Kennslubók í ferðamennsku

Hestar

Tveir langir formálar eru að bókinni “Þúsund og ein þjóðleið”, sem kemur út innan skamms. Páll Ásgeir Ásgeirsson göngugarpur skrifar formála um búnað göngufólks, nesti þess og varúðarráðstafanir. Ég skrifa þar svipaðan formála um meðferð lausra hesta í fjallaferðum, búnað hesta og hestamanna, áningar og gistingu. Samanlagt eru þessir formálar eins konar vísir að kennslubók í ferðalögum utan bílaslóða í óbyggðum. Stærstur hluti bókarinnar er þó kort af öllum þjóðleiðunum í nákvæmum mælikvarða með 20 metra hæðarlínum. Hverju korti fylgja lýsingar leiða og ýmis fróðleikur um þær, svo sem sagnfræði.