Kerfiskarlinn og utangarðsmaðurinn

Punktar

HITLER OG STALÍN eru vinsæl umræðuefni þessa dagana vegna sextíu ára afmælis stríðslokanna í Evrópu. Til dæmis greinir menn á um, hvor hafi verið verri og hafi drepið fleiri milljónir manna. Minna hefur verið talað um, að í rauninni voru þeir gerólíkir menn að upplagi og reynslu.

STALÍN VAR KERFISKARL. Þegar kommúnistar náðu völdum í Moskvu, kom Stalín sér fyrir í bókhaldinu, varð ritari flokksins og skrifaði fundargerðir flokksstjórnarinnar í sína eigin þágu. Smám saman náði hann tökum á öllum bókfærðum staðreyndum, vissi alltaf, hvað hafði verið samþykkt. Stalín var alltaf varfærinn kerfiskarl og vann alltaf innan kerfisins.

HITLER VAR UPPREISNARMAÐUR. Hann sigraði þýzka kerfið sem utangarðsmaður og var alla sína ævi utangarðsmaður. Hann var ekki einu sinni skipulagður, heldur tók ákvarðanir út í loftið. Þjóðverjum gekk vel framan af stríðinu, ekki vegna hæfileika Hitlers, heldur þrátt fyrir ruglið úr honum. Hitler tók alltaf áhættu og vann bezt utan kerfisins.

FRÆG ER BÓK ALAN BULLOCK: Hitler and Stalin, þar sem einn þekktasti sagnfræðingur okkar tíma ber saman persónuleika þessara tveggja höfuðskrímsla tuttugustu aldar.

Báðir voru þeir geðveikir, Stalín vænisjúkur og Hitler stórmennskubrjálaður. Báðir skildu eftir heimsveldi, annar skildi eftir skammlíft heimsveldi utangarðsmannsins og hinn skildi eftir langlíft heimsveldi kerfiskarlsins, sem enn setur mark sitt á Rússland nútímans. Og Úzbekistan.

DV