Kerfið skiptir um föt

Greinar

Þegar olíuverð lækkar erlendis, segja forráðamenn íslenzku olíufélaganna, að ekki sé hægt að lækka olíuverð á Íslandi, af því að skip með olíu á nýja verðinu komi ekki til landsins fyrr en eftir tvo eða þrjá mánuði. Nokkur bið hljóti að vera eftir verðbreytingum.

Þegar þessi biðtími er liðinn, telja forráðamenn íslenzku olíufélaganna, að ekki sé hægt að lækka olíuverð á Íslandi, af því að erlendis sjáist merki um, að olíuverð sé að fara að hækka á nýjan leik. Þessar horfur hafa án biðar og umsvifalaust áhrif á verðlag olíufélaganna.

Olíufélögin geta leyft sér þverstæður í röksemdafærslu, af því að þau eru ekki í samkeppni, heldur stunda þau fáokun. Þau þurfa ekki að láta neytendur njóta verðlækkana, af því að þeir geta ekki snúið sér annað en til hins þríhöfða þurs olíuverzlunar á Íslandi.

Þessi fáokun er í svo traustum sessi, að forráðamenn olíufélaganna nenna ekki að framleiða snyrtileg rök fyrir meðferðinni á neytendum. Þeir fullyrða bara á afar veikum forsendum, að dollarinn sé að hækka í verði og að olían sé að hækka í verði erlendis.

Ýmsir fleiri þursar á Íslandi hafa nokkra hausa eins og olíufélögin. Önnur helztu vígi fáokunar á Íslandi eru bankarnir og tryggingafélögin. Bankarnir komast upp með að halda uppi vöxtum til að afla fjár til óskynsamlegra og ósiðlegra lána, sem ekki eru endurgreidd.

Íslenzku tryggingafélögin hafa með sér fáokunarsamráð um að taka að sér lagavald í slysabótum og láta dómsmálaráðuneyti og ríkisstjórn þjónusta sig með lagafrumvörpum til staðfestingar á, að þeim beri ekki að greiða tjón, sem almenningur verður fyrir.

Aðrir þursar hafa bara einn haus. Ein verst þokkaða einokunarstofnun landsins er Bifreiðaskoðun Íslands, sem hefur sankað að sér eignum og peningum með miklum hraða í skjóli ríkisins. Hún var stofnuð undir yfirskini einkavæðingar, en er merkisberi einokunar.

Eftir mikla baráttu er nú verið að setja reglur um afnám einokunar á bifreiðaskoðun. Bílgreinasambandið telur, að þessar reglur séu strangari en evrópskar reglur til að draga úr líkum á, að nýir aðilar hafi bolmagn til að taka upp samkeppni við Bifreiðaskoðun Íslands.

Eitt þekktasta dæmið um einokun er í fluginu. Ríkið úthlutar einkaleyfum til áætlunarflugs með farþega í innanlandsflugi og til útlanda. Þar á ofan hefur til skamms tíma verið í gildi samningur um einkarétt einokunarfélagsins á afgreiðslu flugvéla á Keflavíkurvelli.

Einokun og fáokun eru ekki á undanhaldi, þótt stundum sé talað fallega um nauðsyn á markaðsbúskap og frjálsri samkeppni. Stefna einkavæðingar hefur ekki miðað að aukinni samkeppni, heldur að breytingu nokkurra þátta ríkiseinokunar yfir í einkaeinokun.

Að svo miklu leyti sem ríkisvaldið rekur ekki einkavæðinguna með hangandi hendi, miðar sú stefna í raun að því að búa til matarholur fyrir gæðinga og gæludýr í einkageiranum, en ekki að því að draga úr kostnaði þeirra, sem þjónustuna eða vöruna þurfa að nota.

Lögmál markaðsbúskapar og frjálsrar samkeppni eru höfð að yfirvarpi í tilraunum ríkisvaldsins til að breyta um rekstrarform á einokun og fáokun. Í reynd eru handhafar hins pólitíska valds fyrst og fremst að færa til sérhagsmuni og gæta þeirra gegn almannahagsmunum.

Þetta kerfi er svo traust, að ríkið getur gefið eftir einokun olíuinnflutnings, án þess að olíufélögin láti af samstarfi sínu um varðstöðu gegn almannahagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV