Sjónvarp á vettvangi

Blaðamennska
Sjónvarp á vettvangi

Allir málsaðilar hafa rétt á að í þá sé rétt vitnað, að sagt sé hlutlægt frá orðum þeirra og gerðum. Þú telur þig kannski vita, að þeir fari með rangt mál, en það er þeirra mál. Allir málsaðilar eiga skilið kurteisi af hálfu blaðamanns.

Fólk í fréttunum, einkum stjórnmálamenn og embættismenn, hefur skyldur gagnvart almenningi. Þeir þurfa að vinna verk sín fyrir opnum tjöldum. Ekki eru allir jafn hrifnir af þessu hlutverki sínu, en blaðamenn þurfa að halda þeim við efnið.

Það er misjafnt eftir þjóðfélögum, hversu mikil áhersla er lögð á gegnsæi og hversu mikil á einkalíf. Á Íslandi er áherslan á einkalíf eindregin og um leið minni áhugi á gegnsæi. Þetta sést af Persónuvernd og framkvæmd Upplýsingalaga.

Til eru þrenns konar spurningar:
1) Þær sem eiga að ná í harðar staðreyndir.
2) Þær sem eiga að fá fólk til að tala um skoðanir og tilfinningar.
3) Þær sem eiga að negla niður viðsjárverðan viðmælanda.

Harðar staðreyndir hvers máls opnast með spurningunum: 1) Hver gerði (sagði) 2) hvað, 3) hvar, 4) hvenær, 5) hvernig, 6) hvers vegna og 7) hvað svo. Harðar spurningar eiga að vera sértækar, svo að viðmælandi feli sig ekki í almennum orðum.

Stundum veistu kannski ekki nóg til að bera upp sértækar spurningar. Þá geturðu hvatt viðmælandann til aðstoðar. Margir fagna því að geta gefið blaðamanni skýringar. En þeir geta um leið notað tækifærið til að varpa sínu ljósi á málin.

Þegar þú hefur heyrt skýringarnar, þarftu að fylgja þeim eftir með góðum spurningum. Ef skýringarnar fela í sér ósannaðar fullyrðingar, er nauðsynlegt, að þú spyrjir út í þær. Hvað felst í orðunum “lítils háttar” hækkun vaxta?

Ef viðmælandi talar um “lítils háttar” vaxtahækkun, spyrð þú, hvernig hann hafi komist að þeirri niðurstöðu, hver sé munurinn á “lítils háttar” og annarri hækkun vaxta, hver hækkunin hefði þurft að vera til að teljast “meiri háttar”.

Ef þú færð skýringar hjá einum aðila, skaltu fara til andstæðings hans og kynna þér, hvað hann hefur um málið að segja. Með því að prófa fullyrðingar hins fyrra á hinum síðari, færð þú tilfinningu fyrir vídd skoðana. Segðu frá þeim báðum.

Ef sögur þínar eiga að ná til fólks, þarftu að koma á framfæri tilfinningum málsaðila. Við sjáum þetta í sportfréttum. Hljóðbitar og myndbitar eru kjörin leið til að koma tilfinningum á framfæri. Ekki segja: “Hann var reiður”. Sýndu það.

Leiðin að tilfinningum fólks er um
1) almennt orðaðar spurningar, sem ekki leiða til jáeðanei svars, og
2) kunna að þegja. Vertu ekki hræddur við þagnir, viðmælendur fylla upp í þær.

Erfiðust eru viðtöl við fólk, sem er harmi slegið. Umgangast þarf slíkt fólk af varfærni og virðingu. Ef einhver vill alls ekki tala, ber þér að virða það. Vertu kurteis í spurningum og þrýstu heldur á með almennu orðalagi og með þögnum.

Ekki trufla fólk, sem vill tjá sig. Sumir viðmælendur eiga erfitt með að fara í gang, en hitna upp, þegar líður á viðtalið. Slíkt fólk gefur kannski bestu lýsingarnar á tilfinningum sínum. Láttu það ráða ferðinni við slíkar aðstæður.

Ágengustu spurningarnar snúa að valdhöfum á ýmsum stigum, sem eru að reyna að forðast að segja vondar fréttir eða að játa mistök. Margir kunna þá list að tala mikið og segja fátt. Þú þarft að klippa frumskóg orðanna til að ná meiningunni.

Þú talar við valdhafa á þeim grundvelli, að þeim sé skylt að veita almenningi upplýsingar. Þú þarft að endurtaka spurningar með breyttu orðalagi, þangað til þú finnur spurningu, sem þeir geta svarað. Úr þessu verður stríð um viljastyrk.

Þess er í auknum mæli vænst af útvarps og sjónvarpsfréttamönnum, að þeir hafi tækniþekkingu. Útvarpsfréttamenn hafa lengi kunnað að nota upptökutæki. Framfarir í tækni og sparnaður hafa þrýst sjónvarpsfréttamönnum í sömu átt.

Mjókkað hefur gjáin, sem áður var milli tæknifólks og fréttafólks. Það er kostur á blaðamanni að skilja helstu atriði tækninnar, sem sögur þeirra hvíla á. Útvarpsfréttamenn bera sín tæki og sjónvarpsfréttamenn bera þrífót og ljós.

Útvarpsmaður þarf að vera sjálfum sér nógur. Þú ættir alltaf að hafa tvö upptökutæki, stórt tæki og vasatæki, annað til vara, ef hitt bilar eða þarf að tengjast dreifiboxi. Notaðu ekki örkassettutæki, heldur góðan hljóðnema.

Ef aðstæður eru erfiðar vegna fjölmennis er gott að hafa stefnuhljóðnema, sem nemur eina rödd í hóp. Hlustaðu á upptökutækið og vertu viss um, að áttin á hljóðnemanum sé rétt stillt. Oft þarf hljóðnemaarm líka, festið vel við hann.

Ef stefnuhljóðnemi er ekki með í ferð, geturðu notað þéttingarhljóðnema á arminum. Í því skyni og ýmsu öðru er nauðsynlegt að hafa með sér gafferlímband, sem er sterkt og veldur ekki truflandi endurvarpi.

Annað mikilvægt tæki er dreifiboxkapall með XLR tengi á öðrum endanum og símatengi á hinum. Fyrra tengið fer í dreifiboxið og það síðara í upptökutækið. Þannig geturðu tekið hljóðið upp beint úr dreifingarkerfinu.

Sjónvarpsmenn þurfa líka vasaupptökutæki með teljara til að skilgreina hljóðbit, nákvæma klukku og dreifiboxkapal til að ná hljóðinu beint á fréttafundum. Vertu líka viss um að hafa heyrnartól, sem er vel fast. Treystu ekki á aðra með það.

Flest dreifibox eru á hljóðnemasviði og þá fer línan í “microphone in” tengið, ef það er á línusviði, þá fer línan í “line in” eða “aux” tengið. Vertu líka með XLR framlengingarsnúrur til að hengja upp kerfið þvert yfir salinn.

Ef ná þarf bæði blaðamanni og viðtalsefni í upptöku, er gott að hafa meðferðis lítinn blandara á rafhlöðum, einkum ef þú ert í tímahraki. Gæðin verða miklu betri með blandara. Þeir verða minni og ódýrari með hverju árinu.

Sumar stöðvar breyta upptökutækjum sínum þannig, að þau geri ráð fyrir að blanda saman hljóðnemarásinni og afspilunarrásinni. Þá þarf ekki sérstakan blandara og heildartæknipakkinn verður léttari.

Margir staðir draga að fleiri fréttamenn en dreifiboxin anna. Komdu hljóðnemanum strax fyrir. Best er að líma hann við höfuðhljóðnema atburðarins, svo að viðfangsefnið tali beint í hann. Þá kemur XLR-framlengingarsnúran að góðu gagni.

Hafðu upptökutækið við hendina, svo að þú getir skráð hljóðbita. Þú verður að einfalda þér að finna bestu bitana á bandinu. Gott er að nota tímakóða, sem skráir alvörutíma á hljóðbitana. Þú verður að vera með rétt stillt úr. Verður staðall.

Nóturnar þínar eiga að vera með tölunni, þegar bitinn er skráður, “incue” og “outcue”. Þegar atburðinum er lokið, ertu með nákvæman lista yfir bitana og staðsetningar þeirra á bandinu.

Fyrirsátir eru þreytandi og óþægilegar og gefa oft lítið. Skipulagðar fyrirsátir eru, þegar málsmetandi menn koma á fundi eða af þeim og vilja segja eitthvað. Óformlegar fyrirsátir eru hópar sjónvarpsmanna, sem sitja fyrir einhverjum.

Fyrirsátir er ekki hægt að tímasetja fyrirfram. Biðin er oft löng, oft utan dyra í leiðinlegu veðri, klukkutímum saman, ef reynt er að berja saman samkomulag bak við luktar dyr. Hafðu góðan fatnað meðferðis. Vertu stöðugt viðbúinn slagnum.

Stefnuvirkur hljóðnemi er nauðsynlegur í fyrirsát. Hafðu hann á “off” meðan þú bíður, svo að rafmagnið leki ekki af, en hafðu hann tengdan segulbandinu og vertu með heyrnartækin tilbúin til að vera viss um, að viðfangsefnið heyrist.

Þægilegri og algengust eru viðtöl á vettvangi, ýmist skipulögð eða tengd atburði. Einhver er togaður afsíðis til að tala við hann. Komdu spurningum þínum inn á hljóðnemann, ekki bara svörunum. Best er að hafa tvo aðskilda hljóðnema.

Vertu viss um að þú hafir viðtalsstefnu í huga, áður en þú byrjar. Spurðu sjálfan þig, hvað það sé, sem þú viljir vita og hvort líklegt sé, að erfiðleikar komi upp í viðtalinu. Sumir skrifa niður spurningar, aðrir skrifa lista yfir málefni.

Ekki ber að líta svo á, að hvert viðtal verði að slag. En flestir viðmælendur hafa stefnumið og þú verður að vera viss um, að þú stjórnir viðtalinu. Láttu ekki trufla þig, þótt farið sé inn á hliðarbrautir, haltu fast við spurningaáætlun.

Vont er að hlusta ekki á viðmælandann og vera svo fastur í spurningalistanum, að þú spyrjir að einhverju, sem viðmælandinn hefur áður svarað. Enginn viðmælandi vill, að ekki sé hlustað á hann, svo að hann pirrast á þessu.

Þú getur alltaf þekkt fréttastofu og útvarpsmennina á atburði, svo og blaðamenn fréttasjónvarps. Það eru þeir, sem rjúka burt um leið og fréttin er fengin, þótt fundurinn sé ekki búinn. Meginmarkmið þeirra er að koma fréttinni strax í loftið.

Reyndir fréttamenn finna alltaf út fyrirfram, hvernig þeir komi frétt sem hraðast til skila. Þeir geta það í stórfréttum af því að þeir hafa æfingu frá smáfréttum. Vertu alltaf tilbúinn í huganum að kynna meginatriðið, þegar þú hringir inn.

Vertu búinn að “cue” bandið fyrir símtalið. Ef hraðinn er svo mikill, að slíkt sé ekki hægt, segir þú notendum í einni málsgrein, hvað sé að gerast og flytur yfir á akkerið meðan þú ert að ganga frá bandinu. Fólk vill, að ljósvakinn sé fyrstur.

Sjá nánar: Brad Kalbfeld:
Assoicated Press Broadcast News Handbook, 2001

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé