Upphaf ritunar

Forsaga
Upphaf ritunar

Menningarsamfélag þarf ekki endilega ritun. Við notum enn í dag sumt af því, sem notað var fyrir ritun. Við notum enn myndrænar og orðlausar vegamerkingar og leiðbeiningar, óháð skrift. Eins og Egyptar.

3100 f.Kr: Myndskrift (Írak) 1.500 tákn. Leirtöflur.
2900 f.Kr: Táknskrift (Írak) 600 tákn.
2700 f.Kr: Papírus (Egyptaland).
2200 f.Kr: Hljóðskrift (Írak, Eg.) Bókmenntir, póstur, fjöltungur.
1200 f.Kr: Stafróf (Fönikía) 22 tákn.
700 f.Kr: Sérhljóðar (Grikkland) 24 tákn.

3100 f.Kr, Leir (Írak)
2700 f.Kr: Papírus (Egyptaland)
200 f.Kr: Leður (Pergamon)
50 f.Kr: Krít, fréttir (Róm)
1450: Pappír, prentun (Gutenberg)
1500: Nútímaletur (Aldus)
1600: Fréttablöð (Holland)
1785: Dagblöð (Bretland)

Myndmál hófst 25000 f.Kr og talning 8000 f.Kr. Ritun með óhlutlægum táknum hófst í Mesópótamíu 3100 f.Kr. og í Egyptalandi 3000 f.Kr., í Indusdal 2500 f.Kr, á Krít 1900 f.Kr, í Kína 1200 f.Kr. og í Mið-Ameríku um 600.

Ritun er meðal mestu uppfinninga mannkyns, ef til vill sú mesta. Með ritun voru skráðir samningar, minningargreinar og spár. Fólki var sagt frá leiðtoganum mikla. Talningar voru meginefni ritunar fornþjóða, einnig fyrstu ritunar á Krít.

Elsta ritun í sögunni kom fram í Uruk í Mesópótamíu um 3100 f.Kr. Þar voru góð menningarskilyrði og eignasöfnun, sem leiddu til ritunar. Það var ekki myndmál, heldur óhlutlæg ritun. Eldra en það var talning með leirmerkjum (tokens).

Fyrst voru leirmerkin þrívíð og götuð, höfðu ýmis form fyrir ýmsar vörutegundir. Síðan breyttust þau í tvívíð tákn í leirfleti. Þessi talning var fyrirrennari bæði ritunar í Uruk og talningar. Var til í þúsundir ára fyrir ritun.

Mjög auðvelt var að nota leirmerkjaritun. Hana var hægt að nota við mismunandi tungumál og mállýskur. Hún náði mikilli útbreiðslu um fornmenningarsvæðin austan Miðjarðarhafs, ein og sama ritun. Í Uruk fundust 812 tákn af 241 gerð.

Talningin breyttist í táknmál á tvívíðum fleti um svipað leyti og ritunin kom fram. Um svipað leyti komu tákn fyrir meira magn en einn hlut í senn. Við sjáum svipaðar aðstæður hjá sumum frumstæðum nútímaþjóðum, sem ekki hafa komið sér upp ritun.

Bylting varð í Egyptalandi, þegar ritunin fluttist af þungum steini yfir á léttan papýrus 2700 f.Kr. Þá urðu til rúllur, sem höfðu að geyma langan texta í samfellu. Þessar rúllur mátti flytja langa leið. Einnig urðu táknin einfaldari, hættu að vera myndir.

Í Súmeríu höfðu leirtöflurnar einkum að geyma samninga, kaupsamninga og afsöl, lista, lagertalningar hjá musterum. Þær segja frá veraldlegu þjóðfélagi, þar sem guðinn var auðjöfur, landeigandi og banki.

Skrifa varð hratt á leirtöflur áður en þær hörðnuðu. Í því skyni urðu táknin einfaldari og fljótgerðari, svo að myndstíll táknanna hvarf og þau urðu að óhlutlægum táknum. Þannig varð ritun með fastri röð orða í málsgreinum orðin fullþróuð um 2900 f.Kr.

Ritun þessi hafði 100 tákn fyrir sérhljóða og 500 önnur tákn, sem þó voru ekki samhljóðar. Sérstakir skólar voru settir upp við musteri til að kenna skrifurum að lesa þessi tákn og skrifa þau. Þar með hófst kennsla í málfræði og stærðfræði.

Ritun endurspeglar talmál misjafnlega, finnska mjög vel, kínverska mjög illa, enska í góðu meðallagi. Föníska átti fyrsta stafrófið, með samhljóðum, frá 1000 f.Kr. Gríska átti fyrsta stafrófið með sérhljóðum og samhljóðum, frá 730 f.Kr.

Pappír var fundinn upp í Kína 100 f.Kr., prentun hófst þar á 8. öld, prentun með lausum bókstöfum í Evrópu á 15. öld. Ritvélin var fundin upp 1867, tölvur með ritvinnslu á níunda áratug síðustu aldar. Tímatal Maya endar 23. des. 2012.

Ritun gerði kleift að geyma upplýsingar. Það gerði heimsveldi kleif. Þegar stafróf 22 samhljóða hafði verið fundið upp 1000 f.kr og Grikkir höfðu bætt við það sérhljóðum 730 f.Kr, gat almenningur farið að lesa og skrifa. Það var ekki lengur einkamál skriftlærðra.

Fyrirrennari stafrófs var atkvæðaritun, þar sem hvert atkvæði hafði sitt tákn. Slík skrift kallar á hundruð tákna og er miklu flóknari og tímafrekari í lærdómi heldur en stafróf. Enn flóknari var myndskrift, líktist myndgátum.

Stafrófið varð til á Sinaiskaga 1700-1500 f.Kr. Öll alfabetísk ritun er þaðan runnin, svo sem arabíska, hebreska, latína, gríska, tíbetska, javaska og bengali. Önnur ritun er runnin frá kínversku, sem ekki hefur alfabetíska ritun, er ekki stafróf.

Grískt stafróf tók við af atkvæðaritun Fönikíumanna. Með 30 talmálstáknum og 10 talningartáknum getur stafróf þjónað öllum talmálum heimsins, ekki bara indóevrópskum. Þessi tákn hafa reynst vel um aldir og komast vel fyrir í nútímanum á tölvulyklaborðum.

Bókmenntir komu fyrst fram í ritun um 1500 f.Kr og höfðu að geyma þjóðsögur og ævintýri. Grískar bókmenntir í ritun hófust á 8. öld f.Kr. og höfðu að geyma ljóð, sem ort voru til íþróttamanna og dansara.

Sums staðar varð stafrófið að skrautskrift, einkum hjá Aröbum og Indverjum, sem skráðu helga texta með skrautlegum hætti, til dæmis á veggi helgidóma. Hjá múslimum kemur skrautskrift að verulegu leyti í stað myndlistar.

Með tilkomu gríska stafrófsins um 700 f.Kr. varð breyting á eðli menningar, gjá myndaðist milli stafrófsþjóða og fyrirrennaranna. Grikkir fundu ekki aðeins upp stafróf nútímans, heldur einnig læsi og grundvöll nútímahugsunar í læsi.

Stafrófið gerði lýðræði mögulegt. Öll börn gátu lært að lesa. Skriftlærðir urðu óþarfir milliliðir. Stafirnir í stafrófinu voru meiningarlausir, alfa, beta, gamma, delta … . Þeir voru upprunalega semitísk orð um hús og úlfalda og þess háttar.

Þegar stafirnir voru orðnir merkingarlaus hlóðtákn, gátu menn orðið svo læsir, að læsið varð sjálfvirkt. Fólk gat lesið án þess að hugsa um stafina sem tákn. Og þetta gat fólk gert, hvaða tungumál, sem það talaði, ef skriftin var alfabetísk, var stafróf.

Þegar þjóðsögur voru komnar í ritað form, þurfti ekki lengur að muna þær. Í stað hljómrænna og ryþmískra frásagna, sem fólu í sér sífelldar endurtekningar, kom beinni og auðskildari frásagnarstíll, sem átti auðveldara með að temja það nýja og óvenjulega.

Stafrófið hvatti þannig til frjórrar og fjölbreyttrar hugsunar nútímans, sem leysti af hólmi kerfisbundna og síendurtekna hugsun fyrir daga stafrófsins. Þessi frjóa hugsun gat legið og beðið óbreytt eftir nýjum lesara og þannig dreifst um allt.

Stafrófið kom ekki að fullu gagni fyrr en menn lærðu fyrst að skrifa á pappír og síðan að prenta textann með lausum bókstöfum. Áður var skriftin fyrst og fremst í skinnhandritum, sem af fjárhagslegum ástæðum voru til í sárafáum eintökum.

Handritin voru framför frá papýrusrúllunum, sem þurfti að rúlla til að finna rétta staðinn. Auðveldara er að fletta handritum en rúllum. Það gerir bæði leit og lestur aðgengilegri. Textar urðu ekki eins línulegir og þeir höfðu verið. En lestrartækifæri voru fá.

Texti var vandaðri og listrænni á tíma handritanna. Textar margfölduðust svo eftir tilkomu pappírs og síðan prentunar með lausum bókstöfum. Menn höfðu aðgang að meiri texta og fóru að lesa hraðar og lögðu minna en áður upp úr meitluðum stíl.

Á tíma handritanna lásu menn upphátt eða tautuðu. Eftir tíma prentunar fóru menn að lesa í hljóði. Þá vildu menn líka að letrið væri skiljanlegt og fljótlesið. Listrænt letur að hætti Araba og Indverja lagðist að mestu niður í Evrópu.

Ritun er meira en skráð talmál. Þótt innihaldið sé talað mál, er notkun ritsmáls önnur en talmálsins. Hún skipuleggur og geymir upplýsingar öðru vísi en talað mál og er því annað mál. Bestum árangri nær ritun, þegar hún er lesin í hljóði.

Talað mál er samfella, samþætting, hljómfall. Hins vegar er ritun sýnileg, ópersónuleg og rofin. Hægt er að byrja að lesa í miðju kafi. Þegar ritun kom til sögunnar, komu líka til sögunnar lög, boðorð, rökfræði, skynsemi, sagnfræði.

Þótt ritun og talning hafi komið til sögunnar hvort í sínu lagi, eiga þau sér sameiginlega fortíð í táknum og táknmyndum. Ritun og talning þróuðust síðan með ýmsum hætti, ritun varð til dæmis að bókmenntum, talning að stærðfræði.

Grikkir unnu mikil afrek á andlegum sviðum, þegar þeir höfðu komið sér upp stafrófi. Þeir voru fyrsta þjóðin, sem eignaðist rökfræði, óhlutbundin vísindi og skynsamlega heimspeki. Ásamt með Hebreum voru þeir líka fyrstir til að rita eigin sagnfræði.

Núllið var fundið upp af Indverjum um 200 f.Kr. Þaðan barst það til Araba og síðan til Evrópu á 15. öld. Núllið olli byltingu í þróun talningar yfir í stærðfræði. Hægt var að reikna flóknari dæmi en áður var gert í huganum.

Indverjar voru fyrstir með núllið, af því að núllið sem núll og antinúll er þáttur í nirvana. Indverjar voru líka fyrstir að nota neikvæðar tölur. Þeir áttuðu sig á, að sé núlli deilt í tölu, kemur út óendanleiki.

Ritun og talningarkerfi með sætum fyrir stafi eiga ýmislegt sameiginlegt. Táknin eru fá, 26 í ensku, 10 í talningu. Þessi tákn eru fullnægjandi. Þau er hægt að endurtaka. Báðum er raðað í sæti í orðum. ÁT er annað en TÁ, 18 er annað en 81.

Tölvan er tæki til að meðhöndla óhlutlæg tákn, hvort sem þau eru alfabetísk ritun eða tölur í sætum. Þannig er tölvan aðferð við að sameina þessi tvær alfabetísku ritanir, þessi tvö stafróf, sem eru forsenda fjölmiðlunar.

Ritun er meðal mestu uppfinninga mannkyns, ef til vill sú mesta.

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé