Kerfið sefur á verðinum

Greinar

Kerfið ver miklum tíma og kostnaði í þágu ofbeldisfólks, en lætur sér í léttu rúmi liggja, að fólk, sem verður fyrir ofbeldi, nær ekki rétti sínum. Sá, sem sleginn var með meitli í andlitið um helgina, verður sjálfur að borga um 600 þúsund króna viðgerð á 13 brotnum tönnum.

Fórnarlömb nauðgara búa við svipaða fyrirlitningu kerfisins. Þau þurfa sjálf að borga þjónustu kerfisins og fá engar skaðabætur greiddar, á sama tíma og fjöldi sérfræðinga sér um, að nauðgarar fái umönnun og þjónustu af ýmsu tagi og séu ekki skaðaðir með innilokun.

Dómarar lifa í draumaheimi og úrskurða fórnarlömbum skaðabætur, sem þau fá aldrei, af því að ofbeldisfólk borgar aldrei neitt og af því að þjóðfélagið neitar að gegna þessum þætti næturvarðarhlutverks síns með því að hlaupa í skarð þeirra, sem ekki eru borgunarmenn.

Vandinn er á öllum sviðum dóms og laga. Ráðuneytismenn hafa minni áhuga á vandamálum fórnarlamba en ofbeldismanna og hafa ekki frumkvæði að lögum til að draga úr misræminu. Alþingismenn hafa ekki áhuga á að setja lögin og dómarar eru vægir í túlkun laga.

Í ráðuneytum og félagsmálakerfum ríkir samúð með ofbeldisfólki, sem sagt er hafa alizt upp við lélegt uppeldi, tíða flutninga og lítið tilfinningaatlæti; og sem sagt er muni bara versna við frelsissviptingu í fangelsi. Í staðinn beri að senda þetta síbrotafólk til sálfræðings.

Lögreglan virðist líta á ofbeldisfólk sem eðlilegan hlut og lætur því meira að segja eftir miðju höfuðborgarinnar að næturlagi um helgar. Þeir, sem ferðast um miðju borgarinnar á þeim tíma eru taldir gera það á eigin ábyrgð og geti meira eða minna sjálfum sér um kennt.

Svona kæruleysislegt viðhorf til ofbeldis þekkist ekki einu sinni í frjálslyndum borgum á borð við Kaupmannahöfn og Amsterdam og enn síður í annáluðum næturlífsborgum á borð við Madrid og Róm. Þar getur fólk gengið að næturlagi um miðborgir án þess að missa tennur.

Í fremur daufum smábæ, sem heitir Reykjavík, getur síbrotamaður hins vegar afrekað 30 glæpi á 43 dögum og verið jafnharðan látinn laus. Slíkir fá í fyrstu skilorðsbundna dóma fyrir heilar kippur af afbrotum, síðan lenda þeir á biðlistum fangelsa og fá loks reynslulausnir.

Bezt væri að senda síbrotamenn á sviði ofbeldis til Serbíu eða Rúanda, ef það væri hægt. Að öðrum kosti þarf að loka þá inni, svo að fólki stafi ekki hætta af þeim. Réttur almennings til öryggis ætti að vera meiri en réttur síbrotamanna til skilningsríks mannúðarkerfis.

Innrétta ber meira rými til geymslu síbrotamanna; hraða meðferð mála þeirra fyrir dómi; þyngja dóma; draga úr reynslulausnum og náðunum; og setja harðari lög um ofbeldisglæpi, þar með taldar nauðganir. Þetta er ekki hefnd, heldur til að auka öryggi almennings.

Jafnframt þarf Alþingi að setja lög um, að ríkið ábyrgist skaðabótagreiðslur til fórnarlamba ofbeldis og taki á sig kostnað, sem þau verða fyrir í kjölfar ofbeldis. Með slíkum lögum tekur ríkið ábyrgð á því að hafa ekki staðið við það hlutverk sitt að gæta öryggis borgaranna.

Mikið er deilt um, hversu víðtækt eigi að vera hlutverk ríkisins. Sumum finnst ríkið vasast í of mörgu, en allir eru sammála um, að grundvallartilgangur ríkisins felst í næturvarðarhlutverki þess. Tilveruréttur ríkisins byggist einmitt á því, að það gæti öryggis borgaranna.

Ofbeldi helgarinnar minnir á, að kerfið hefur misst sjónar á grundvallarhlutverki sínu og er flækt í ógöngum sálfræðiþjónustu handa mikilvirkum óbótamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV