Útvarp og bíó 2000

Forsaga
Útvarp og bíó 2000

Fyrir daga plötuspilarans var eingöngu lifandi tónlist. Prentaðar nótur voru keyptar á heimilum. Plötuspilarinn jók tækifæri til að hlusta á tónlist og fjölgaði áhugafólki um tónlist. Þjóðlög hvers lands voru sett á hljómplötur.

Útvarpstónlist stækkaði enn hring tónlistar og bauð upp á fjöldahlustun. Þjóðlög urðu eign almennings og erlend tónlist kom til sögunnar, Blues, Gospel og Country. Plötusala minnkaði fyrst, en síðan varð útvarp helsti kaupandi þeirra.

Internetið hefur aukið umsvif tónlistar. Sumir listamenn gefa eingöngu út verk á netinu. Notendur skiptast á tónlist með höfundarrétti með því að nota þjónustu á borð við Gnutella, sem leitt hefur til málshöfðunar gegn netútvarpi og einstaklingum.

Tónlistariðnaðurinn skiptist í listamenn, söngvara og spilara, hljóðver og tæknimenn, útgáfur, heildsala og hljómbúðir. Ódýr hljóðver, sem byggjast á tölvum, hafa gert litlum fyrirtækjum og einstaklingum kleift að gefa út tónverk.

Vörumerki eru eign útgefenda, sem notuð eru um flokka tónlistar. Hver útgefandi getur átt mörg vörumerki. Útgefendur ákveða, hvaða diska og söngva þeir kynna í útvarpi, á plakötum, í blaðaauglýsingum og á tónlistarböndum.

Tónlist er seld á ýmsa vegu, svo sem í hljómbúðum, stórmörkuðum, í netbúðum, eftir vörulistum og á vegum plötuklúbba. Tónlistarspilarinn iPod frá Apple hefur slegið í gegn á allra síðustu árum. Tónbransinn var fyrst á móti því sem öðrum nýjungum.

Í slagsmálum um ólöglega notkun tónlistar hefur komið til sögunnar hugbúnaður á borð við BitTorrent, sem geymir brot úr verkum á ýmsum netþjónum og sameinar þau við dreifingu, án þess að hægt sé að rekja uppruna brotanna.

Hakkarar hafa komist inn í iTunes hugbúnaðinn frá Apple og breytt honum á þann veg, að hann virkar fyrir flest form tónlistar, MP3, AAC, WMA o.s.frv. Nýjast er að nota farsíma til að hlaða niður tónlist á miklum hraða.

Tónlistariðnaðurinn í Bandaríkjunum stundaði sjálfsritskoðun fram eftir sjöunda tugi síðustu aldar. En stórar rokksveitir á vegum þekktra útgefenda fóru að nota dónalegra orðbragð og lýsingar, sem leiddi til mótmæla áhugahópa um siðferði.

Yfirheyrslur á bandaríska þinginu leiddu til, að viðvörunarmiðar voru settir á plötur og umslög CD-diska, en áhrifin hafa látið á sér standa, þar sem listamenn hafa gengið lengra síðan, til dæmis, Eminem, og eru leiknir í útvarpi.

Rétthafar tónlistar sækja hart að fá greitt fyrir flutning tónlistar í útvarpi og á netinu og reyna að hindra ólöglega dreifingu tónlistar á netinu. STEF er gamalgróið á Íslandi. Árið 2002 voru sett tónlistargjöld á útvarpsstöðvar á netinu í Bandaríkjunum.

Marconi fann 1896 upp loftskeytin, sem voru tvíátta miðill og einkenndu útvarp árið 1913. Lofttæmdar pípur árið 1906 réðu úrslitum um framgang þess. Þær leyfðu stöðugan flutning og móttöku hljóðs umfram á/af aðferðina, sem nægði ritsímanum.

Fyrst minnkaði sala á plötum, meðan fólk var að kaupa útvarp. Til langs tíma urðu útvarpsstöðvar bestu viðskiptavinir plötuframleiðslunnar, sem fór að nota útvarp til að kynna listamenn og plötur, er voru að koma í sölu.

Útvarp í Bandaríkjunum var einkarekið frá upphafi, víða í Evrópu ríkisrekið, þar á meðal á Íslandi. Einkarekið útvarp hefur síðar verið leyft og margar stöðvar eru reknar, oft á grundvelli sértækrar tónlistar.

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur löngum þótt vera til fyrirmyndar í sínum flokki útvarps. Það hefur útvarpað fréttum á ótal tungumálum um allan heim. Auglýsingar eru bannaðar hjá BBC til að verja samkeppnisstöðu einkarekinna stöðva.

Útvarp byggist mest á tónlist, einnig á fréttum, íþróttum, gamanþáttum, sápu, leikritum, spennuþáttum og ævintýrum. Sumt af þessu fluttist yfir í sjónvarp, þegar það kom til sögunnar.

Þegar sjónvarp var að koma inn á hvert heimili, minnkaði notkun útvarps og efni þess breyttist. Síðan hefur tónlist verið meira afgerandi sérkenni útvarps, einkum byggt á plötusnúðum, er spila það, sem er vinsælast á markaðssvæðinu, í markhópnum.

Plötusnúðar hafa verið umdeildir. Í Bandaríkjunum kom í ljós spillt kerfi, svokallað payola, sem fólst í að plötuútgáfur mútuðu plötusnúðum til að spila plötur þeirra. Einstaka snúðar komust upp í 100 þúsund dollara á ári í mútum.

Mútur plötusnúða eru ekki lengur taldar miklar. Í staðinn hafa komið mútur til útvarpsstöðva og stjórnenda þeirra. Plötuútgáfurnar múta þeim núna til að koma tónlist sinni á framfæri og svindla henni inn á topp 40 lista.

Hágæðaútvarp hefur verið til í Evrópu síðan 1997, en hefur verið seinna að taka við sér í álfunni vegna ágreinings um fyrirkomulag. Margir vilja haga málum á þann hátt, að þessar stöðvar trufli ekki AMútvarp, sem er tæknilega erfitt.

Margar útvarpsstöðvar erlendis senda efni sitt á netinu, tónlist, fréttir og annað efni. En margar urðu að hætta, þegar farið var að innheimta rétthafagjöld í Bandaríkjunum. Leyfisgöld hafa lengi verið í góðum farvegi á Íslandi.

Vefvarp notar nýja tækni á netinu, sendir strauma af brotum úr lögum í stað heilla laga. Vefvarp notar MP3 staðalinn, sem hentar Winamp hjá Windows og iTunes hjá Macintosh eða RealNetworks.

Helstu störf á útvarpi eru
1) framkvæmdastjórn, sem sér um laun, bókhald og innkaup,
2) dagskrárstjórn, sem sér um lagalista og almannatengsli, og
3) auglýsingaöflun. Oft sjá einstakir aðilar um margar stöðvar í senn.

Talmálsútvarp er notað af fólki við akstur. Það er með veðurfréttir, fréttir af umferð, íþróttafréttir og almennar fréttir. Það er líka með umræðustjóra og álitsgjafa, sem sumir hverjir eru spilaðir á mörgum útvarpsstöðvum.

Sjálfvirkar spilunarvélar eru orðnar mjög ódýrar og hægt að forrita þær á hverjum stað fyrir sig. Spilunarvél, sem tekur 300 CD-diska og segulbönd fyrir auglýsingar, kostar minna en 10.000 dollara, töluvert innan við eina milljón kr.

Kvikmyndir voru fundnar upp 1888, en fyrstu kvikmyndasýningarnar voru 1896 á vegum Thomas A. Edison annars vegar og Lumièrebræðra í Frakklandi hins vegar. Griffith kom með stóra tjaldið, sem sló í gegn árið 1915.

Tal hófst í myndum 1927. Leikur varð minna ýktur og minna klisjukenndur. Rödd leikara, undirspil og hljóð skiptu nú máli. Til sögunnar komu nýir listamenn, til dæmis frá leikhúsunum á Broadway. 1933 voru allar kvikmyndir með tali.

Með hljóðinu komu músíköl með dansi og söng. Aðrir stórir flokkar fyrir seinna stríð voru gamanleikir, glæpasögur, spennusögur, ráðgátur, söguverk, svartmyndir og leynilögreglusögur. Kvikmyndir tóku fólk með trompi, tómstundir fóru í bíó.

Bíóferðir minnkuðu í Bandaríkjunum eftir 1946, þegar sjónvarp var komið til skjalanna. Kvikmyndaverin áttu bíókeðjur og höfðu skaða af sjónvarpi. Þegar verin áttuðu sig á, að sjónvarp var komið til að vera, beindu þau kröftum að sjónvarpi.

Kvikmyndaver glötuðu áhrifum á 7. áratugnum, þegar óháðir aðilar sóttu fram. Verin einbeittu sér að framleiðslu framhaldsþátta fyrir sjónvarp. Fljótt fór kapalsjónvarp einnig að skipta máli. Allt var komið í lit upp úr 1960.

Nú eru heimasýningar á myndböndum og CD-diskum helsta tekjulind kvikmynda, gefa tvöfalt meira af sér en bíó. Sumar kvikmyndir fara beint á myndbönd og diska, af því að ekki tekur að auglýsa þær fyrir bíóhús. Óháðir aðilar eru með helming mynda.

Filmur hafa batnað með fjölgun á römmum eða myndum á sekúndu. Myndin er orðin breiðari en áður og felur í sér liti. Tækni og brellur hafa aukist, einkum við notkun á tölvum. Sumar kvikmyndir byggjast hreinlega á tölvuteikningu.

CinemaScope fyrst og síðan Panavision og Technicolor bæta litinn. Forgrunnar og bakgrunnar eru oft aðrir en leikni hlutinn. Ritstjórn mynda er orðin auðveld, þegar allt er gert stafrænt í tölvum. Farið er að dreifa bíómyndum á internetinu.

Helstu framleiðendur nú eru Columbia, Fox, Metro Goldwin Mayer, Paramount, Universal, Warner Brothers, Buena Vista, Miramax og TriStar. Hver þeirra gerir 15-25 kvikmyndir á ári. Óháðir framleiðendur gera færri myndir fyrir minna fé.

Helstu dreifingarleiðir kvikmynda: Kvikmyndahús, erlend kvikmyndahús, kvikmyndir á netinu gegn greiðslu (pay-per-view), lokað kapalsjónvarp, myndbönd og CD-diskar, netsýningar, opið kapalsjónvarp og loks umboðsmennska.

Rétthafar kvikmynda leggja mikla áherslu á að hindra hugverkaþjófnað. Ný tækni á borð við DVD-diska og skráadreifing á netinu er talin geta leitt til minnkandi tekna rétthafa. Stafrænar kvikmyndir gera þjófnað auðveldari en áður.

Hágæðasjónvarp með flatskjám, sem eru að lögun eins og breiðtjald, hafa lagt grundvöll að flutningi áhorfs úr bíóhúsum yfir í heimahús. Breiðu skjáirnir voru mjög dýrir fyrst, en eru farnir að lækka í verði með stækkandi markaði.

Frétta og skoðanamyndir hafa náð mikilli útbreiðslu. Mynd Michael Moore um hagsmunaaðila í byssum árið 2002 halaði inn 22 milljónir dollara og mynd hans um árásina á tvíburaturnana 11. september náði 119 milljónum árið 2004.

Sjá nánar:
Joseph Straubhaar & Robert LaRose, Media Now
Understanding Media, Culture and Technology, 2006

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé