Kerfið sýnir klærnar

Greinar

Andófið gegn innflutningi smjörlíkis er gott dæmi um, hvernig þrýstisamtök hagsmunaaðila úti í bæ og embættismenn ríkisins sameinast um að láta verndun sérhagsmuna ráða ferðinni gegn almannahagsmunum um lækkun verðs á vöru og þjónustu í landinu.

Félag íslenzkra iðnrekenda gætir hagsmuna nokkurra innlendra smjörlíkisgerða, sem fara ekki eftir reglum um merkingar á umbúðum. Þær hafa undanþágu til næstu áramóta frá reglunni um, að upplýsingar um næringarefni og geymsluþol séu á umbúðunum.

Athyglisvert er, að undaþágan byggist á, að innlendu smjörlíkisgerðirnar þurfi frest til næstu áramóta til að koma út meira en ársgömlum birgðum í gömlum umbúðum frá því í fyrra. Hið opinbera hefur því ekki miklar áhyggjur af aldri vörunnar, ef hún er innlend.

Þrátt fyrir þetta var Félag íslenzkra iðnrekenda ekki feimið við að senda Hollustuvernd ríkisins bréf um, að innflutta smjörlíkið kunni í sumum tilvikum ekki að uppfylla kröfur um merkingu, sem innlendir framleiðendur þurfa ekki að fara eftir á þessu ári.

Framkvæmdastjóri félagsins var eftirminnilegur í sjónvarpi, þegar hann sagði, að þetta væri búvara og ætti því að fylgja annarri einokun á því sviði. Síðar var upplýst hér í blaðinu, að hið svokallaða innlenda smjörlíki er hrært úr erlendum og innfluttum hráefnum.

Þetta upphlaup félagsins var skiljanlegt, því að í þrýstihópum reyna menn að komast eins og langt og unnt er hverju sinni. Viðbrögð Hollustuverndar voru hins vegar einkar athyglisverð. Þau sýna, hve lítils málsefni mega sín, þegar hagsmunir eru annars vegar.

Hollustuvernd hefur lítið látið á sér kræla um dagana, nema helzt til að væla um fjárskort. Til dæmis hefur þessi opinbera skrifstofa ekki gefið sér tíma til að hafa afskipti af, hvort selt sé og selt verði til næstu áramóta aldrað, innlent smjör í umbúðum frá í fyrra.

Þegar þrýstihópurinn sendi Hollustuvernd bréfið um útlenda smjörlíkið, vaknaði stofnunin hins vegar af værum blundi og lét nota sig til að biðja um, að það smjörlíki yrði ekki afgreitt úr tolli, fyrr en stofnunin hefði gengið úr skugga um, að settum reglum væri fylgt.

Þessa beiðni hentu á lofti kerfiskarlar í heilbrigðisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Þeir notuðu bréf Hollustuverndar til að stöðva tollafgreiðslu á innfluttu smjörlíki. Er nú málið komið í hendur þriggja manna ráðherranefndar, sem á að jafna ágreininginn.

Í nefndinni er Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra, sem hefur oft lýst sig andvígan leyfi viðskiptaráðherra til innflutnings á smjörlíki. Ennfremur er þar Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra, sem formlega fór fram á stöðvunina á tollafgreiðslu.

Þriðji maðurinn í nefndinni er svo Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra, sem veitti leyfið til innflutnings á takmörkuðu magni smjörlíkis. Líklegt er, að sjónarmið hans nái fram að ganga, því að erfitt er að halda til streitu, að smjörlíki sé búvara, en ekki iðnvara.

Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, hefur sagt, að ekki standist krafa heilbrigðisráðherra um bann við tollafgreiðslu. Hann hefur einnig sagt, að “þarna sé kerfið að sýna klærnar”, sem er alveg laukrétt lýsing á málinu.

Neytendum er hollt að átta sig á, að jafnvel Hollustuvernd ríkisins vinnur gegn þeim, ef það er í þágu sérhagsmuna og kerfishagsmuna gegn almannahag.

Jónas Kristjánsson

DV