Khomeini og Khayyám

Greinar

Persíugreinin á meiði Múhameðs spámanns ól fyrir níu öldum upp vezírinn og lífsnautnaskáldið Ómar Khayyám, sem orti um vín, víf og brauðhleif í auðninni sem hámark hamingjunnar. Á okkar tíma elur hún upp óða klerka sem leggja fé til höfuðs trúvilltum rithöfundi.

Arabíski menningarheimurinn ól fyrir níu öldum af sér ævintýrasafnið í Þúsund og einni nótt. Nú á dögum elur hann af sér ráðamenn, er standa fyrir opinberum brennum bóka eftir sjálfstæða höfunda, sem ekki standast stranga guðfræðiskoðun klerkastéttarinnar.

Fyrir níu öldum varðveitti íslam ljós siðmenningarinnar, sem hafði slokknað á Vesturlöndum í ofsa kristinnar kirkju. Það þurfti Abu al-Walid, sem á Vestur-löndum er betur þekktur undir nafninu Averroes, til að varðveita arfleifð Aristótelesar fyrir Evrópu.

Margt breytist á löngum tíma. Vestræn siðmenning átti erfiða æsku þegar miðöldum lauk. Fyrir aðeins fimm öldum lét munkurinn Savonarola brenna dýrmæt handrit opinberlega á torgum Flórens. Hann var eins konar Khomeini kristinnar kirkju á þeim tíma.

Fyrir fjórum öldum neyddist Galilei að tilhlutan páfaveldis til að taka opinberlega aftur vísindalegar uppgötvanir sínar. Við getum líka fundið dæmi, sem eru nær nútímanum. Ekki eru nema 23 ár síðan páfastóll lagði niður hina illræmdu Bannbókaskrá sína.

Árið 1986 lét stjórnin í Chile opinberlega brenna 15.000 eintök bóka eftir nóbelsverðlaunahafann Gabriele Garcia Márquez. Og aðeins eitt ár er síðan trúaróðir Bandaríkjamenn brenndu bækur vísindamannsins Charles Darwin um þróun mannsins úr heimi dýranna.

Tvennt er sorglegt við þessi dæmi. Hið fyrra er, að arabíski menningarheimurinn, sem öldum saman var ljós heimsins á erfiðum tímum í sögu Vesturlanda, skuli nú hafa gerzt fulltrúi myrkursins í tilraunum sínum til að varðveita sjálfstæði sitt fyrir ágangi Vesturlanda.

Hið síðara er, hversu grunnt er á myrkrinu á Vesturlöndum sjálfum. Að vísu er langt síðan trúvillingar voru brenndir á báli. En bækur eru brenndar á Vesturlöndum enn þann dag í dag, bæði af pólitískum og trúarlegum ástæðum. Og enn berjast trúardeildir á Írlandi.

Samt eru mannréttindi hornsteinn vestræns þjóð skipulags og yfirleitt varðveitt í stjórnarskrám. Þar á ofan hafa þau verið innleidd í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og stofnskrá Menntastofnunar samtakanna. Þar eru skoðanafrelsi og ritfrelsi í fyrirrúmi.

Ekki er ástandið þó betra en svo, að Khomeini erkiklerki og öðrum fulltrúum myrkursins hefur tekizt að kúga ýmsa aðila á Vesturlöndum til undanhalds í máli rithöfundarins Salmons Rushdie, sem nú verður að fara huldu höfði til að dyljast fyrir tilræðismönnum.

Fyrirhugaðir útgefendur Satansversa eftir Rushdie í Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi og Grikklandi hafa hætt við útgáfuna af ótta við hefnd illræðismanna. Nokkrar af stærstu bókabúðakeðjum í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa tekið hana úr hillum sínum af sömu ástæðum.

Verstur er þó hlutur Kanadastjórnar, sem hefur látið tollverði sína gera Satansversin upptæk við landamærin. Slíkt hugleysi og undanhald er til þess eins fallið að magna upp tilraunir afturhaldsmanna til að kúga Vesturlönd til að falla frá grundvallarhugsjónum sínum.

Með sama áframhaldi verður komið í veg fyrir, að við lesum um auðnaryndi í Rubaiyat eftir Ómar Khayyám og um næturævintýri kalífa í Þúsund og einni nótt.

Jónas Kristjánsson

DV