Sjónvarp II

Textastíll
Sjónvarp II

Ljósvakastíll er ólíkur öðrum stíl, af því að hann er skrifaður fyrir eyrað, ekki fyrir augað. Texti, sem kemur frá öðrum aðilum, er umskrifaður, svo að hann henti útvarpi og sjónvarpi. Fréttastofutexti er yfirleitt hugsaður út frá dagblöðum.

Þegar þú færð fréttastofutexta, þá lestu hann, meltu hann og fleygðu honum síðan. Skrifaðu svo það, sem þú manst og horfðu ekki á fréttatextann aftur nema til að sannreyna staðreyndir. Þetta er eina leiðin til að breyta yfir í ljósvaxtatexta.

Ef lesendur dagblaða skilja ekki framsetningu í texta, geta þeir lesið hann aftur. Hlustendur og áhorfendur geta það ekki. Þess vegna þarf ljósvakatexti að vera skýr og einfaldur. Segja þarf hugsanir á einfaldan og snöggan hátt.

Þú finnur muninn, ef þú lest fréttina upphátt. Þá sérðu kosti og galla textans frá sjónarmiði ljósvakans. Svo kann að fara, að þú áttir þig ekki á, hversu flókinn skrifaður texti er, fyrr en þú lest hann upphátt.

Ofhleðsla upplýsinga er algeng. Fyrir ljósvakann þurfum við að klippa flókinn texta niður í stuttar málsgreinar, sem hlustandinn skilur.

Forðist tilvísanir: Sem. Aukasetningar, sem byrja á tilvísunarorði, vísa yfirleitt til nafnorðs, sem kom framar í málsgreininni. Hlustendur átta sig síður en lesendur á, hvert nafnorðið var. Betra er að klippa málsgreinina sundur.

Forðist löng orð: Notaðu stutt orð, ef það er til. Notaðu “minnisstæður” í stað “eftirminnilegur”. Notaðu “játaði” í stað “viðurkenndi”. Forðastu líka orð, sem erfitt er að bera fram.

Samtengingar: Þær geta oft gert ljósvakatexta talmálslegri, en ofnotaðu þær ekki.
Forsetningar: Koma oft í stað eignarfalls, sem er klossað.
Fornöfn: Hafðu ekki of langt á milli nafns og fornafns, svo að ekki misskiljist.

Skýringarsetningar: Hafðu ekki of langt á milli þeirra og orðanna, sem þær skýra. Ekki skrifa: “Árekstur varð í mikilli rigningu á Miklubraut á annatímanum”. Heldur: “Árekstur varð á Miklubraut í mikilli rigningu á annatímanum.”

Forðastu klisjur: Alltof algengar í ljósvakatexta, tíðari en í prenttexta. Í ljósvaka reyna menn stundum að klippa textann niður í hálfgerð stikkorð. Mest er af klisjum í íþróttafréttum, frægast er “Enginn annar en Ingimar Stenmark.”

Ljósvakafréttir þurfa alltaf að vera tengdar núinu. Hlutverk skrifarans er að segja fréttina eins og hún sé að gerast eða hafi verið að gerast, án þess þó að reyna að blekkja hlustendur á því að meðhöndla gamla frétt eins og hún væri ný.

Flestir eru að heyra fréttina í fyrsta skipti. Nútíð og núliðin tíð sagnorða tengir fréttina við núið. Ekki segja: “Alþingismenn luku störfum í dag og fóru heim.”. Heldur: “Alþingismenn eru á heimleið eftir að hafa lokið störfum.”

Ekki: “Formaðurinn hélt fund með stjórninni í dag.” Betra: “Formaðurinn er á fundi með ríkisstjórninni í dag. Ekki: “Stormviðvörun fyrir Vestfirði var gefin út í kvöld.” Heldur: “Stormviðvörun gildir í kvöld fyrir Vestfirði.”

Ekki skrifa: “Forsetinn fór til Akureyrar”. Heldur “Forsetinn er farinn til Akureyrar.” Ekki skrifa: “Áætlunin fór úr skorðum í morgun.” Heldur: “Áætlunin hefur farið úr skorðum. Í morgun …”

Frétt kann að fela í sér atburði, sem gerðust í fortíðinni. Hún getur hafist í nútíð, en flust til þátíðar, svo að orðavalið sé við hæfi. Þú segir ekki: “Hann er á fundi í gær”. En þú getur sagt: “Hann er ánægður með fundinn, sem var í gær.”

Góður texti notar virkar sagnir, ekki óvirkar. Virkar sagnir hraða sögunni og gefa henni vægi, af því að þær setja fókus á atburðinn sjálfar fremur en andlag hans. Dæmi: “Eldur eyðilagði þrjú hús.” Ekki: “Þrjú hús voru eyðilögð í eldi.”

Vertu ekki hræddur við SAGÐI. Sumir reyna að nota önnur orð eins og samheiti, en þau eru yfirleitt ekki samheiti. Öll þessi orð þýða annað en SAGÐI: Lýsti yfir, játaði, samþykkti, hrópaði, upplýsti, fullyrti. Sagði er hlutlaust orð.

Stundum koma lýsingarorð og atviksorð auknum lit í ljósvakatexta, en oftast eru þau þó til vandræða. Þau bæta þá við óþarfri lýsingu, sem bindur textann niður fremur en að lyfta honum upp. Þau fylgja oft óvirkum sagorðum. Finndu heldur virk sagnorð.

Tilvitnanir, beinar eða óbeinar, eru lykilatriði frétta. Í prenttexta kemur óbein tilvitnun á undan, en í ljósvakatexta kemur hún á eftir. Hlustandinn þarf að vita, hver talar, áður en tilvitnunin birtist. Á prenti skiptir það minna máli.

Beinar tilvitnanir eru algengar á prenti, en sjaldgæfar í ljósvaka. Þar er betra að nota hljóðbita, láta viðmælandann tala sjálfan, fremur en að vitna í hann. Það er klossað að þurfa að segja, hvenær tilvitnun hefst og hvenær henni lýkur.

Í ljósvakamiðlum þarf ekki að nota hugtakið Í DAG. Fréttir ljósvakans gerast hvort sem er í dag; taka þarf fram, ef atburðir eru gamlir. Ef hlutir eru að gerast nú, er sagt NÚ, NÚNA, FYRIR STUNDU, FYRR Í KVÖLD, RÉTT Í ÞESSU o.s.frv.

Yfirfærslur eru orðalag, sem tengja saman málsgreinar. Þær geta leitt til mýkra rennslis í fréttum, en eru þó varhugaverðar, því að þær eru oft gervilegar. Ekki: “Páfinn er ekki sá eini, sem á afmæli í dag. Fyrir réttum fimm árum gaus Hekla.”

Notaðu fremur orðin FÓLK eða MANNS heldur en PERSÓNUR. Ekki skrifa: “Fimm persónur slösuðust.” Heldur: “Fimm manns slösuðust.” Athugaðu líka, að orðið MENN nær bæði yfir karla og konur.

Samantekt: Sagnorð eru mikilvæg orð, notuð í germynd, en ekki í þolmynd; í nútíð eða núliðinni tíð, en ekki í þátíð eða þáliðinni. Fólk notar útvarp og sjónvarp til að vita, hvað er að gerast núna. Láttu fréttirnar hljóma nýjar, en þó ekki gervilega nýjar.

Mikilvægt er að finna rétta sagnorðið. Ekki spara mikla notkun á SAGÐI. Leitaðu annars að virku sagnorði, sem kemur í stað nafnorðs + lýsingar eða atviksorðs. Nafn þess, sem vitnað er til, kemur alltaf á undan óbeinni tilvitnun.

Inngangurinn gefur tón þess, sem á eftir kemur. Hann verður að grípa athygli hlustenda og áhorfenda í eins fáum orðum og unnt er. Veiðikrókurinn getur verið spennandi eða dramatísk málsgrein, ögrandi staðreynd eða bein tilvitnun.

Ef sagan er ekki grein, verður hún að hafa einkenni fréttar. Hún verður að takast á við HVin sjö: Hver, hvað, hvar, hvenær, hvernig, hvers vegna, hvað svo? Í prentmiðlum er reynt að svara nokkrum þessara spurninga þegar í innganginum.

Krafan er ekki eins hörð í ljósvakanum. Þó er nauðsynlegt, að einni eða fleirum þessara spurninga sé svarað þegar í upphafi. Og fréttin í heild á að svara öllum þessum spurningum í prentmiðlum og flestum þeirra í ljósvakamiðlum.

Ekki skrifa hægt: “Colin Powell, formaður herráðsins, hefur hitt blaðamenn.” Heldur hratt: “Colin Powell, formaður herráðsins, sagði blaðamönnum í morgun, að Bandaríkin mundu sennilega hafa her í Írak í nokkra mánuði.”

Hörð byrjun á sögu fer beint í kjarna málsins og segir mikilvægar staðreyndir strax. Hörð byrjun er notuð, þegar frétt fer fyrst í gang. Dæmi: “Fjórir eru á gjörgæslu eftir sjóslysið í gær.” Eða: “Tveir hafa setið inn síðan í gær í fíkniefnamálinu.”

Mjúk byrjun fer mildar af stað, hitar upp, bendir notendum á, að frétt sé að koma aftar í sögunni: “Skemma hrundi í Kópavogi. Fjórir slösuðust.” Eða: “Handtökur í fíkniefnamálinu. Tveir eru í varðhaldi vegna málsins.”

Mjúka byrjunin hljómar ekki eins spennandi eða dramatískt og sú harða, en býður hlustandanum á að fylgjast með. Hún minnir á yfirfyrirsögn í prentmiðli. Hún gefur líka þeim, sem fylgjast óbeint með, færi á að sperra eyrun, og gerir þá tilbúna.

Hörð byrjun er oftar notuð en mjúk. Hin síðarnefnda er notuð til að brjóta upp langa röð frétta, sem allar byrja hart. Ef hins vegar mjúk byrjun er mikið notuð í fréttatíma, hefur hann tilhneigingu til að virka hægfara.

Haglabyssuinngangur eða regnhlífin er notuð til að sameina tvær eða fleiri sögur, svo að ekki þurfi að kynna hverja fyrir sig: “Sinueldar fóru úr böndum í dag á Mýrum, við Hvanneyri og á höfuðborgarsvæðinu. Þurrkarnir, sem hafa …”

Spennuinngangur er notaður til að fresta lykilstaðreynd málsins til loka sögunnar.
Frestaður inngangur frestar mikilvægum staðreyndum um nokkrar málsgreinar. Veitir tilbreytni, en má ekki nota mikið.

Ein áhrifamesta leiðin til að halda hlustendum við efnið er að sannfæra þá um, að fréttirnar séu nýjar. Þess vegna þarf að endurskrifa innganginn í framhaldsfrétt. Til þess þarf að koma með nýtt atriði, sem ekki var í síðustu frétt.

Í ljósvakamiðlum eru orðin bara hluti af sögunni. Til viðbótar koma myndir í prentmiðlum, hljóð í útvarpi og hljóð og hreyfimyndir í sjónvarpi. Með því að nýta alla möguleikana getur sjónvarp sagt marga hluti í 20 sekúndna frétt.

Sérstaða fréttatexta í útvarpi og sjónvarpi er, að þjappa verður efninu saman og skilja eftir það, sem síst er mikilvægt, án þess að skekkja söguna eða skekkja staðreyndir málsins. Sumar staðreyndir má segja í hreyfimyndum.

Sjónvarp II
Ljósvakastíll er ólíkur öðrum stíl, af því að hann er skrifaður fyrir eyrað, ekki fyrir augað.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé