Sjónvarpsstíll II

Blaðamennska
Sjónvarpsstíll II

Þú þarft að segja flókna hluti með einföldum orðum, málsgreinum og málsliðum. Framsetningin þarf að vera línulaga, af því að notandinn heyrir textann bara einu sinni. Hver staðreynd á að koma í rökréttu framhaldi af fyrri staðreynd.

Richard Lederer: “Notaðu stutt, gömul orð, ef þú getur. Ef langt orð er nákvæmt, skaltu samt nota það. En áttaðu þig á, að tungan er full af skýrum og hröðum, stuttum orðum. Gerðu þau að beinagrindinni. Þau eru vinir, sem ekki svíkja þig.”

Af hverju nota langt orð, þegar stutt orð dugar. Forðastu líka að nota flókin orð, sem eru erfið í framburði. Margir nota stærri, formlegri orð, af því að þeim finnst sagan fá við það meira vægi. Forðastu þá freistingu.

Skrifaðu einfaldar málsgreinar. Láttu hvert orð skipta máli. Tími í lofti er takmarkaður. Sérhvert orð, sem þú sparar, gefur tíma annars staðar til að gefa notandanum fleiri og betri fréttir. Markmiðið er að bæta textagerðina.

Önnur ástæða fyrir stuttum orðum og málsgreinum er, að fólk hugsar á þann hátt. Fólk hugsar líka óformlega. Notaðu mælt mál og algengt mál, eins og fjölskylda þín og vinir mundu nota. Segðu “könnuðu”, ekki “gerðu skoðanakönnun”.

Því nær sem blaðamaður dregst sérsviði, þeim mun meiri líkur eru á, að hann víki frá samræðutexta og fari yfir í klisjur sérsviðsins. Þær leiða yfirleitt til misskilnings og þær flækja málið fyrir notendum. Þýddu sérmál yfir á íslensku.

Næst á eftir efnahagsmálum eru sögur úr stjórnsýslunni þær, þar sem oftast er gripið til sérmáls og klisja og þar sem nauðsynlegust er þýðing yfir á íslensku. Enginn segir: “Það mun valda ágreiningi”. Heldur: “Þeim mun ekki líka það”.

Texti á að vera hreinn og laus við stafsetningar og málfræðivillur, jafnvel þótt þú notir textann bara fyrir sjálfan þig. Það er einkenni fagmannsins að kunna rétt mál og réttan frágang. Það getur líka verið, að annar þurfi að nota textann.

Notið ekki hástafi í texta. Það er erfitt að lesa hástafi, lágstafir eru ætlaðir til lestrar. Notaðu hljóðskrift í erfiðum orðum á fólki og stöðum í útlöndum. Schröder er ekki “Skroder”, eins og ameríkanar segja, heldur “Sröder”.

Mikilvægt er að kunna tækni stuttra orða og málsgreina, germynd og framsöguhátt, en tungumál ljósvakans er meira en tækni. Fagur stíll er það, sem einkennir þann, sem hefur fyrir löngu náð tökum á tækninni og hefur náð lengra í starfi sínu.

Allt byrjar og endar á orðunum. Stundum þarf að fara hversdagslegu leiðina. Segðu: “Sagði”. Notaðu ekki skrúðorð, sem segja annað: “Hrópaði”, “mótmælti”, “neitaði”, “afneitaði”, “lýsti yfir”, “benti á”. Þetta eru ekki samheiti.

“Sagði” felur ekki í sér neitt mat á því, sem sagt var, hvorki neikvætt né jákvætt. Það er hlutlaust orð og venjulega orðið, sem alltaf passar. Ekki vera hræddur við að ofnota orð, sem hljóta að vera hornsteinn í sögum.

Notaðu germynd sagna, ekki þolmynd. Hafðu textann magran, slepptu lýsingarorðum og atviksorðum, sem soga kraftinn úr textanum. Farðu eftir leiðbeiningum William Strunk:

“Öruggasta leiðin til að ná og halda athygli lesandans er með því að vera sértækur, ákveðinn og naglfastur. Höfundarnir miklu, Hómer, Dante, Shakespeare náðu athygli af því að þeir voru sértækir og sögðu frá mikilvægum smáatriðum.”

Þótt sjónvarpið hafi myndir og hljóð, er eigi að síður mikilvægt að banka í koll notandans og nýta sér safn hans af myndum og reynslu. Leitaðu að smáatriðum, sem lýsa áhrifum á fólk. Lýsa, hvað það er, sem felur í sér mannlega tilfinningu.

Ertu að skrifa um hag bankans. Þýddu það á mál, sem allir skilja. Ertu að skrifa um heilbrigðismál. Þýddu það á íslensku með því að segja frá áþreifanlegu dæmi um fólk, sem hefur reynslu af heilbrigðiskerfinu.

Sum orð hljóma betur en önnur. Það er tónlist í orðum, málsgreinum, málsliðum og heilum sögum. Hlustaðu á orðin, sem þú notar. Ef þau henta ekki hugarástandi sögunnar, skaltu skipta þeim út fyrir önnur.

Þótt menn tali í stuttum setningum og þótt stuttar málsgreinar séu yfirleitt betri en langar, getur stundum verið gott að hafa málsgreinar lengri til að láta textann flæða betur. Því hraðari, sem sagan er, þeim mun styttri eru málsgreinar.

Textagerð fyrir útvarp og sjónvarp er listgrein. Hlustaðu á það, sem þú skrifar. Ef það hljómar ekki rétt, muntu ekki vinna notendur á þitt band.

Á hverri fréttastofu er potturinn í miðju stormsins. Eðli hans hefur breyst, til sögunnar hafa komið hljóðbönd og myndbönd, gervihnattasamband, aukið vægi grafa og sparnaður í rekstri. Sumar útvarpsstöðvar hafa ekki einu sinni pott lengur.

Framleiðsla sjónvarpsfrétta er nógu flókin til þess, að þörf er á potti, en hann er ólíkur gamla útvarpspottinum. Þar er nú fjölbreytt vinnsla með útdeilingu verkefna á einum stað, gröfum á öðrum og ritstjórn efnis á enn öðrum stað.

Það, sem er sameiginlegt öllum pottum, er klipping og frágangur efnis, ákvörðun forgangsraðar og framleiðsla fréttaþátta. Einhver ákveður, hvernig efnið er lesið. Það getur verið pottur, framleiðandi eða fréttastjóri.

Potturinn sér, hvað kemur inn á vírnum og frá öðrum framleiðendum. Fréttastjórinn var og er umferðarstjóri, sem sér um, að réttir hlutir fari á rétta staði og fréttir raðist rétt, hver fyrir sig og saman. En nú er umferðin meiri en áður.

Fréttastjórinn sér um, að fréttastofan viti um allt það nýjasta. Hann sér um, að nýjar fréttir séu skrifaðar og komist sem allra fyrst í loftið. Hann er ábyrgur fyrir, að efnið sé nákvæmt, skýrt og hlutlægt og raðar málum í forgangsröð.

Þar að auki er hann kennari. Um leið og hann breytir texta, kennir hann fólki að bæta texta. Þetta kennarahlutverk fréttastjórans hefur látið undan síga á litlum útvarpsstöðvum og hefur leitt til verri gæða efnis á þessum stöðvum.

Allt þetta er unnið undir tímaálagi. Sums staðar er eindagi á klukkutíma fresti. En á keðjustöðvum og sífréttastöðvum er eindaginn núna eða nú. Flest þessi hlutverk stangast á og óvinsæll fréttastjórinn sér um að sigla milli skers og báru.

Tölvutæknin hefur auðveldað textabreytingar. Það er auðvelt fyrir fréttastjóra að vera stöðugt að endurskrifa texta, sem þeir fá, í stað þess að láta blaðamenn endurskrifa sjálfa sig, svo að þeir læri.

Það fullkomna ástand er, að fréttastjórinn lagi staðreyndavillur, striki út hlutdrægni, setji inn nýja atburði, lagi gerð sögunnar, málsgreinar og orðaval, leiðrétti stíl, en hafi samt tilfinningu fyrir stíl höfundarins.

Fréttastjórinn er forvitinn, efahygginn og vel upplýstur. Til að vera með á nótunum fylgist hann með útvarpi, sjónvarpi og les blöðin. Hann spyr líka réttra spurninga, ef honum finnst eitthvað ekki vera í lagi. Hann hefur frábært minni.

Af hverju notarðu þetta orð, spyr fréttastjórinn. Sumir móðgast við slíkar athugasemdir, en dæmið í bókinni sýnir, að nauðsynlegt er að spyrja slíkra spurninga. Fréttastjórinn er síðasta vörnin, áður en gallarnir fara í loftið.

Blaðamenn ruglast stundum á fullyrðingum og staðreyndum. Ef löggan segir, að ofbeldisglæpum hafi fækkað, trúa þeir því og breyta í staðreynd, í stað þess að hafa það eftir löggunni. Fréttastjórinn spyr því: “Hvernig vitum við þetta?”

Fréttastjórinn er stöðugt á höttunum eftir heimildum að fullyrðingum; eftir orðum og málsgreinum, sem komast að ótímabærri niðurstöðu; og eftir meintum staðreyndum, sem eitthvað athugavert er við. Undir þrýstingi nær hann villunum.

Fréttastjórinn er fremur en aðrir í aðstöðu til að vita um nýjar vendingar í fréttum. Hann kemur þeim upplýsingum áfram til annarra, sem þurfa að vita um allt það nýjasta í málinu. Texti, sem er að fara í loftið, þarf að hafa það nýjasta.

Það er hins vegar ekki hlutverk fréttastjórans að endurskrifa allt, sem hann fær í hendur til að láta það falla að ákveðnum staðli. En hann þarf að sjá um, að orð blaðamannsins meini það, sem þau segja. Hann sendir gallaðan texta til baka.

Fréttastjórinn má ekki láta stolt blaðamannsins hindra sig í að laga textann. Enginn er svo góður, að ekki beri að ritstýra honum. Fréttastjórinn er með fullt af orðabókum og handbókum í seilingu. Og aðgang að leitarvélum á netinu. Loggur.

Fréttapakki er byggður frá toppnum og niður frá honum. Aðalfréttin ákveður mikið um, í hvaða röð annað efni kemur. Útvarpið leggur mesta áherslu á það nýjasta. Sjónvarpið hefur sem aðalfrétt þá stærstu frá því eftir síðasta fréttatíma.

Meðan fréttatími stendur yfir, þarf að hafa auga með nýjustu fréttum, svo að hægt sé að skutla þeim inn í tímann. Fréttaþulurinn segir, að eitthvað sé að gerast og lofar ýtarlegri fréttum síðar. Þetta er endurtekið við lok fréttatímans.

Í slíkum tilvikum vill notandinn vita, að stöðin sé á vaktinni og muni jafnóðum koma með nýjustu fréttir af málinu. Ekkert er athugavert við að byrja á einni málsgrein og endurtaka hana, meðan verið er að bíða eftir ýtarlegri fréttum.

Sjá nánar:
Brad Kalbfeld, Assoicated Press
Broadcast News Handbook, 2001

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé