Forsaga
Tækniþróun
Þegar rafmagn var komið til sögunnar, var hægt að senda skilaboð hraðar en sendiboða. Í stað flutnings kom sending. Hvar sem járnbrautir voru lagðar, kom ritsími í kjölfarið. Fljótlega komu þar að auki neðansjávarkaplar fyrir ritsíma.
Með ritsímanum komu tvær sérhæfingar í fréttaflutning, annars vegar upplýsingadagblöð og hins vegar skemmtunardagblöð. Báðar byggðust á nýrri tegund flutnings frétta: Þær fóru um stórar miðstöðvar, fréttastofur sem söfnuðu og dreifðu.
Almenningur fór að lesa fréttablöð sér til upplýsingar og skemmtunar. Massaþjóðfélög nútímans urðu til. Síðan kom síminn til skjalanna á þriðja fjórðungi nítjándu aldar og var orðinn að miðstéttaeign um aldamótin 1900.
Rómverjar reistu 3197 varðturna til að senda skilaboð. Seint á sautjándu öld fóru menn að senda skilaboð á þennan hátt. Sjónrænt skilaboðakerfi var fundið upp af Claude Chappe 1792 og notað í Frakklandi. Það var eins konar morsekerfi hersins.
Napóleon útvíkkaði þetta kerfi utan Frakklands. Það var starfrækt fyrir stjórnvöld og herinn, of takmarkað í notkun og of dýrt í rekstri til að ná annarri útbreiðslu. Slík kerfi voru þó lögð hér og þar til ársins 1840.
Um og upp úr 1840 hafði ritsíminn tekið við sjónræna kerfinu. Ritsíminn var óháður birtu og veðri. Hann var auðvelt að leggja, hvar sem járnbrautir voru. Hann virkaði líka miklu hraðar, opnaði fyrir hraðar fréttir um langan veg.
Ritsíminn flæddi um allan heim, líka þriðja heiminn. Það gerðist svo hratt, að enginn hafði yfirsýn. Þetta gerðist áratuginn 18461856. Fyrsti sjávarkapallinn var lagður um Ermasund og gerði ritsíma kleifan milli London og Parísar 1852.
Fréttaöflun var fundin upp sem fag fyrir lok nítjándu aldar. Fréttamenn lýstu atburðum og skemmtunum. Sumir fjölmiðlar stefndu að því að vera fróðlegir, aðrir stefndu að því að vera skemmtilegir. Sumir sögðu staðreyndir, aðrir sögðu sögur.
Upplýsingablöðin voru einkum lesin af miðstéttinni og yfirstéttinni, en skemmtiblöðin einkum af undirstéttinni. Joseph Pulitzer var hugmyndafræðingur skemmtilegu blaðanna, gaf út New York World og gerði að mjög útbreiddu blaði.
Hann var með svonefndar æsifréttir, þó undir boðorðinu: Staðreyndir, staðreyndir, staðreyndir. Hann setti upp fjörugt umbrot og birti fréttir af fólki, sem hann taldi standa fólki nær en annað fólk. World varð heimilisblað hinna aðfluttu.
New York Times fór í aðra átt, lagði meiri áherslu á siðsemi en staðreyndir. Það auglýsti sig gjarna í samanburði við æsiblöðin, sagðist ekki óhreinka borðdúkinn. Að lokum varð það að eins konar yfirlýsingu um yfirburði að kaupa það og lesa.
Síminn var fundinn upp 1876 og dreifðist fljótt um allt. Ritsíminn hafði verið æði dagsins árið 1850, en árið 1880 var síminn æði dagsins. Ritsíminn var á sérstökum afgreiðslustöðum, en símann höfðu menn heima hjá sér og í vinnunni.
Fram að ritsíma var sama orðið notað um flutninga og fjölmiðlun. Með ritsímanum urðu skil þar á milli. Ritsíminn jafnaði út fjarlægðir. Allir voru við sama borð í kaupsýslu og viðskiptum. Landafræðin skipti ekki lengur máli.
Ljósmyndir veita fólki mest af þekkingunni um, hvernig fortíðin leit út og hvað nútíminn nær langt. Ljósmyndir eru ekki yfirlýsingar um heiminn, frekar eru þær smáar eftirgerðir hans. Bækur hafa lengi verið helsti vettvangur ljósmynda.
1871 urðu ljósmyndir mikilvægur þáttur í eftirlitskerfi stjórnvalda. Ljósmyndir eru sönnunargögn, en auðvelt er að falsa þær. Fyrstu myndavélarnar urðu til í Frakklandi og Bretlandi árið 1840.
Ljósmyndun er félagsleg hegðun. Menn taka og eiga myndir af fjölskyldunni, oft það eina sem eftir er af stórfjölskyldu fyrri tíma. Ljósmyndir eru líka hluti af ferðamennsku. Ferðir verða aðferð við að safna veruleika í ljósmyndasöfn.
1890 var orðið hagkvæmt að birta ljósmyndir í dagblöðum. Áður höfðu verið notaðar teikningar. Fjórtán dagblöð í New York birtu 903 ljósmyndir á viku árið 1910. Árið 1900 var komin fjölmenn sveit blaðaljósmyndara í Bandaríkjunum.
Fréttir urðu meginefni fjölmiðla upp úr 1830, þegar ódýr fréttablöð komu til sögunnar í París og öðrum heimsborgum. Ljósmyndir urðu svo meginefni upp úr 1900. Okamoto tók 11.000 myndir af Lyndon Johnson í forsetatíð hans.
Heimssýningin 1900 í París var neyslusýning, ekki framleiðslusýning. Fyrstu stórmarkaðir, Bon Marché, risu í París 1852, raflýst undraland til að rölta um og skoða í frítímum. Með stórmörkuðum kom fast verð og leyfi til að þukla.
Það var rafmagn til ljósa, sem bjó til undraland stórmarkaða, sem nú hafa dreift úr sér og eru komnir í skemmtigarða, á flugvelli og lestarstöðvar. Ljósin gefa birtu og yl. Bílasýningar hófust 1898, annað aðdráttarafl fyrir almenning.
Kvikmyndasýningar hófust í Frakklandi 1895, í Bandaríkjunum 1896. Mikil útþensla var í opnun sýningarsala eftir 1905. Milli 1905 og 1918 var gífurleg fjölgun áhorfenda. Kvikmyndir urðu ein helsta skemmtun fólks.
Á tímanum 18701920 urðu stjörnur í skemmtibransa hluti af lífi Bandaríkjamanna. Stjörnur urðu fyrirmyndir borgarbúa. Nálægðin við stjörnur jókst, eftir að tal kom til sögunnar í bíómyndum seint á þriðja áratugnum.
Andrúmsloft komst í bílaauglýsingar með því að hleypa ímyndunaraflinu inn. Auglýsingar fjölluðu ekki um vöruna sjálfa, heldur um óskir um vörur. Auglýsingastofur voru fjörlegir vinnustaðir með mikilli sköpunargleði.
Á þriðja áratug 20. aldar fjölgaði útvarpsstöðvum mikið. Um svipað leyti kom tal í bíómyndir. Útvarp hafði mikil áhrif á fólk. Það höfðaði til frumhvata þess. Tilfinningasömum ræðum Hitlers var útvarpað. Líka Innrásinni frá Mars eftir Welles.
1920-1924 reyndu menn að ná inn eins mörgum stöðvum og þeir gátu. Eftir 1925 varð tónlist að höfuðefni útvarps, þegar hátalarar höfðu verið endurbættir. Vinsældir útvarps voru feiknarlegar. Menn hentu fortíðinni aftur fyrir sig.
Árið 1938 skiptist útvarpsefni: 53% tónlist, 11% samtöl, 9% leikrit, 9% skemmtiþættir, 9% fréttir, 5% trú, 2% sérstakir atburðir, 2% ýmislegt. Tveir þriðju hlutar efnisins voru ferskir, einn þriðji var niðursoðinn.
Klassísk tónlist var mikil fyrst, en minnkaði síðan. Þá jókst tónlist stórra hljómsveita. Hjá sumum stöðvum var til heil hljómsveit. Fljótlega hófst söngur áhugamanna, þannig uppgötvaðist Frank Sinatra.
Vikuleg sápa fyrir heimavinnandi húsmæður var veigamesti þáttur leiklistar í útvarpi. Bitastæðari leikritum fjölgaði á fjórða áratugnum. Mikilvægustu þættir leiklistar urðu reyfarar og gamanþættir. Notendur drógu að auglýsingar.
Spjall Roosevelt forseta við arineldinn varð mjög vinsælt. Hann spjallaði við fólk, en las ekki upp útifundartexta,. Í forsetakosningunum 1940 töldu kjósendur útvarpið mikilvægara en dagblöðin í frásögnum úr baráttunni.
Amos ‘n’ Andy var útvarpsþáttur um tvo svertingja, sem byrjaði 1930, fyrsta stóra málið í amerísku útvarpi. Þetta voru góðlátlegir menn í hversdagslegum vanda á kreppuárunum. Fólk varð að hlusta á þennan framhaldsþátt. Fyrstu endurflutningar.
Þessir þættir höfðu líka gildi fyrir samskipti kynþátta í Bandaríkjunum. Hvítir Bandaríkjamenn höfðu tilfinningar til Amos og Andy, sáu þá í hversdagslegu ljósi. Aldrei var gert grín að þeim. Fólk stóð almennt með þeim í lífsbaráttunni.
Bandaríkjamaður horfir á sjónvarp í 1701 tíma á ári eða hálfa fimmtu klukkustund á dag. Hann notar aðra fjölmiðla í 1898 tíma ári eða í hálfa fimmtu klukkustund, þar af les hann blöð í hálftíma á dag. Samanlagt notar hann miðla í 9 klst á dag.
CD-diskurinn kom til sögunnar árið 1982, veraldarvefurinn 1991, stafrænar kvikmyndir slógu í gegn 1995 og stafrænt sjónvarp kom til Íslands árið 2005. Íslendingar lifa og vinna í samþættu miðlunarþjóðfélagi nútímans.
Fjölmiðlunarþjóðfélag er, þar sem framleiðsla, úrvinnsla, dreifing og notkun upplýsinga er umfangsmesti þáttur efnhagslífs og þjóðfélags. Þar fer sívaxandi tími fólks í að nota fjölmiðla og tæki samskipta, svo sem síma og tölvu.
Sífellt fjölgar starfsfólki í fjölmiðlun, fólki, sem hefur að meginhlutverki að framleiða upplýsingar, vinna úr þeim, dreifa þeim. Fjölmiðlunarþjóðfélagið er nýtt skref í þróun samfélagsins frá fyrri grunnum þess í landbúnaði og iðnaði.
Störf í fjölmiðlun fela meðal annars í sér blaðamennsku, ritstjórn, kerfisstjórn, leiklist, sjónvarpsframleiðslu, þáttastjórn, auglýsingaöflun, vefsíðugerð, söng, almannatengsl, ljósmyndun, upptöku, skoðanaskipti.
Fjölmiðlar og fjölmiðlunartækni samþættast í stafrænu formi. Sama grunntæknin er notuð til að dreifa öllum tegundum fjölmiðlunar, texta, hljóði og myndum í samþættu kerfi eins og internetinu. Ekki þarf lengur sérstaka braut fyrir hvern miðil.
Árið 1930 áttu sex keðjur fjórðung af blaðaupplagi Bandaríkjanna. Nú á Gannettkeðjan yfir 100 fréttablöð. Keðjur hafa myndast, sem ná yfir dagblöð, útvarp, sjónvarp og internetið. Sumar keðjur ná yfir til annarra greina atvinnulífsins.
Sjá nánar:
David Crowley & Paul Heyer, Communication in History, 2003
Mitchell Stephens, A History of News, 1988
Joseph Straubhaar & Robert LaRose, Media Now, 2006
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé