Stílreglur

Fréttir
Stílreglur

Í þessum kafla og öðrum köflum bókarinnar eru settar fram reglur, forskriftir og fyrirmæli. Það er til leiðbeiningar, leiðir til lausnar. Þetta eru ekki lög. En heppilegast er fyrir byrjanda, að taka það gott og gilt, uns hann veit betur.

Úr minningargrein eftir Pete Hamill um LarsErik Nelson: “Skrif hans geisluðu alltaf. Hann kunni vel við hörð nafnorð og lýsandi sagnorð og hver málsgrein var traust eins og múrsteinn.”

Daniel Defoe: Hinn fullkomni stíll er “þegar maður talar við fimm hundruð manns úr ýmsum áttum, með misjafnri getu, fyrir utan snillinga og fífl, og er skilinn af þeim öllum á þann hátt, sem ræðumaðurinn ætlast til.”

Konfúsíus: “Ef stíllinn er ekki réttur, það, sem sagt er, er ekki það, sem meint er, þá er ekki gert það, sem ætti að vera gert.”

Þeir sem hefja störf við St. Petersburg Times fá þessar leiðbeiningar: “Náðu nafni hundsins, tegund bjórsins og gerð sportbílsins.” Haft var eftir atvinnulausum manni, að hann ætti “ekki skítinn undir nöglunum”.

Lesendur og hlustendur finnst sumar fréttir vera ótraustar, af því að heimildir blaðamanna eru svokallaðir sérfræðingar, sem ekki hafa lent í aðstæðunum. Saga um atvinnuleysi, sem vitnar í embættismenn og sérfræðinga er ófullnægjandi.

Atvinnuleysi er meira en tölur á blaði, gefnar út af embættismanni við skrifborð. Atvinnuleysi er fólk, sem stendur aðgerðarlaust á götuhornum eða bíður áhyggjufullt í anddyri fyrirtækja eftir að fá viðtal um atvinnu.

Þetta vill Edna Buchanan vita um myrtan mann: Hvaða bíómynd sá hann fyrir morðið? Hvað var í vösum hans? Hvað var í pottunum á eldavélinni? Hvaða lag var á spilaranum? “Ég spyr alltaf, hvað hundurinn heiti, hvað kötturinn heiti.”

Mark Twain sagði: “Rétta orðið er voldugt. Þegar við náum í eitt af þessum þétt réttu orðum er útkoman efnisleg og andleg, hún er eins og högg. Munur rétts orðs og næstum rétts orðs er er mikilvægur, eins og munur á eldingu og eldflugu.”

Einkum stafar það af tímahraki og skorti á skjölum og öðrum heimildum, að sannleikurinn nær ekki að koma fram. Vandamál blaðamannsins valda því, að sagan nær ekki fram. Hér kemur listi yfir þætti sögu, sem er rétt, heil og trúverðug:

Fréttaöflun
1) Fréttaefni sem kemur málinu við, líka smáatriði.
2) Áreiðanlegir heimildarmenn fyrir öðrum þáttum fréttarinnar.
3) Marktækar og heildstæðar upplýsingar úr bakgrunni.

Skriftir
4) Einfalt tungumál.
5) Dæmisögur og tilvitnanir.
6) Mannleg áhugamál
7) Viðeigandi stíll

Blaðamaðurinn þarf að kunna nákvæmt tungumál til að geta látið söguna samsvara atburðinum. Hann þarf að hafa orðabók við hendina og þekkja blæbrigði tungunnar. Hann þarf líka að vita, þegar skilningur almennings er annar en orðabókarinnar.

Læknar grafa mistök sín og arkitektar þekja þau með bergfléttu. Blaðamenn hafa ekki slíkar undankomuleiðir. Mistök þeirra eru öllum sýnileg, dag eftir dag. Ef þau eru á prenti standa þau þar til eilífðarnóns. Flettu því í orðabókinni.

Leiðréttingaforrit leiða ýmsar villur í ljós, einkum innsláttarvillur. Þau leiðrétta hins vegar ekki merkingarvillur. Þessi forrit eru bara hjálpartæki, sem lina hluta vandans, en standa fjarri því að geta leyst allan vandann.

Blaðamenn þurfa að kunna málfræði og stafsetningu, svo og setningarfræði. Bækur um þessi efni þurfa að vera á borði hans. Kenningar þessarar bókar og annarra slíkra um stíl reikna með, að blaðamenn kunni sitthvað fyrir sér í fræðunum.

Sérstaklega er mikilvægt, að þeir, sem starfa við útvarp og sjónvarp, geti sett fram stuttan og skýran texta, af því að hlustendur og áhorfendur geta ekki lesið textann aftur til að ná honum.

Isaac Babel: “Ég fer yfir allar málsgreinar aftur og aftur. Ég byrja á að skera burt öll orð, sem mega hverfa. Þú verður að vera á varðbergi, því að sum orð eru lúmsk. Bullið fer í felur og þú þarft að draga það út.

Áður en ég hendi bullinu, svo sem endurtekningum og merkingarleysum, brýt ég textann niður í styttri málsgreinar. Því fleiri punktar, því betra. Ég vil láta setja lög um það. Ekki meira en eina hugmynd og eina mynd á hverja málsgrein.

Greinarskil eru frábær. Þau leyfa þér að breyta ryþmanum. Þau geta verið elding, sem sýnir landslagið frá nýju sjónarhorni. Til eru höfundar, meira að segja góðir höfundar, sem dreifa punktum og nýjum línum um allan textann.”

Lengd málsgreina: 8 orð, mjög auðvelt að lesa; 11 orð, auðvelt að lesa, 14 orð, sæmilegt að lesa, 17 orð, meðaltexti, 21 orð, fremur erfiður texti, 25 orð, erfiður texti, 29 orð, mjög erfiður texti.

Löng málsgrein, sem er vel skrifuð, verður fólki skiljanleg, ef hún er brotin niður í stuttar málsgreinar, venjulega með punkti og stórum staf. Ef Babel telur slíkt gilda um bókmenntir almennt, þá gildir það enn frekar um blaðamennsku.

Sumir geta ekki skrifað stuttar málsgreinar af því að þeir kunna ekki yfirfærslur, sem eru tengingar milli málsgreina eða málsliða. Fjórar tegundir af yfirfærslum:

1) Notið fornafn með tilvísun til nafnorðs í fyrri málsgrein: Hann, hún.
2) Notið endurtekningu lykilorðs úr fyrri málsgrein.
3) Notið endurtekningu í orðavali: Enginn …, enginn … enginn …
4) Notið samtengingar og aðrar tengingar. Málsgreinar mega byrja á samtengingu.

Viðbætur: Eftir sem áður, einnig, og, loksins, til viðbótar, næst, þannig, svo, ennfremur, eins og.
Andstæður: en, samt, þrátt fyrir, í staðinn fyrir, hins vegar, annars, samt, eftir sem áður, lengra.
Samanburður: Á sama hátt, svipað.
Staður: Við hliðina, fyrir handan, nálægt, hér, andspænis.
Tími: Á eftir, meðan, seinna, brátt.

Ekki rugla saman tilvitnunum í tvo eða fleiri aðila. Þegar þú kynnir nýjan aðila til sögunar, þarftu að byrja á nafni hans á undan tilvitnuninni. Á sama hátt verður að fara varlega í að hoppa milli tímaskeiða og staða.

Ef þú telur þig þurfa að nota langa málsgrein, til dæmis 34 orða málsgrein, þá er gott að láta stutta málsgrein koma á eftir, til dæmis 9 orða málsgrein. Þannig fær lesandinn eða hlustandinn hvíld milli erfiðra málsgreina.

Blaðamaður hefur oftast lítinn tíma til yfirlestrar. Hvenær, sem hann hefur færi, þarf hann að endurskoða textann. Sérhver endurskoðun til viðbótar er til bóta. Reyndir blaðamenn þurfa ekki mikinn tíma og nota hann vel.

H.L.Mencken hjá Baltimore Sun: “Ég stend upp til að heiðra dr Harding. Fyrir utan einn eða tvo prófessora og hálfa tylft drykkfelldra blaðamanna, er hann efstur í Valhöll bókmenntanna. Það er að segja, hann skrifar verstu ensku, sem ég þekki.

Hún minnir mig á röð af blautum svömpum. Hún minnir mig á tættan þvott á snúru. Hún minnir mig á gamla baunasúpu, gól í háskólanemum, fáránlegt gelt hunda fram eftir nóttu. Hún er svo slæm, að hún öðlast við það eins konar göfgi.”

John Ciardi: “Teldu atviksorðin og sagnorðin. Í góðum texta eru næstum ævinlega fleiri sagnorð en atviksorð. Saga er vond, ef hvert nafnorð er stutt af lýsingarorði.” Mark Twain: “Í hvert sinn, sem þú sérð atviksorð, dreptu það.”

Ekki segja: “Dow var niður um meira en 62 punkta”. “Var” skilgreinir engan atburð. Þú getur sagt: Féll, sökk, hrundi, rann, datt, valt. En orðið “var” hreyfist ekki.

Hlutbundin nafnorð tákna eitthvað áþreifanlegt, sem er hægt að benda á. Litríkar sagnir hreyfast. Ekki skrifa: “Drengurinn fór heim”, heldur “Sex ára strákurinn hljóp heim”. Ekki skrifa: “Hún var sorgmædd.”, heldur “Hún grét.”

Harold Ross, stofnandi New Yorker: Blaðið má aldrei birta “málsgrein, sem 14 ára barn skilur ekki”. Mark Twain: “Segðu ekki: Gamla konan öskraði. Dragðu hana heldur upp á svið og láttu hana öskra þar.”

Joel Rawson: “Hroðvirkni fer mest í taugarnar á mér. Ég vil ekki fá sögu með ritvillu í inngangi og staðreyndavillu. Ég vil ekki fá sögu, sem enginn hefur lesið yfir. Þótt tíminn sé runninn út, vil ég láta lesa söguna yfir aftur.

Þú tekur upp mikið af tíma fólks og þú spillir trausti þínu og mínu, ef svona vinnubrögð fara gegnum handritalestur og aðra ritstjórn. Og ef einhver á þessari leið finnur ekki mistökin og þau komast á prent, líðum við öll fyrir það.”

Ráð Robert Louis Stevenson:
1) Nákvæmni: “Það er bara ein leið til að vera klár og það er að vera nákvæmur. Að geta lýst vel er afleiðing nákvæmninnar. Góð lýsing án nákvæmni gerir mistökin áberandi.
2) Stuttur texti: “Ein er sú aðferð, sem alltaf verður að beita. Það er að sleppa sumu og enn fleiru. Sleppa öllu leiðinlegu, sem ekki kemur málinu við. En menn verða að halda öllu, sem varðar kjarna málsins.
3) Tungumálið: “Menn verða að nota orð úr tungumáli lífsins.
4) Gerð texta: “Öll orð, setningar, málsgreinar og málsliðir þurfa að hreyfast í rökréttri röð. Ekkert er valið nema það vilji hreyfast áfram og lýsa sögunni.”

Sjá nánar:
Melvin Mencher
News Reporting and Writing
10th Edition 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé