Kerfi í klípu

Greinar

Íslenzka ríkið hefur tapað hverju málinu á fætur öðru fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, nú síðast vörninni gegn Sigurði Á. Sigurjónssyni leigubílstjóra. Aðeins einn af níu dómurum studdi ríkið. Það var auðvitað forseti Hæstaréttar Íslands, sem áður hafði brotið á Sigurði.

Kominn er tími til, að Alþingi og Hæstiréttur taki sér tak. Ekki er nóg að breyta afmörkuðum lögum til samræmis við fellda dóma, heldur verða þessar stofnanir að temja sér ný og betri vinnubrögð, svo að ekki þurfi að draga þær hvað eftir annað fyrir útlendan dóm.

Síðasta málið var óvenju gróft, því að þar elti íslenzka kerfið fórnardýrið uppi. Alþingi lét hagsmunaaðila úti í bær skipa sér fyrir verkum og setti lög gegn Sigurði. Hæstiréttur dæmdi síðan eftir þessum lögum, sem augljóslega stönguðust á við það, sem kallað er réttarríki.

Þetta er angi af þriðja heims ástandi, sem verður að breyta og hlýtur að verða breytt, af því að Íslendingar eru svo heppnir að búa í heimshluta, þar sem talið er óhjákvæmilegt, að farið sé eftir rótgrónum, vestrænum leikreglum í umgengni ríkisvaldsins við smælingjana.

Alþingi er afgreiðslustofnun fyrir ríkiskerfið og samþykkir hugsunarlaust flest það, sem þaðan kemur, bæði þau mál, sem kerfið framleiðir til að efla stöðu sína í þjóðfélaginu, og málin, sem það tekur að sér fyrir þá þrýstihópa, er njóta velvildar og stuðnings kerfisins.

Á sama hátt er Hæstiréttur afgreiðslustofnun fyrir ríkiskerfið samkvæmt gamalli hefð. Hann hefur jafnan verið hallur undir ríkið og telur það alltaf hafa rétt fyrir sér. Nokkur dæmi um það eru rakin í bók, sem lögmaður sigurvegarans ritaði um vinnubrögð Hæstaréttar.

Raunar er dómskerfið í heild meira eða minna lamað á Íslandi. Látið er viðgangast, að hálfruglaðir menn fremji undarlega dóma, og algengt er, að dómarar komi litlu í verk. Seinagangur í dómskerfinu stafar ekki af aðstöðuleysi dómara, heldur af leti þeirra og áhugaleysi.

Hin einföldustu mál eru oft að velkjast árum saman í dómskerfinu, ekki sízt ef sterki aðilinn, hvort sem hann er ríkið eða auðfélag, ákveður að þreyta smælingjana til uppgjafar með því að beita öllum úrræðum til tafa. Því þora menn ekki að reyna að gæta réttar síns fyrir dómi.

Ofan á öll þessi vandræði bætist fornt og krumpað verðmætamat, sem setur auðgildi ofar manngildi. Menn fá þunga dóma fyrir þjófnað og skjalafals, en létta dóma og skilorðsbundna fyrir handrukkanir, líkamlegt ofbeldi, sifjaspell, nauganir og limlestingar af ýmsu tagi.

Þetta er arfur frá fyrri öldum, þegar yfirstéttin var alls ráðandi og setti lög til verja eignir sínar, en lét sig litlu varða, hvort undirstéttin stundaði ofbeldi innan síns hóps. Lögin endurspegla þetta enn, svo og túlkun dómstóla á lögunum. Hið auma Alþingi lætur kyrrt liggja.

Hvorki Alþingi né Hæstiréttur hafa tekið mark á gagnrýni. Þessar stofnanir fara sínu fram, enda telja þær lítið mark takandi á pöplinum. Hins vegar er hugsanlegt, að tekið verði mark á gagnrýni, ef hún kemur frá fjölþjóðlegum og óumdeildum dómstólum, sem hafa víða yfirsýn.

Hæstiréttur þarf að setja sig betur inn í vestræna og nútímalega hugmyndafræði réttarfars og hafa hliðsjón af henni. Alþingi þarf að hreinsa lög til samræmis við þessa sömu hugmyndafræði. Dómstólar almennt þurfa að losna við vanhæfa dómara og koma hinum að verki.

Þetta gerist, þegar Alþingi og Hæstiréttur, ráðuneyti og dómstólar átta sig á, að tímabært sé orðið að hætta að verða sér til skammar á fjölþjóðlegum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV