Rannsóknir
Watergate II
Allan tímann einkenndist Watergatemálið af því, að Bernstein og Woodward náðu stökum spjöldum í stóru pússluspili, sem enginn skildi. Með því að birta frétt um hvert spjald, komst oft hreyfing á mál, þannig að þeir gátu náð næsta spjaldi.
Bernstein náði sambandi við lögmann, sem þekkti verjanda Hunt, William O. Bittman. Hann sagði Bittman hafa fengið 25 þúsund dollara greiðslu í reiðufé í brúnu umslagi til að verja Hunt og að 100 þúsund færu til öryggismála hjá CRP.
Woodward og Bernstein reyndu að fá þessa sögu staðfesta annars staðar, en gátu ekki, og því var hún ekki birt. Síðar kom í ljós, að CRP kostaði vörn Hunt, þegar Watergatemálið kom fyrir dóm. En á þessu stigi var ládeyða í fréttum af málinu.
Woodward fór í frí og Bernstein fór að sinna öðrum fréttum. Í öðrum blöðum var G. Gordon Liddy, starfsmaður í Hvíta húsinu, tengdur við Watergate. New York Times skýrði frá, að einn innbrotsmanna hefði hringt 15 sinnum frá Miami til CRP.
Bernstein hringdi í vin sinn hjá Bell símafélaginu og fékk staðfest, að Bernard L. Barker hefði hringt þessi símtöl og að saksóknarinn í Miami hafi innkallað gögn um það. Bernstein spurði sig: Af hverju hefur saksóknarinn áhuga á þessu?
Spurning 6: Er líklegt, að blaðamönnum á Íslandi hefði tekist að fá upplýsingar um símhringingar fólks? Hefði Persónuvernd ekki reynt að koma í veg fyrir slíkt? Eða fordæmt það eftir á.
Í Bandaríkjunum eru til fyrirtæki, sem sérhæfa sig í að útvega upplýsingar af þessu tagi, hver hringdi hve mörgum sinnum í hvern á ákveðnu tímabili. Nú síðast var slíkt mál í gangi hjá Hewlett Packard.
Í Watergatemálinu snýst þetta um, að blaðamaður þekkir mann hjá símafélagi, sem lekur fréttum af símtölum. Spurning er, hvort hlerun símtala um allan heim með gervihnöttum hefur ekki opnað fyrir hnattrænan aðgang að slíkum upplýsingum. Gegn greiðslu.
Bernstein fór 25. júlí að hringja í skrifstofur saksóknara í Miami. Í þriðju tilraun náði hann í Richard E. Gerstein, saksóknara Dadesýslu, sem hafði kallað inn gögnin. Hann vísaði á Martin Dardis, sem sagði, að Bernstein mætti koma.
Dardis sagði Bernstein í símanum, að upphæðin, sem um væri að ræða, væri meiri en þau 89 þúsund dollarar, sem áður höfðu komið fram í fréttum og að peningarnir hefðu komið frá lögmanni í Mexikóborg. Þeir sömdu um að hittast 31. júlí.
Í Miami lenti Bernstein í miklum eltingaleik við Gerstein og einkum við Dardis, sem voru á skrifstofunni, en sögðust ekki vera við. Bernstein hékk daglangt í afgreiðslunni og fékk gögn um innköllunarbeiðnir í júlí á vegum Dardis.
Bernstein ruddist að lokum inn á skrifstofu Gerstein og kvartaði um, að Dardis væri í felum þrátt fyrir loforð. Gerstein fór með hann til Dardis, sem opnaði skjalaskáp og leyfði Bernstein að skoða og ljósrita símreikninga Barker.
Dardis sýndi honum líka bankaútskriftir, sem sýndu afgreiðslur á tékkum frá Mexikó til Barker. Þar kom meðal annars fram, að Kenneth H. Dahlberg hafði gefið út 25 þúsund dollara ávísun. Alls námu ávísanirnar 114 þúsundum dollurum.
Þeir ákváðu að hittast daginn eftir. Bernstein hringdi í bankann í Boca Raton, sem hafði prentað ávísanablaðið. Hann náði bankastjóranum, sem sagði honum, að Dahlberg væri í bankaráði banka í Fort Lauderdale. Bernstein hringdi þangað.
Bankastjórinn í Fort Lauderdale sagði Bernstein, að hann vissi lítið um Dahlberg, nema hvað hann hefði verið framkvæmdastjóri kosningaskrifstofu Nixons fyrir miðvesturríkin árið 1968. Bernstein bað hann um að endurtaka þetta síðasta.
Spurning 7: Er líklegt, að saksóknarar og aðstoðarmenn saksóknara á Íslandi leyfi blaðamönnum að grúska í skjölum á borð við símreikninga og bankayfirlit? Er líklegt, að bankastjórar hjálpuðu blaðamönnum að komast á spor manna?
Enn og aftur er þetta spurning um persónulegt samband blaðamanns og viðmælanda hans, hvort sem um er að ræða bankastjóra, saksóknara eða símafélagsmann. Þeir leka, ef þeir vilja leka, annars ekki.
Oft er um að ræða áhrifamenn, sem tengjast í síma eða öðrum samskiptum. Í auknum mæli vilja menn túlka það sem einkamál þeirra, þótt það sé öðrum þræði mál, sem varðar almannahagsmuni.
Hér á landi er Persónuvernd og Úrskurðarnefnd um upplýsingalög stefnt gegn almannahagsmunum. Báðar stofnanir hafa tilhneigingu til að skilgreina hugtak einkalífs mjög vítt og þrengja þannig að starfi rannsóknablaðamanna.
Woodward náði sambandi við Dahlberg og grillaði hann um forsendur greiðslna hans til Watergateinnbrotsmanna. Dahlberg sagðist ekki vita neitt um málið, heldur gerði hann bara það, sem honum væri sagt.
Eftir mikið stapp játaði Dahlberg, að greiðslurnar hefðu verið framkvæmdar að skipan gjaldkera CRP, Hugh W. Sloan, eða að skipan Maurice Stans “sjálfs”. Stans þessi var helzti fjáröflunarstjóri Nixons og fjármálastjóri CRP.
Þegar Bernstein og Woodward sýndu Barry Sussman ritstjóra fréttina um þetta, sagði hann: “Við höfum aldrei náð annarri eins sögu. Bara aldrei.” Sex vikur voru liðnar frá því, að Mitchell hafði fullyrt, að CRP væri blásaklaust í málinu.
Woodward hringdi í Clark MacGregor, arftaka Mitchell hjá CRP, sem sagðist ekkert vita um þetta mál, það hefði verið fyrir hans tíð. Hann hljómaði mjög hneykslaður, ekki á spurningum Woodward, heldur á Mitchell og Stans.
Woodward hringdi í Philip S. Hughes ríkisendurskoðanda, sem sagði honum, að fréttin um Sloan og Stans væri fyrsta ábendingin um, að Watergate tengdist CRP. Um þetta leyti kom í ljós, að Sloan hafði sagt af sér af persónulegum ástæðum.
Spurning 8: Er líklegt að ríkisendurskoðandinn á Íslandi talaði hreint út við blaðamann?
Ef hann þekkti blaðamanninn nógu vel.
Woodward hringdi í rannsóknarmann ríkisendurskoðandans daglega á þessu tímabili til að frétta af gangi rannsóknarinnar. Dag nokkurn sagði rannsóknamaðurinn: “Þetta eru hundruð þúsund dollara, sem vantar í bókhaldið.” “Felusjóður” og “rottuhreiður”.
Woodward skrifaði ekkert um þetta í blaðið og daglega urðu samtölin við ríkisendurskoðun opnari. Ljóst var, að CRP var á kafi í leynilegum greiðslum á borð við þær, sem runnu til innbrotsmannanna í Watergate.
Clark MacGregor, framkvæmdastjóri CRP, reyndi að koma sökinni yfir á G. Gordon Liddy, sem var hættur að starfa þar. MacGregor hótaði Woodward vinslitum, ef hann héldi áfram að reyna að velta við steinum hjá CRP.
22. ágúst birti Washington Post bráðabirgðaniðurstöður ríkissaksóknara. Þar kom fram, að bókhald vantaði yfir 500 þúsund dollara, þar af 100 þúsund dollara í sérstökum sjóði öryggismála. Allt var þetta löglaust og vakti mikla athygli.
Sama dag tilkynnti Charles R. Richley dómari, að ekki væri hægt að opinbera gögnin að kröfu demókrata, þar sem þau væru orðin málskjöl, sem bæri að innsigla fram að dómi í málinu. Richley hringdi í Bernstein til að skýra niðurstöðuna.
Spurning 9: Er líklegt, að íslenzkur dómari hringi óumbeðið í blaðamann til að útskýra fyrir honum úrskurð sinn að fyrra bragði?
Það er hugsanlegt. Dómstjóri hefur hringt í mig af slíku tilefni.
Bernstein og Woodward höfðu hvor sinn lista af nokkrum hundruðum af beinum símanúmerum, sem þeir hringdu í að minnsta kosti tvisvar í viku. Ef einhver lét ekki ná í sig, reyndu blaðamennirnir enn harðar að ná í hann.
Ljóst er, að hvor blaðamaður hefur hringt í meira en 50 manns á degi hverjum, oft af litlu tilefni. Þannig náðu þeir af og til, kannski í hundraðasta hverju símtali, í eina upplýsingu, sem gaf þeim færi á að koma púsluspilinu áfram.
Á þessu stigi fylltu skjöl þeirra fjórar skúffur í skjalaskáp. Bernstein hafði sín gögn í góðri röð í stórum umslögum, merktum öllum þeim, sem talað hafði verið við. Þeir fleygðu engu, geymdu allar nótur og öll uppköst að fréttum.
Bernstein og Woodward unnu oftast fram á kvöld, oft til að ná í staðfestingar annars aðila á fullyrðingu fyrri aðila. Stundum var Barry Sussman ritstjóri með þeim, eftir að hann hafði verið skipaður ritstjóri Watergatemálsins eingöngu.
Sussmann var gangandi alfræðibók um Watergate. Hann mundi allt samstundis. Hann var maðurinn, sem geymdi pússluspilið og vissi, hvar hvert spjald í spilinu var. Hann spurði Bernstein og Woodward endalausra spurninga.
Sussmann: Hverjir fóru með Stans frá viðskiptaráðuneytinu til CRP? Hvað um ritara Michell? Af hverju vill enginn segja, hvenær Liddy fór í Hvíta húsið og hver vann með honum þar? Hvað má ráða af, að Mitchell og Stans voru í fjáröflunarnefndinni?
Sussmann var óformlegur eins og aðrir ritstjórar á Washington Post. Bernstein og Woodward voru aldrei skipaðir til að fást eingöngu við Watergate. Þeir höfðu á tilfinningunni, að þeir gætu verið í málinu áfram, meðan fréttir kæmu úr því.
Sjá nánar:
Carl Bernstein & Bob Woodward
All the President’s Men, 1974
Fair Use © Jónas Kristjánsson, 2008
Hlé