Samþættar fréttir

Nýmiðlun
Samþættar fréttir

Góðar sögur koma úr góðri fréttaöflun og góð fréttaöflun kemur úr góðri heimildavinnu og skipulagi. Fyrst þarf höfundurinn að vinna heimavinnu, finna bakgrunn, skilja samhengi, finna fólk og heimildir, finna sjónarhorn, gera söguna áhugaverða misjöfnu fólki

Blaðamaðurinn þarf að kunna söguna (skilja fókusinn) til að geta sagt hana, þekkja áheyrendur (skilja þarfir þeirra) til að ná sambandi við þá, þekkja miðilinn (vita hvernig hann nýtist fólki) til að nota hann á virkan hátt.

Að þekkja söguna: Þú verður að vita, hvað þú ert að tala eða skrifa um, áður en þú byrjar. Það er ekki nóg að vita staðreyndirnar, þú verður líka að vita samhengið og hafa innsæið. Þú verður að vita bakgrunn, kunna viðtöl og veita eftirtekt.

Vefurinn er frábær heimild fyrir blaðamenn, af því að auðvelt er að leita og finna á honum. Þeir þurfa að vita, hvar á að leita. Blaðamenn þurfa að vita, hver er partur af sögunni og hver ekki. Þeir þurfa að fara úr blöðru tölva og sérfræðinga og finna fólkið.

Að þekkja notendur: Til að þekkja notendur, þarftu að þekkja samfélag þitt. Notendur eru að breytast, sækja upplýsingar á ýmsan hátt, oft í litlum bitum. Fréttablöð, sem þjóna litlum hópum, auka við lestur, en stórir fjölmiðlar tapa lestri á sama tíma.

Að þekkja miðlana: Fólk snýr sér að ýmsum tegundum fjölmiðla á ýmsum tímum til að fá ýmsar tegundir upplýsinga. Krafan er, að allt gerist hér og nú. Fólk notar sjónvarp til að sjá og heyra og fer á netið, sem gefur kost á gagnvirkni og tengingum.

Hver saga hefur lög af upplýsingum, sýnanlegt lag, heyranlegt, lesanlegt, leikið, leitanlegt, gagnvirkt, samtvinnað. Fólk vill blanda þessu saman eftir þörfum sínum hverju sinni.

Að finna sögur: Hæfni til að finna sögur er kölluð fréttanef. Hugmyndir fara gegnum síu fréttagilda: Núið, nálægð, áhrif, spenna, óvenja, mikilvægi, frægð. Hugmyndir koma úr forvitni, blaðamenn taka eftir umheiminum, lesa mikið, sjá teikn á lofti.

Hinir venjulega grunuðu:
Fréttastofur hafa lista yfir fólk og staði. Þær hafa tilkynningar, sem sía þarf. Það er slæm venja í stað fréttaöflunar að nota fréttatilkynningar í texta, hljóði eða vídeó, án þess að endurskoða þær, laga og geta heimildar.

Vegna ólíkra skilatíma og ólíkra notenda bregðast útvarp og sjónvarp sérstaklega hratt við því, sem kemur á skannann. Þau lifa í núinu. Blöð og vefur setja meira samhengi inn, af því að þau hafa meira pláss og meiri tíma.

Fundarboð og fundir geta gefið mikilvægar upplýsingar um bakgrunn, jafnvel þótt fundurinn sjálfur sé ekki fréttnæmur. Hann getur hins vegar gefið hugmyndir að fréttum úti í bæ.

Fréttir:
Finna má fréttir í birtum fréttum. Viðamikil frétt gefur tilefni til smáfrétta. Erlendar fréttir hafa innlenda vinkla. Innlendar fréttir hafa vinkla, sem snerta minnihlutahópa. Sumar fréttir á eftir að persónugera. Sumar í smáramma.

Netið:
Umræðuhópar, blogg, fréttahópar gefa tilefni frétta. Þangað leita blaðamenn til að finna, hvað er verið að tala um. Þar eru engar síur, svo að blaðamaðurinn þarf að átta sig á, hvað er signal og hvað er hávaði (noise).

Varúð á vefnum:
1. Hver er bak við upplýsinguna.
2. Hefur hann ákveðin markmið.
3. Hvenær var það sett á netið.
4. Hver er trúverðugleikinn.
5. Get ég staðfest upplýsinguna.
Stattu upp, farðu út í bæ, þar sem lífið fer fram.

Að finna heimildir:
Menn hafa lista yfir þá, sem hafa reynst vera góðar heimildir. Þeir eru oft fyrstu heimildamenn. En líka þarf að ná í aðra til að víkka sjóndeildarhringinn. Leita þarf að einstæðu eins og almennu. Menn eiga gagnabanka yfir heimildir.

Skipta má heimildum í fyrsta og annars stigs heimildir. Fyrsta stigs heimild þekkir málið af eigin reynslu. Annars stigs heimild er einu skrefi eða fleiri skrefum fjarlægari. Annars stigs heimildir finna fyrsta stigs heimildir, sem eru nauðsynlegar í fréttinni.

Sessunautur þinn á ritstjórn kann að eiga viðkomandi nafn og síma á lista sínum. Á sjónvarpi er verkefnadeskurinn geymslustaður slíkra upplýsinga. Blaðamenn eiga svo líka eigin lista. Þeir eiga nafnspjöld. Þeir finna heimildir, sjónarvotta, á vettvangi.

Biddu um farsímanúmer og netföng allra, sem þú hittir. Vertu í góðu sambandi við þá, sem skammta aðgang að heimildamönnum. Mundu eftir þeim, sem eru “fyrrverandi”. Þeir geta oft talað. Allt þetta er hluti af kortlagningu samfélagsins.

Bakgrunnur: Heimildavinna getur ráðið mun á hversdagsfrétt og góðri frétt, sem vekur athygli og fær fólk til að lesa, hlusta, horfa eða vafra meira. Margir blaðamenn eru áskrifendur að sérhæfðum tímaritum. Bakgrunnur eflir fókus og viðtöl, fyllir göt.

Að nota netið:
Leitarvélar á borð við Google og LexisNexis eru auðveldur staður til að hefja leit. Blaðamenn þurfa að kunna að nota netið sem verkfæri. Google er venjulega fyrsta skrefið. Leitarkerfi þess er þróað, en greinir ekki hafra frá sauðum.

Að finna myndir: Allir blaðamenn þurfa að finna það myndræna í sögunni. Þeir átta sig á smáatriðum á vettvangi. Þeir þurfa þjálfun í að hugsa um grafíska og myndræna möguleika í stöðunni. Slíkt á ekki að vera síðbúin “myndskreyting”, heldur innifalið frá upphafi.

Í öllum miðlum þurfa blaðamenn að geta rakið, hvaða myndir muni auka skilning notenda á sögunni. Hugsun um myndræn efni fylgir sögu frá upphafi eins og hugsun um heimildir, sjónarhóla og spurningar fylgja henni frá upphafi.

Sumar myndir eru skipulagðar, aðrar þarf að upplifa og skoða. Blaðamenn þurfa að vera þjálfaðir í að virða fyrir sér vettvang. Þeir þurfa að geta skoðað hann frá ýmsum áttum, mismunandi sjónarhorni, vinstra eða hægra, víðu eða þröngu, niður eða upp.

Að finna viðtal: Viðtöl koma fólki fyrir í sögunni. Þau koma inn tilvitnunum og hljóðbitum. Þau gefa sögunni upplýsingar, mannlegan þátt og trúverðugleika. Fyrir viðtöl þarf að finna fókus, kynna sér viðmælandann og vita, hvaða upplýsinga er að vænta.

Viðtöl eru margs konar, augliti til auglitis, í síma eða í tölvupósti, í hópi á borð við fréttafund. Þau eru samræðuleg eða baráttuleg. Við vana eða óvana. Þau eru dans blaðamannsins, sem þarf að finna rétt spor. Til þess þarf æfingu og þekkingu á viðmælandanum.

Viðfangsefnið:
Hvað veistu um það? Þú getur ekki spurt góðra spurninga, ef þú þekkir ekki viðfangsefnið. Með þekkingu sendir þú skilaboð til viðmælandans. Besti undirbúningurinn er að lesa sem mest um málið.

Viðtalstegundin:
Hvað þarftu að fá út úr viðtalinu? Er þetta nýtt mál? Eru það viðbrögð? Ertu að finna prófíl viðmælandans? Ertu á fréttafundi? Er viðmælandinn í sorg? Ertu í launsátri?

Viðtalstíminn:
Hversu mikinn tíma hefurðu? Upptaka af símtali dugar ekki í sjónvarpi. Viðtal í sjónvarpi tekur lengri tíma. Eyddu ekki tíma í flóknar spurningar, í tvíþættar spurningar, í langar kynningar þeirra, í þær sem þarf að skýra.

Viðmælandinn og vettvangurinn:
Er hann þekktur og vanur, er hann óvanur og tregur. Þekktir eiga að geta svarað öllu. Oft verður barátta, þegar þeir reyna að teygja viðtalið í aðrar áttir. Sumir setja takmörk og kröfur.

Spurningar:
Undirbúðu þær. Hv-in sjö. Spurningarnar verða að framkalla svör. Ekki já-nei spurningar, heldur opnar spurningar: Hvernig gerðist þetta? Hvað sástu? Hvað hugsaðirðu? Hvers vegna viltu þetta? Hv-spurningar eru góðar.

Hlustun:
Nýjar spurningar koma í ljós í viðtalinu. Því þarftu að hlusta. Þú þarft líka að þegja í ljósvaka, mátt kinka kolli. Endurspurðu, ef menn svara út úr. Biddu um skýringar. Kannski fer viðtalið í nýja sálma. Mundu: Hef ég gleymt einhverju?

Nótur:
Nótuskrif þurfa að vera ósjálfráð. Stundum er ekki hægt að koma þeim við. Almennt senda nótur góð skilaboð. Vertu viss um leikreglur, þú segist vera blaðamaður, þú segist vera í vinnunni, viðtalið er ekki nafnlaust.

Nafnlausar heimildir eru vondar. Gegnsæi er grundvallarregla í góðri blaðamennsku. Notendur eiga rétt á að vita, hver heimildin er. Þó er hægt að taka nafnlaus viðtöl, ekki til birtingar, heldur til að undirbúa viðtöl við nafngreint fólk. Spurning um siði og traust.

Að finna fókus: Oft er fókusinn loðinn eða að ýmsir möguleikar eru í stöðunni. Margar leiðir eru notaðar til að finna hann. Lykillinn er að hugsa um söguna, áður en hún er sett saman. Þegar blaðamaðurinn hefur fundið fókusinn, renna brotin saman í mynd.

Þú getur heilastormað um fókus, viðrað hann við samstarfsfólk. Best er, að úr því komi nokkrir kostir, sem þú velur milli. Gott er að hafa fókusinn sjónrænan, búa til sögukort. Erfiðast fyrir flesta er að skilja hluti eftir utan við fókus.

Fókusmálsgrein skipuleggur söguna og selur hana ritstjóra.
1. Af hverju er sagan mikilvæg?
2. Hver er punktur sögunnar?
3. Hvers vegna segja söguna?
4. Hvað segir sagan um okkur og umheiminn.
5. Um hvað er sagan, í einu orði.

Tom Farrey:
Hefur í huga sagnalist hvers miðils. Tímarit þurfa sögusvið. Vefurinn þarf efni í spjallrásir.
“Við þurfum að losna úr viðjum eigingirni samkeppninnar, ekki hafa áhyggjur af, hvaða miðill skúbbi fréttinni.”

Kevin Sites:
Altmúligmaður í Afganistan og Írak. Samþætting allra þátta. Sumt efni hans fer í sjónvarp, annað í blöð og tímarit eða bara á vefinn. Hefur öll tæki með, gervihnattasíma, myndavél, vídeóvél, hljóðnema, fartölvu. Er sjálfstæður.

Sjá nánar:
Janet Kolodzy: Convergence Journalism, 2006
Stephen Quinn & Vincent F. Filak: Convergent Journalism, 2005

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé