Kennt að verzla.

Greinar

Mörg og misjafnlega þokkuð eru verk Verðlagsstofnunar. Verst er varðstaða hennar við vísitölufalsanir stjórnvalda, sem í ýmsum tilvikum felur í sér bein lögbrot, svo sem verðlagsstjóri hefur orðið að játa fyrir dómstóli.

Komið hefur í ljós, að Verðlagsráð hefur lagt til niðurskurð verðhækkana án þess að kanna afkomu vel rekinna fyrirtækja í viðkomandi greinum, þótt lög mæli svo fyrir. Þetta var á sínum tíma staðfest í málaferlum gegn dagblöðum.

Nýjasta dæmið um varðgæzluna eru tilraunir stofnunarinnar og Verðlagsráðs, stjórnar hennar, til að ákveða, hversu mikill taprekstur Strætisvagna Reykjavíkur eigi að vera, þótt slíkt sé langt fyrir utan verksviðið.

Á sama tíma er Verðlagsstofnun að efla þjónustu á öðrum og jákvæðari sviðum. Þar er ekki um að ræða þjónustu við vísitölufalsanir stjórnvalda, heldur aðstoð við neytendur til eflingar almennu verðskyni í verðbólgunni.

Verðkynningar stofnunarinnar hafa smám saman verið að slípast. Þær, sem birzt hafa síðustu mánuðina, hafa verið einkar fróðlegar og hafa ekki gefið tilefni til rökstuddrar gagnrýni á borð við þá, sem heyrðist í upphafi.

Fimmta verðkynningin, sem birtist í upphafi desember í vetur, vakti mikla athygli. Þar voru áætluð ársútgjöld meðalfjölskyldu í mat og hreinlætisvörum eftir því, hvar á höfuðborgarsvæðinu var verzlað.

Í ljós kom, að verðmunurinn í ódýrustu og dýrustu verzluninni nam tæplega 16% eða 8.759 krónum á árinu. Marga fjölskylduna munar um minna í útgjöldum til matar og hreinlætisvöru en sem svarar algengum mánaðarlaunum.

Ýmsar verzlanir, sem hlutu góða niðurstöðu í kynningunni, notfærðu sér hana í auglýsingum og öðrum áróðri. Sumar þeirra fjölguðu meira að segja vörum, sem neytendum voru boðnar á tilboðsverði í jólakauptíðinni.

Í stað þess að eyða miklu benzíni í akstur milli verzlana til að grípa ódýra vöru á mörgum stöðum, gátu neytendur valið sér einhverja ódýra verzlun, sem lá vel við samgönguleiðum milli heimilis og vinnustaðar.

Enginn vafi er á, að margir neytendur notuðu þetta og fluttu viðskipti sín til þeirra kaupmanna, sem betur buðu. Þannig varð kynningarstarfið til að færa viðskipti til verzlana, sem bezt hafði tekizt að gæta hagsmuna neytenda.

Enn fór Verðlagsstofnun inn á nýja og athyglisverða braut í janúar, þegar birtur var samanburður á verði Reykjavíkur og Kaupmannahafnar á ýmsum matvörum og nokkrum fleiri vörum. Þar skar ýmislegt í augu.

Ýmis verðmunur sýndi, hve hart Íslendingar eru leiknir af græðgi hins opinbera í tolla, vörugjald og söluskatta, sem m.a. leiðir til óhófsverðs á grænmeti. Hún sýnir líka, hve illa einokunin fer með okkur.

Hún veldur því, að jógúrt úr niðurgreiddri mjólk er meira en tvöfalt dýrari hér en í Danmörku.Hún veldur því, að niðurgreitt dilkakjöt hér er helmingi dýrara en kjúklingar í Danmörku, hliðstæður matur þar í landi.

Gott væri, að Verðlagsstofnun gerði hliðstæðan samanburð á vöruverði hér og í Bandaríkjunum, svo að enn betur komi í ljós, hvernig okur hins opinbera, verzlunareinokun og innflutningsbann hefur íslenzka neytendur að fífli.

Jónas Kristjánsson.

DV