Keypt og seld mengun

Greinar

Einhver verður fyrr eða síðar að borga fyrir mengun. Að svo miklu leyti sem þjóðfélag sættir sig við mengun, neyðist það til aðgerða til að bæta hana upp. Á alþjóðlegum vettvangi kann að verða samið um misjafnt verðlag á mengun, en samt verður engin mengun ókeypis.

Virtasta málgagn frjálshyggjunnar í heiminum er tímaritið Economist. Það hefur lengi mælt með, að mengun verði metin til fjár og að réttur til mengunar geti gengið kaupum og sölum. Meðal annars geti ríkið selt slíkan rétt, sem er auðvitað sama og skattur.

Engum heilvita manni dettur í hug að mæla gegn mengunargjaldi. Markmið þess er að hvetja fyrirtæki til að menga minna til að koma sér undan skatti. Þannig getur útgerð grætt á að skipta úr svartolíu í dísilolíu til að spara sér skatt. Gjald kemur í stað fyrirmæla.

Ef samið er um stóriðju, sem veldur mengun, þarf að taka tillit til kostnaðarins við mengun af völdum stóriðjunnar. Þjóðfélagið þarf þessa peninga til að draga til jafns úr mengun á öðrum sviðum, til dæmis til að borga öðrum fyrir tilsvarandi minnkun mengunar.

Reiknað hefur verið, hvað þurfi að rækta mikinn skóg til að mæta tiltekinni aukningu á losun koltvísýrings. Ríkisstjórn Íslands hefur gamnað sér við drauma um að geta látið aukna skógrækt koma á móti aukinni stóriðju. Þannig fæst eins konar verðmiði á mengun.

Þegar baráttumenn stóriðju láta sig dreyma um að troða meiri stóriðju upp á land og þjóð, verða þeir að reikna með mengunarkostnaði. Til lítils er að hrópa um þjóðhagslega arðsemi stóriðju og ætla svo að senda skattgreiðendum mengunar-reikninginn um síðir.

Stóriðja er þriðja heims atvinnuvegur, sem ríku þjóðirnar í heiminum hafa verið að losa sig við. Meðal annars hafa Þjóðverjar losnað við eitt álver til Íslands og eru harla glaðir. Stóriðja á Íslandi er og verður einangrað fyrirbæri, sem ekki samlagast íslenzkum veruleika.

Álverið í Straumsvík er búið að vera svo lengi í gangi, að ljóst er orðið, að ekki myndast í kringum það nein fullvinnsla eða þekkingarvinnsla. Við höfum hins vegar ræktað töluverðan iðnað kringum sjávarútveginn, þar á meðal ört vaxandi tölvuvinnslu og hugbúnaðargerð.

Stóriðja losar efni út í andrúmloftið. Með skattlagningu á slíkri mengun er unnt að hvetja stóriðjuna til ítrustu mengunarvarna. Að svo miklu leyti, sem varnirnar duga ekki, fær ríkið fjármagn til að leggja í almennar aðgerðir, sem draga úr mengun í landinu.

Þá fyrst er hægt að sjá þjóðhagslega arðsemi stóriðju, þegar búið er að taka fjárhagslegt tillit til mengunar af völdum hennar. Það sama gildir raunar um sjávarútveg og samgöngur á landi. Mengunarskattur er forsenda skynsamlegra aðgerða á öllum þessum sviðum.

Fyrsta skrefið í þessa átt er að koma á fót umhverfisráðuneyti, sem leysi núverandi mengunarráðuneyti af hólmi. Í stað fálmkenndra tilrauna til að fá umheiminn til að fallast á vaxandi sóðaskap Íslendinga þarf að koma á fót stjórnvaldi, sem taki forustu gegn mengun.

Það skammhlaup hefur einhvern veginn orðið í hugsun ráðamanna landsins, að fjárhagslega hagkvæmt sé að menga landið og að markmið þátttöku okkar í fjölþjóðlegu umhverfissamstarfi sé að fá undanþágu umheimsins til að menga landið okkar sem allra mest.

Eina leiðin til að fá sóða til að skilja sóðaskap er að láta hvern þeirra fyrir sig borga fyrir sinn sóðaskap. Leiðin til skilnings liggur sem oftar um budduna.

Jónas Kristjánsson

DV