaker og QuarkXpress komu til sögunnar, einnig leysiprentarar og myndskannar. Tímaritum fjölgaði gífurlega.

Bækur eru gefnar út og keyptar í meira mæli en nokkru sinni fyrr. Vinsældabækur sem almenn söluvara safnast fyrir í risastórum útgáfufyrirtækjum og stórmörkuðum, en smáútgefendur blómstra í fjölbreyttri útgáfu á þrengri markaði, núna mest á netinu.

Ýmsar nýjungar hafa eflt prentun. Rúlluprentvélar komu til sögunnar 1846 og gerðu kleif milljónaupplög á dagblöðum. Setningarvélar komu 1890. Litógrafía mynda kom 1860. Offsetprentun kom eftir seinna stríð. Tölvusetning kom eftir 1970.

Nú eru flest tímarit unnin í tölvum alla leið á prentplötu, sem síðan er fest í prentvél. Forvinnsla bóka og tímarita fyrir prentun er því orðin miklu ódýari en áður og á færi fleiri aðila. Sumar bækur eru hreinlega prentaðar eftir pöntun.

Hafin er skönnun gamalla bóka yfir í stafrænt form. Google hefur samið við heil bókasöfn um að verkin verði aðgengileg á veraldarvefnum. Gallinn er, að enn er ekki eins auðvelt að lesa af skjá og að lesa af síðu, en það mun skána á allra næstu árum.

Menn taka ekki tveggja kílóa fartölvu í rúmið eins og bók eða tímarit. Fáar bækur eru seldar í stafrænu formi. Enn hafa ekki komið til sögunnar vinsælar aðferðir aðrar en fartölvan til að lesa texta. Enn er ekkert eins notendavænt og pappírinn.

Öll útgáfa National Geographic Magazine með frægum litmyndum er fáanleg á tölvudiskum fyrir 200 dollara, allt safnið frá 1888. New Yorker líka á diskum. Fréttablaðið er fáanlegt á vefnum á hverjum degi. Okkur vantar bara rétta tölvu til að skoða þetta allt.

Að meðaltali kemur helmingur tekna tímarita frá auglýsingum, þriðjungur frá áskrifendum og einn sjötti frá lausakaupafólki. Sum tímarit eru eingöngu seld í áskrift, enda er oft þröng á þingi á lausasölustöðum, erfitt að komast þar að með vöru.

Prentfrelsi er sæmilega sett, en sumir hópar hafa lýst andstöðu við kynferðislegt innihald. Nýir miðlar hafa lent í því sama. Keðjuverslanir á borð við WalMart og Nóatún hafa neitað að hafa í sölu blöð og tímarit, sem þær telja ekki henta sínu fólki.

Óraunverulegar bókabúðir á borð við Amazon, þar sem er engin steypa og enginn múr, hafa um 10% af bóksölu í Bandaríkjunum. Amazon er líka milliliður, sem útvegar bækur frá fjölmörgum aðilum, er eiga birgðir af nýjum og gömlum bókum.

Tilkoma Amazon hefur leitt til meiri dreifingar á sérhæfðum bókum, sem áður fengu ekki pláss fyrir metsölubókum í venjulegum bókabúðum og alls ekki í stórmörkuðum. Þannig hefur stafrænn söluaðili leitt til mikillar dreifingar í bókaútgáfu.

Tímarit hafa náð í sérstöðu, sem felst í að birta hágæða glansmyndir, sem bera af myndum á skjá. Þetta skiptir miklu máli á sumum sviðum, svo sem í tískublöðum, bílablöðum, hönnunarblöðum. Slík tímarit eru ekki á undanhaldi fyrir internetinu.

Með stafrænni miðlun hefur aukist stuldur á vernduðu efni. Menn taka óhikað texta og myndir upp af veraldarvefnum og líma inn í eigin verk, ritgerðir, verkefni og greinar, án þess að geta rétthafa eða ræða við þá. Erfitt er að elta allt þetta.

Um aldamótin og upp úr þeim varð til hefðbundinn fréttastíll öfuga píramídans, þar sem það mikilvægasta var haft efst og svarað spurningunum öllum: “Hver gerði hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna og hvað svo?”

Veldi dagblaða náði hámarki 1890-1920, áður en kvikmyndir og útvarp komu til sögunnar. Á síðari árum hefur samanlagt upplag staðið í stað og stundum minnkað. Sumir kaupa ekki lengur dagblöð, heldur lesa úr efni þeirra á veraldarvefnum.

Heilu dagblöðin eru fáanleg ókeypis á veraldarvefnum, sum í sama formi og þau fást prentuð, önnur í textaformi. Sumar heimasíður dagblaða eru feiknarmikið notaðar, til dæmis hjá New York Times í Bandaríkjunum og Guardian á Englandi.

Þótt mikið hafi verið um blaðadauða, hafa stærstu og útbreiddustu blöðin haldið velli. Wall Street Journal, New York Times, Washington Post og US Today eru í vaxandi upplagi, sömuleiðis flest hliðstæð blöð í Evrópu, líka sum æsifréttablöð.

Mikill meirihluti fólks notar enn dagblöð, en heldur hefur dregið úr lestri yngri kynslóða. Eignarhald á blöðum hefur safnast á fárra hendur. Víða er aðeins eitt dagblað á borgarmarkaði. Eign á blöðum fer oft saman við eign annarra fjölmiðla.

Rannsóknablaðamennska hefur alltaf verið hluti blaðamennsku. Hún náði hámarki frægðar, þegar New York Times birti Pentagonskjölin og WashingtonPost kom upp um Watergatehneykslið. Blaðamennirnir Bernstein og Woodward urðu heimsfrægir.

Almenningur reyndist hins vegar hafa efasemdir um vinnubrögð í rannsóknum, einkum um notkun á nafnlausum heimildum og um blaðamennsku í dulargerfi. Þótt hvort tveggja hafi leitt til frægra uppljóstrana, er margt fólk ekki fyllilega sátt við það.

Í kjölfar þess hefur um fjórðungur bandarískra dagblaða tekið upp borgaralega blaðamennsku, sem felst í stuðningi við stjórnsýslu og samtök almennings á markaðssvæðum þeirra, fundum með fólki, herferðir og fræðslu til að afla sér jákvæðari ímyndar.

Dagblöð sanda enn föstum fótum, þótt nýir fjölmiðlar hafi komið til sögunnar. Enn taka dagblöð til sín stærstan hluta auglýsingatekna í Bandaríkjunum, ef frá eru skildar auglýsingar í pósti. Frá Watergate hafa blaðaauglýsingar fimmfaldast.

Almenningur notar meira fréttir í sjónvarpi, en hinir betur stæðu og menntuðu reiða sig meira á dagblöð. Notkun frétta í hefðbundnu sjónvarpi og dagblöðum hefur heldur minnkað udanfarinn áratug, en aukist hefur sérhæfð fréttaútgáfa.

Blaðamenn fara minna út á galeiðuna en áður. Þeir sitja meira við tölvuna og fletta upplýsingum í gagnabönkum og stilla saman upplýsingum úr mörgum bönkum. CAR eða Computerassistedreporting er orðið að mikilvægri sérgrein blaðamanna.

Reynt hefur verið að samnýta blaðamennsku. Sami maður aflar fréttar, myndar hana, skrifar um hana í blað, talar inn frétt í útvarp og kemur fram í sjónvarpi. Þetta hefur víða reynst erfitt í framkvæmd, enda eru vinnubrögð fjölmiðla misjöfn.

Ef menn geta verið blaðamenn með kassettutæki og videotökuvél og hljóðnema og kunna grafagerð geta þeir fræðilega séð sett saman ýmsar útgáfur af fréttinni fyrir ýmsar tegundir miðla og þannig tekið frumkvæði í fréttum af ritstjórum.

Blaðamennska getur verið hættuleg. Alls hafa 389 blaðamenn verið drepnir í starfi á síðustu tíu árum. Víða eru valdhafar og valdahópar og forstjórar andvígir upplýsingum, sem birtast í fjölmiðlum og reyna að koma í veg fyrir þær.

1721 var kveðinn upp mikilvægur dómur í Bandaríkjunum, þar sem fram kom, að þeir, sem höfða meiðyrðamál, verða að sýna fram á, að farið hafi verið með rangt mál. Þessi dómur hefur síðan haldið meiðyrðamálum í skefjum á Vesturlöndum. Nema á Íslandi.

Löngu síðar kom fram það sjónarmið, að dagblöð ættu ekki endilega að segja allan sannleikann, heldur taka tillit til málsaðila, til dæmis með því að sleppa eða að fresta því að svara spurningunni: Hver? Þetta er til dæmis algengt deilumál á Íslandi.

Siðferðisvandamál dagblaða felast einkum í umræðu um hvernig skrifa skuli um fólk og hvernig skuli nota heimildir. Nokkuð er fjallað um friðhelgi einstaklingsins, en nákvæmni og heiðarleiki eru þó veigameiri áhersluefni í fjölmiðlaumræðunni.

Hér á landi snýst umræðan einkum um birtingu nafna og mynda af fólki í fréttum, til dæmis í lögreglu og dómsmálum. Einnig er fjallað um stærðir fyrirsagna og uppsetningu efnis. Hefðbundin meiðyrðamál hafa hins vegar ekki færst í aukana.

Fyrsta lögmál dagblaða er að segja sannleikann, vera nákvæm, vera óhlutdræg og skila frá sér réttum fréttum eftir föngum. Árið 2004 lentu bæði New York Times og Washington Post í að þurfa að játa á sig lygafréttir eftir siðlausa blaðamenn.

Flest dagblöð hafa strangar reglur um notkun heimilda. Sum hafa umboðsmann lesenda til að treysta eftirlitið. Og reynslan er sú, að flestir notendur netsins taka fréttir af vefútgáfum dagblaða fram yfir fréttir annarra aðila á vefnum.

Málum um meiðyrði fer fækkandi, en aukist hafa áhyggjur af framgöngu ljósmyndara, sem mynda frægðarfólk á götum úti, stundum með truflandi áhrifum á umferð. Sú umræða hefur leitt til kenninga um nauðsyn á frelsi fólks til að fá að vera í friði.

Bæði New York Times og Washington Post hafa beðist formlega afsökunar á að hafa tekið málsvara stjórnvalda of trúanlega í aðdraganda stríðsins gegn Írak. Margir telja, að dagblöð hafi minna eftirlit en áður með stjórnvöldum og fyrirtækjum.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar &
Robert LaRose, Media Now
Understanding Media, Culture and Technology, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé