Forsaga
Siðir og reglur 2000
Árið 1733 staðfesti Hæstiréttur Bandaríkjanna að ekki væri um meiðyrði að ræða, ef ákærandi gæti ekki sannað, að farið væri með rangt mál. 1789 var stjórnarskrá Bandaríkjanna staðfest með slíkri viðbót. Í Bretlandi hvílir sönnunarbyrðin á fjölmiðlinum.
Fyrsta viðbót bandarísku stjórnarskrárinnar segir: “Þingið á ekki að setja nein lög um stofnun trúarbragða eða bann við þeim, né um takmörkun málfrelsis eða prentfrelsis.” Skráin verndar ekki meiðyrði, árás á einkalíf, stuðning við ofbeldi.
Meiðyrði eru skaðleg og ósönn skrifuð ummæli, sem skaða virðingu manns. Til þess að um meiðyrði sé að ræða, þarf kærandi (í USA) að sýna fram á, að upplýsingarnar hafi verið rangar og að tilgangur þeirra hafi verið að skaða þann, sem meiddur var.
Fyrirtæki setja oft verklagsreglur og staðla um tækni og keppast um að koma á stöðlum, sem ná til allrar greinarinnar. Stjórnvöld taka oft þátt í gerð staðla fyrir atvinnugreinar. Á fjölþjóðavettvangi eru staðlaráð, sem ákveða staðla.
Þótt blöð og fréttarit hafi ekki sætt takmörkunum á prentfrelsi i Bandaríkjunum hafa verið sett lög um bækur, tímarit, útvarp, kvikmyndir og sjónvarp, einkum að því er varðar efni um kynlíf og dónaskap í orðbragði.
Samtök miðla hafa teflt fram sjálfsritskoðun móti ritskoðun og hafa komið upp merkingum á kvikmyndum og sjónvarpsefni. Gagnrýnendur telja, að þessi merking hafi lítil áhrif og að ofbeldi og klám fari ört vaxandi í bíó og sjónvarpi.
Sumir telja fjórðu viðbót stjórnarskrár Bandaríkjanna snerta friðhelgi einkalífs. Þingið hefur sett lög bæði til að auka og minnka verndun einkalífs á ákveðnum sviðum. Þau takmarka einkum lögregluaðgerðir í heimahúsum, ekki starf fjölmiðla.
Í Evrópu hefur Evrópusambandið sett reglur, sem fela í sér, að fólk fái að vita, hvað stendur um það í gögnum og fái að vita í hvaða skyni upplýsingarnar eru. Þessar reglur þrengja að öðru leyti ekki aðkomu fjölmiðla að einkamálum fólks. Athugið þó Karólínudóm.
Iðngrein er talin vera eðlileg einokun, þegar ekki er um að ræða fjárhagslega hagkvæma möguleika á samkeppni. Þetta á einkum við um svið, þar sem innviðir eru dýrir, svo sem í svæðisbundnum símakerfum.
Eftirlitsstofnanir iðngreina verða oft fangar iðngreinanna. Þær verða háðar upplýsingar frá greinunum. Starfsmenn flæða milli iðnaðar og eftirlits og eftirlitsmenn endurspegla oft hugmyndir og markmið úr iðnaði.
Þar sem skortur hefur verið á útvarps og sjónvarpsrásum, svo og símarásum, þurfti ríkisvaldið að grípa inn í og skammta annað hvort aðganginn eða bjóða hann út, gegn ákveðnum skilyrðum um framkvæmdina. Ný tækni hefur gert skömmtunina óþarfa.
Þrýstihópar eru stofnanir, sem hagsmunaðilar eða fyrirtæki nota til að þrýsta á þingmenn og embættismenn til að fara eftir óskum þrýstihópsins. www.fair.org finnur hægri sveiflu í fjölmiðlum og www.aim.org finnur vinstri sveiflu þar.
Helstu atriði, sem varða siði fjölmiðla eru nákvæmni og sannleiki, sanngirni og ábyrgð, einkalíf þeirra sem fjallað er um, svo og höfundaréttur annarra. Mikilvæg er að gera það við aðra, sem þú vilt, að þeir geri þér. Um slík atriði fjalla ýmsar siðareglur.
Fyrsta siðaregla blaðamanna fjallar um að segja réttar fréttir, aðskildar frá skoðunum. Önnur reglan er, að fjölmiðlar séu markaðstorg hugmynda og gagnrýni. Þriðja reglan segir, að fjölmiðillinn gefi rétta mynd af stöðu og gangi mála.
Fjórða siðareglan er, að fjölmiðillinn skýri markmið og gildi þjóðfélagsins. Hver sem er í aðstöðu blaðamanns hefur skyldur við þjóðfélagið um að nota frelsi sitt á ábyrgan hátt. Mikilvægast er þar, að upplýsingarnar séu sem áreiðanlegastar.
Hefðbundið innihald siðareglna:
1) Seek truth and report it.
2) Minimize harm.
3) Act independently.
4) Be accountable.
Blaðamenn eiga að vera heiðarlegir, sanngjarnir og hugrakkir í að safna fréttum, skrifa þær og túlka. Þeir eiga að fara með heimildarfólk, umræðuefni og starfsbræður sem mannlegar verur, sem eigi virðingu skilið.
Blaðamenn eiga að vera óháðir öllum kröfum um stuðning við hagsmuni aðra en almannahagsmuni og réttindi fólks til að fá að vita um hluti. Þeir eiga að vera ábyrgir gagnvart notendum miðlanna og hver gagnvart öðrum.
Umboðsmaður notenda á dagblöðum er venjulega reyndur fréttamður eða ritstjóri, sem er innri gagnrýnandi og málsvari samfélagsins. Umboðsmenn hafa stundum tekið fjölmiðla sína alvarlega í gegn, til dæmis hjá New York Times og Washington Post.
Reglur um sanngirni og ábyrgð fela í sér, að fjölmiðlamenn forðist að mismuna fólki, að þeir verndi heimildarmenn, forðist mútur, spillingu og að taka við greiða. Ef um hagsmunaárekstra er að ræða, þarf að segja notendum frá þeim.
Fréttatilkynningar geta orðið að ósiðlegri hækju önnum kafins blaðamanns, sem tekur þær upp í heilu lagi eða í hlutum í fréttir sínar. Sviðsetning atburða í sjónvarpi getur verið mjög villandi og hana ber að forðast. Nafnlausar heimildir eru slæmar.
Fréttamenn vilja venjulega vernda heimildir sínar, en verða eigi að síður að vísa til þeirra eins nákvæmlega og unnt er til að varðveita traustið. Leynd yfir heimildarmönnum er mikilvæg til að vernda þá og til að halda sambandi við þá.
Víða hefur ríkið haft meiri afskipti af útvarpi og sjónvarpi en af prentmiðlum af því að skortur var á rásum, sem þurfti að úthluta. Sums staðar í þriðja heiminum eru stjórnvöld eini aðilinn, sem má útvarpa, væntanlega til að verja völd sín.
Rafrænir miðlar eru líka í bóndabeygju stjórnvalda. Sum stjórnvöld líta á þá sem tæki til að efla þróun eða halda völdum. Í sumum löndum eru stjórnvöld eini aðilinn, sem getur rekið útvarps og sjónvarpskerfi og símakerfi.
Ríkisútvarp og ríkissjónvarp var víða talið nauðsynlegt til að sameina kraftana, fjárfesta í framþróun og dreifa efninu til afskekktra aðila. Á síðustu árum hefur einkaútvarp og einkasjónvarp verið leyft í mörgum slíkra landa.
Síminn hefur víða verið einkavæddur af því að hann var almennt álitinn illa rekinn og ófær um að leiða fólk inn í tækni framtíðarinnar. Talið var, að einkafyrirtæki hefðu meiri fjármuni og betri stjórnun.
Bandarískar kvikmyndir náðu góðri stöðu á heimsmarkaði, því að þarlendir kvikmyndamenn voru vanir að ná til nýbúa með almennum skemmtunarstíl, sem gerði ólíkum menningarhópum kleift að hafa gaman og gagn af efninu.
Í mörgum löndum kom í ljós, að ódýrara var að sýna bandarískt efni en að framleiða efni innanlands og að auðvelt var að fylla dagskrár með slíku efni. Í seinni tíð hefur bandarískt efni orðið dýrara en það var. Bjork syngur á ensku.
Bandarískt sjónvarp, bandarískar kvikmyndir og bandarísk tónlist njóta vinsælda erlendis, einkum meðal ungs fólks. Margir óttast áhrif þessa á hugmyndir, ímyndir og gildi heima fyrir. Heimafengið efni sækir þó á víðs vegar um heiminn.
Bandarísk forusta í sjónvarpsefni hefur minnkað, af því að fólk í öðrum löndum hefur lært rétt vinnubrögð, af því að það hefur þróað efnistegundir, sem höfða til heimafólks. Erlend fyrirtæki flytja nú efni til Bandaríkjanna.
Sápur, skemmtiþættir, tónlist og umræðuþættir eru meira áberandi í efni erlendis. Sum ríki eru of fátæk til að framleiða annað efni og leggja því áherslu á ódýrt efni af þessu tagi. Heimamarkaðurinn sækir mest á í tónlist og sjónvarpsefni.
Þar sem tekjur bandaríska kvikmyndaiðnaðarins koma eins mikið frá útlöndum og frá heimamarkaði eru bandarísk kvikmyndaver farin að taka meira og meira tillit til væntinga um viðtökur erlendis. Kvikmyndirnar eru því ekki einhliða bandarískar.
Vegna misjafns aðgangs þjóða að internetinu, hefur sá miðill orðið til að víkka gjána milli ríkra og fátækra þjóða. Internetið stuðlar að viðskiptum og hnattvæðingu og vinnur gegn ritskoðun. Það hefur gefið sérhópum nýja vídd.
Helstu eigendur fjölmiðlunar í heiminum eru Time Warner (USA), Disney/ABC (USA), News Corporation (Ástralía), Seagram-Universal (Kanada), Bertelsman (Þýskaland), Comcast (USA) og General Electric/NBC (USA).
Alþjóðalög gilda um flest svið fjölmiðlunar, sett af fjölþjóðlegum og alþjóðlegum stofnunum. Vandinn er sá, að þau treysta öll á stuðning ríkisstjórna, sem kunna að hafa önnur, sértæk áhugamál að leiðarljósi.
Evrópusambandið setur staðla og reglur, sem fá alþjóðlega útbreiðslu vegna stærðar og mikilvægis evrópska markaðarins, og neyðir Bandaríkin til að koma í kjölfarið. Heimsviðskiptastofnunin fylgist með viðskiptum og höfundarétti.
Menningarleg heimsvaldastefna felst í ójafnvægi milli styrkleika menningarsvæða. Kvikmyndir, fréttir, sjónvarpsefni og tónlist koma einkum frá Bandaríkjunum. Fyrirmyndir í miðlun og eignarhald í hnattrænum viðskiptum er hvort tveggja vestrænt.
Bandaríkin mæla með frjálsu flæði upplýsinga sem útvíkkun á gildum ríkisins um tjáningarfrelsi. Önnur ríki kvarta um, að óheft flæði viðhaldi bandarískum yfirráðum. Þau vilja beita fullveldi sínu. Það leiðir óbeint til ritskoðunar.
Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose, Media Now
Understanding Media, Culture and Technology, 2006
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé00