Útskrifaði í gær tvo tugi yfirmanna á fjölmiðlum af námskeiði í ritstjórn við símenntadeild Háskólans í Reykjavík. Það stóð þrjá mánuði og var bezta námskeiðið af nokkrum, sem ég hef verið með við deildina. Töluvert lærði ég í faginu af námskeiðunum. Einkum þessu síðasta, því að umræður jukust þar dag frá degi. Svo mikið lærði ég, að nú hef ég heitið mér að skrifa digra handbók í blaðamennsku. Ætla að gefa mér tvö ár í það. Á þegar um 200 fyrirlestra, sem ég þarf að sníða til og bæta. Ætlunin er að setja þetta efni smám saman á vefinn í formi uppkasts og biðja um athugasemdir.