Walter Cronkite

Umræða
Walter Cronkite

Walter Cronkite
A reporter’s life, 1996

Ég fékk mér snemma yfirvaraskegg til að sýnast eldri. Byrjaði snemma í blaðamennsku, var á litlum blöðum og útvarpsstöðvum fyrir stríð, fyrst sem sendisveinn. Var hjá UPI, þegar stríðið hófst og varð þá stríðsfréttaritari. Sú vinna fólst fyrst í að tala við flugmenn, sem komu úr árásarferðum.

Allar fréttir voru ritskoðaðar í stríðinu, áður en hægt var að senda þær. Eftir stríð var ég sendur til Moskvu, þar sem var sama sagan. Landið var lokað og enginn mátti tala við fréttamenn, enda hitti ég fáa Rússa. Vinnan fólst í að skoða blöðin og túlka staðsetningu valdhafa á ljósmyndum.

Útvarp er ekki vettvangur fyrir fínt unninn texta eða háð. Upplýsingaflæðið er svo óáþreifanlegt, að þú segir fyrst, hvað þú ætlar að segja þeim, síðan segir þú þeim það og loks segir þú, hvað þú sért búinn að segja þeim. Í gamla daga voru fréttir í útvarpi að mestu teknar upp úr dagblöðunum.

Eftir Moskvu fór ég til CBS, sem þá var útvarp, sem síðan varð sjónvarp. Þá voru flestir haukarnir í Kóreu og ég var fenginn til að leysa af í fréttum. Mín fyrsta regla var að vera slakur, ekki formfastur. Ég tók við afsláttum frá auglýsendum og gjöfum frá hagsmunaaðilum, Rolexúri.

Fljótlega varð ég frægur sem akkerismaður og mér var bent á að fá mér umboðsmann. Ég fluttist úr stétt fréttamanna yfir í stétt frægðarfólks. Það er sjónvarpi sumpart um að kenna, að almenningur er of ólæs til að geta tekið þátt í lýðræðinu. Því meira sem menn nota sjónvarp, þeim mun minna kjósa þeir.

Myndbitinn (photoop) varð til á undan hljóðbitanum (sound bite). Stjórnmálamenn lærðu snemma að stýra framkomu sinni í sjónvarpi. Þeir lærðu líka fljótlega að kenna fjölmiðlunum um vandamálin. Til dæmis Eisenhower. Mikil eigingirni var í þjóðfélaginu á níunda áratug aldarinnar.

Ég reyndi að flytja siðareglur blaðamannsins frá árum mínum hjá UPI yfir til CBS. Fréttaþátturinn Evening News varð þekktur fyrir hlutlægni og í skoðanakönnun varð ég sá maður, sem mest traust hafði í landinu. Mér var boðið að verða frambjóðandi í stjórnmálum, en hafnaði því.

Blaðamenn leyndu þjóðina þeirri upplýsingu, að Roosevelt gat hvorki gengið né staðið óstuddur. Þeir leyndu þjóðina líka þeirri upplýsingu, að Kennedy var sífellt á kvennafari. Núna væri slíkt samsæri óhugsandi. Öll einkamál, sem varða pólitíska frambjóðendur, liggja frammi í fjölmiðlunum.

Nixon kom á fót samsæri til að eyðileggja traust manna á fjölmiðlum. Hann setti Spiro Agnew varaforseta þar á oddinn. Nixon var sannfærður um, að lítill hópur akkerismanna, álitsgjafa og framleiðenda hefðu samráð um, hvað kæmi á þeim tuttugu mínútum, sem kvöldfréttirnar tóku.

Blaðamennirnir Bill Safire og Pat Buchanan tóku þátt í þessu samsæri. Þeir lugu beinlínis og ég hef aldrei getað skilið það. Margir tóku mark á Agnew, þar á meðal sumir útgefendur og höfundar ritstjórnargreina. Ég bar fyrir rétti, að Nixon stæði fyrir samsæri gegn fjölmiðlunum.

Nixon var alveg laus við félagslega færni. Hann var stífur og óþægilegur og gat alls ekki stundað “small talk” af neinu viti. Greindasti forsetinn, sem ég kynntist, var Jimmy Carter. Hann gat flutt blaðalaust og undirbúningslaust flóknar útskýringar upp úr skjölum, sem hann mundi alveg.

Myndir taka mikinn tíma í sjónvarpi. Þess vegna dugði ekki kortér í fréttir, þegar búið var að draga frá annað kortér í auglýsingar og kynningar. Fréttir fóru því upp í hálftíma að viðbættum öðrum hálftíma í auglýsingar og kynningar. Til að koma að gagni þurfa sjónvarpsfréttir að vera klukkustund.

Í viðtölum stjórnar viðtalsefnið meira en spyrjandinn. Stéttaskipting er í sjónvarpi. “The grunts” eru stöðugt á vígvellinum, akkerismennirnir og álitsgjafarnir koma við í nokkra daga og þykjast vita allt. Ég komst þó fljótt að raun um, að Vietnam stríðið var bull, sem ekki var hægt að útskýra.

Ég sagði þetta í sjónvarpinu. Johnson forseti sagði: Ef við höfum tapað Cronkite höfum við tapað miðjunni í Bandaríkjunum. Ein arfleifð Vietnamstríðsins eru yfirmenn í Pentagon, sem ímynda sér, að fjölmiðlarnir hafi tapað stríðinu, ekki bandaríski herinn.

Á valdatíma Reagan var mikið um lygar. Það kom berlega í ljós í fréttabanninu á árásinni á Grenada. Ástandið versnaði síðan í árásinni á Panama. Svo voru ströngustu reglurnar í Persaflóastríðinu. Þar kom varnarmálaráðuneytið fram með þeim hætti, að algerlega er ósamræmanlegt lýðræðinu.

Kynþáttaóeirðirnar í Bandaríkjunum voru erfiðasti tíminn. Ég hafði alltaf haldið með svertingjunum frá því ég var barn. Ég hafði hins vegar ekki burði til að gagnrýna meirihluta hvítra manna. Kvartað var yfir fréttum okkar og við vorum sagðir gefa í skyn, að hvítir suðurríkjamenn væru ofbeldismenn.

Sjónvarpsfréttir eru þrenns konar. Í fyrsta lagi fréttir, sem gerast. Í öðru lagi fréttir, sem við búum til. Í þriðja lagi fréttir, sem fara af stað og fá síðan eigið líf. Morð Kennedy er dæmi um það síðasta. Blekkingarnar þar náðu hámarki í kvikmynd Oliver Stone: JFK.

Einu sinni á ferli mínum hjá CBS varð ég fyrir þrýstingi yfirmanna og það var ekki til góðs. Það var þegar við tókum upp stuðning við fréttir Washington Post af Watergatemálinu. Tveir fréttaþættir okkar um málið voru styttir til að gera Nixon til geðs. Að öðru leyti lét stjórn CBS okkur í friði.

Sjónvarp er risavaxinn bygging utan um skemmtun. Blaðamennska er þar í lítilli viðbyggingu og sætir því að sogast inn í stóru bygginguna. Það endaði með því, að fréttaþulir, þar á meðal ég, voru látnir segja auglýsingar í fréttum. Ég saug að mér Winston og sagði “Winston bragðast vel”.

Þegar menn eru frystir út hjá sjónvarpsstöðvunum eru þeir algerlega þurrkaðir út. Menn taka ekki við símtölum frá þeim. Þannig fór fyrir mér, þegar ákveðið var, að gamanleikarinn Jack Paar tæki við af mér. Honum tókst ekki vel og hver akkerismaðurinn af fætur öðrum tók við af honum.

Snemma á sjónvarpsárum mínum stjórnaði ég spurningaþáttum. Það var ekki í samræmi við siðareglur blaðamanna, en sjónvarpið var á eftir blöðunum í reglum um slík atriði. Eftir að ég var hættur sem akkerismaður fór ég smávegis út í það, en hugur fylgdi ekki máli hjá CBS.

Það sem gerðist var, að Fred Friendly framleiðandi þurfti að losna við mig til að ná sjálfur tökum á fréttaþættinum og gera hann að stökkpalli fyrir sig í valdabaráttu forstjóranna. Að lokum tók Dan Rather við sem akkerismaður og það var vel ráðið. Mér féll alltaf vel við hann.

Hinar miklu tekjur, sem við akkerismenn höfðum, voru til þess fallnar að fjarlægja okkur frá venjulegu fólki og skilningi okkar á venjulegu fólki. Svipað gerðist raunar í smærri stíl hjá blöðunum, þegar blaðamenn og ritstjórar urðu menntaðri og voru í meiri umgengni við yfirstéttir þjóðfélagsins.

Dagblöð eru nú á tími hlutlægari og óhlutdrægari en nokkru sinni fyrr. Samanburðurinn við fyrirstríðsárin er eins og svart og hvítt. Það hefur ekki komið í veg fyrir minnkandi traust á blöðum og raunar fjölmiðlum yfirleitt.

Sjónvarpsfréttir eru ekki nógu góðar. Of lítið er af fréttamönnum úti á vígvellinum. Akkerismenn koma og fara með miklum látum. Upplýsingarnar, sem þeir hafa, eru ekki nógu góðar. Þetta skaðar álit manna á sjónvarpinu.

Van Gordon Sauter rústaði fréttastofu CBS, þegar ég var hættur. Hann losaði sig við alla, sem eitthvað gátu. Hann lét fella út alvörufréttir fyrir létt slúður. Þar með glataði CBS trausti, sem það hefur ekki náð upp aftur.

Þegar ég var akkerismaður, var reglan sú, að ég stjórnaði því, sem ég sagði sjálfur, og tók með framleiðandanum þátt í að velja fréttir og raða þeim upp. Ég heimtaði að sendingin færi fram á fréttastofunni, svo að hægt væri að taka inn nýjar fréttir meðan á útsendingu stæði.

Þegar gagnrýni mín á þróun mála hjá CBS hafði engin áhrif, fór ég að tala um málið í erindum og fyrirlestrum úti í bær. Það kom í blöðunum og olli titringi hjá CBS. Ég benti á, að Sauter væri að rústa fréttastofuna og niðurlægja hana með slúðurblaðafréttum.

Vandamál nútímans er “infotainment”. Fréttir og fréttaflutningur er orðinn hluti af skemmtibransanum. Sjónvarpskeðjurnar hafa gert illt verra og hlutdeild þeirra hefur farið minnkandi. Notendur keðjanna eru ekki nema helmingur af því, sem áður var. Kapall og sjálfstæðar stöðvar hafa tekið við.

Annar vandi er, að flest dagblöð hafa færst úr eigu fjölskyldna yfir í stórar keðjur, sem gera of miklar arðsemiskröfur. Á sama tíma leggja sjónvarpskeðjurnar minna fé í fréttir. Svo er nú komið, að sjónvarpsfréttir eru orðnar að vandamáli fyrir lýðræðið í landinu.

Sjónvarpsfréttir eru hlægilega litlar að umfangi. Orðafjöldinn í hálftíma fréttaþætti jafngildir tveimur þriðju úr einni blaðsíðu í dagblaði. Það er engan veginn nóg til að afgreiða helstu fréttir innan lands og utan og veldur villandi heimsmynd hjá notendunum.

Hljóðbitar (soundbites) eru ekki næg fæða fyrir fólk, þegar dregur að kosningum. Meðaltími fyrir óklippta skoðun er kominn niður í 9,8 sekúndur. Daglegir myndbitar (photoops) eru orðnir að uppistöðu frétta í sjónvarpi af kosningabaráttu.

Þegar allt er dregið saman, hljóðbitarnir, myndbitarnir, stjórn svokallaðra umræðuþátta, skriða neikvæðra auglýsinga, hefur kosningabarátta breyst í leikhús. Komin er upp stétt sérfræðinga, svokallaðra spunameistara, sem breyta staðreyndum í spuna.

Þeir, sem reiða sig á sjónvarpsfréttir, fá ekki nóg að vita til að geta notað rétt sinn sem kjósendur í lýðræðisþjóðfélagi. Þjóð, sem reiðir sig á slíkt, má vænta þess að verða auðveld bráð fyrir lýðskrumara og einræðisherra, sem nærast á hinum hálfupplýstu.

Sjá nánar:
Walter Cronkite
A reporter’s life, 1996

Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008

Hlé