Kerfisdurgar

Greinar

Komið hefur í ljós, að gjaldheimtustjórinn í Reykjavík og lögmaður gjaldheimtunnar kunna lítið fyrir sér í almennum mannasiðum og eru ekki nógu greindir til að leyna því á almannafæri. Ummæli þeirra hér í blaðinu benda til, að ekki sé allt með felldu í stofnuninni.

“Við höfum þetta í okkar hendi og þurfum ekkert að skýra það frekar, hvorki fyrir honum né öðrum, hvernig við stöndum að innheimtu opinberra gjalda.” Þannig svaraði lögmaðurinn mótbátum manns, sem hafði þolað fjárnám vegna peninga, sem hann hafði þegar greitt.

Yfirmaður stofnunarinnar kaus að draga ekki í land daginn eftir, þegar hann sagði: “Heyrðu, ef þú skilur þetta ekki, þá vil ég ekki útskýra þetta fyrir þér.” Hann telur sig greinilega óhultan í einu helzta virki skrifræðisins í landinu og ekki þurfa að skýra vinnubrögð þess.

Tilefni málsins var, að erfingjar dánarbús áttuðu sig ekki á, að dánarbúið breyttist í sameignarfyrirtæki með sérstökum eignarskatti, sem einstakir eignaraðilar voru ekki rukkaðir um, heldur dánarbúið sjálft. Eigendur áttuðu sig ekki á þessu fyrr en löngu eftir gjalddaga.

Þrír af átta erfingjum greiddu sinn hlut í þessum skatti. Boðaði Gjaldheimtan þá fjárnám í eignum eins hinna þriggja, sem greitt höfðu, af því að hún taldi hann betri borgunarmann fyrir skuldum hinna fimm, sem ekki höfðu greitt, heldur en þeir voru sjálfir.

Gjaldheimtustjóri og lögmaður gjaldheimtunnar segja þetta vera lögum samkvæmt. Hitt er ljóst, að vinnubrögðin stinga í stúf við almenna réttlætistilfinningu og kalla á, að stofnunin fari mildum höndum um málið. En hrokafullum embættismönnum er ekkert slíkt í huga.

Kerfisdurgaviðbrögð af þessu tagi hafa magnazt í tíð núverandi fjármálaráðherra, sem hefur misst af öllu sambandi við almenning í landinu og er orðinn að mesta kerfiskarli íslenzkra stjórnmála. Svo virðist, sem sumir embættismenn rækti hroka sinn í skjóli ráðherrans.

Illræmt var, þegar fjármálaráðherra heimtaði, að tollstjórinn í Reykjavík kallaði yfirmenn í tollgæzlunni á sinn fund og ávítaði þá fyrir að segja fjölmiðlum frá hörmulegum afleiðingum þeirrar ákvörðunar ráðherra og forstjóra að draga úr fíkniefnaleit í tollpósti.

Tollverðirnir voru þó ekki að gera annað en að gæta almannahagsmuna, sem eru æðri hagsmunum tollstjórans og fjármálaráðherrans, er urðu berir að vanrækslu í starfi. Tollverðirnir höfðu gegnt skyldu sinni gagnvart þjóðfélaginu, en tollstjóri og ráðherra alls ekki.

Hrokafull kerfiskarlaviðbrögð fjármálaráðherra og tollstjóra fengu sanngjarna útreið í umræðum á Alþingi. Þar kom greinilega fram, að ráðherranum var fyrirmunað að skilja, að hann lék þar hlutverk þess, sem heldur verndarhendi yfir ólöglögum fíkniefnainnflutningi.

Eftir stendur, að fjármálaráðherra hefur gert misheppnaða tilraun til að kæfa eðlilega umræðu um niðurskurð á fjárframlögum til fíkniefnaleitar í tollgæzlu og hefur ekki innsæi til að skynja, hvar hjarta kjósenda slær í einu allra erfiðasta vandamáli þjóðarinnar.

Embætti gjaldheimtustjóra og tollstjóra í Reykjavík eru grófustu dæmin um úrelta blöndu af hroka og getuleysi, sem stingur í stúf við nútíma viðhorf gagnvart innihaldi opinberrar þjónustu, er í vaxandi mæli sætir óhagstæðum samanburði við viðskiptavænan einkarekstur.

Bezta leiðin til úrbóta er að segja fremsta kerfiskarli fjármála ríkisins upp störfum og fá nýjan fjármálaráðherra, sem tekur litlu kerfisdurgana á teppið.

Jónas Kristjánsson

DV