Kerfið skóp arðinn

Greinar

Samkvæmt greinum Sigurðar Líndal lagaprófessors í DV hefur Alþingi ekki tekizt sú ætlun að koma í veg fyrir, að úthlutuð veiðileyfi verði eign útgerðarfélaga. Hann telur orðalag um þetta efni í fyrstu grein laga um stjórn fiskveiða stangast á við stjórnarskrána.

Sigurður Líndal telur, að atvinnuréttindi á borð við rétt til nýtingar fiskistofna njóti verndar eignaréttarákvæða í stjórnarskránni, þótt atvinnuréttur feli ekki í sér fullgildan eignarétt. Þessa atvinnuréttar hafi útgerðarmenn aflað sér með nýtingu almannaréttar.

Sigurður telur ennfremur, að sjómenn hafi ekki aflað sér slíks réttar, þar sem þeir hafi tekið laun fyrir störf sín. Útgerðarmenn hafi hins vegar hætt fjármunum sínum í ótryggan rekstur á eigin ábyrgð og áhættu og séu því handhafar atvinnuréttar til fiskveiða í sjó.

Sigurður telur samt, að Alþingi geti sett atvinnurétti takmörk, sett reglur um kvótaviðskipti og skattlagt atvinnuréttinn, auk þess sem það geti afnumið kvótakerfið og gefið veiðar frjálsar. En hann spyr, með hvaða rökum eigi að skattleggja kvótaréttinn sérstaklega.

Því er til að svara, að ríkið hefur búið til atvinnuverðmæti með kvótakerfinu. Ef veiðar væru frjálsar eins og þær voru í gamla daga, hefði ofveiðin gengið miklu lengra, afli væri snöggtum minni og afkoma útgerðar hörmuleg. Þetta ástand hefur kvótakerfið hindrað.

Það er því aðgerðum ríkisvaldsins að þakka, að afkoma er bærileg í sjávarútvegi um þessar mundir. Ef ofurframtak útgerðarmanna hefði verið eitt um hituna, væru flest fyrirtæki þeirra fyrir löngu gjaldþrota. Ríkið hefur hingað til ekki sent útgerðarmönnum reikning fyrir þetta.

Ríkið getur sagzt hafa sjálft framleitt arðinn í sjávarútvegi með sértækum aðgerðum á borð við kvótakerfið og geti því skattlagt arðinn með sértæku veiðileyfagjaldi. Með því að notfæra sér ekki þessa málsaðild er ríkið óbeint að mismuna skattgreiðendum í landinu.

Alþingi getur sett lagaákvæði um, að ríkinu beri sérstakt gjald fyrir að hafa framleitt hagkvæmni í sjávarútvegi með sértækum hætti. Um leið getur Alþingi auðvitað hnykkt á þeirri skoðun þingmanna, að þjóðin eigi auðlindina og að ríkisvaldið fari með það umboð.

Alþingi getur meira að segja sett lög um, að útboð veiðileyfa komi í stað skatts. Það getur sagt, að útboð skerði ekki atvinnurétt útgerðarmanna, því að þeir megi bjóða í leyfin að vild og þannig áfram tekið áhættuna, sem löngum hefur fylgt atvinnurétti í útgerð.

Ekki mætti takmarka útboð veiðileyfa við þá, sem þegar eru í útgerð, því að þar með væru aðrir aðilar hindraðir í að afla sér atvinnuréttar á sama hátt og menn öfluðu sér atvinnuréttar fyrir tíð kvótakerfis, með því að leggja í fjárfestingar og aðra áhættu.

Ef kvótakerfi væri lagt niður og hafin útboð veiðileyfa á skilgreindu aflamagni, væri endurvakinn hinn almenni atvinnuréttur, sem áður gilti, en um leið spillt þeim rétti, sem kann að hafa myndazt í tíð kvótakerfisins. Líklegt er, að greiða þyrfti útgerðinni bætur vegna þessa.

Af öllu þessu má ráða, að eignarhald á auðlindum hafsins er ekki einfalt mál, en samt ekki flóknara en svo, að Alþingi og ríkisstjórn geta komið fram þeim meirihlutavilja þjóðarinnar, að greitt verði fyrir þau forréttindi að fá að stunda arðbæra útgerð hér við land.

Enda er svo komið, að stjórnarmenn í sumum stærstu útgerðarfyrirtækjum landsins eru farnir að mæla með hóflegu afgjaldi til að mynda þjóðarsátt um málið.

Jónas Kristjánsson

DV