Khomeini erkiklerkur er ekki fyrsti strangtrúarmaðurinn, sem rís með stuðningi fjöldans gegn of hröðum veraldlegum breytingum og hyggst færa tímann aftur á bak til einfaldara og guði þóknanlegra lífs.
Árið 1494 var borgin Flórenz á Ítalíu orðin eitt voldugasta ríki heims. Þar höfðu ráðið ríkjum furstar af verzlunaraðalsættinni Medici. Þeir höfðu gert Flórenz að fjármálamiðstöð heimsins, að miklu efnahags- og menningarveldi.
Gífurlegur auður sogaðist til borgarinnar og með honum margir helztu listamenn og ævintýramenn endurreisnartímans. Flórenz Medici-ættarinnar var einn helzti burðarás breytingarinnar frá miðöldum yfir í nýöld.
Um leið höfðu myndazt gífurlegar félagslegar andstæður í borginni, meiri en í öðrum auðborgum Ítalíu, Feneyjum og Genúa. Almenningur bjó við sult og kaþólska trú og horfði agndofa á tiltæki hinna nýríku kaupmanna.
Þetta ár ógnaði franskur her borginni og olli mikilli ólgu meðal almennings. Þá reis upp dóminikanski munkurinn Savonarola og hreif fólkið með sér í byltingu trúar og lýðræðis. Medici-ættin var hrakin á brott.
Gagntekið af eldheitum vakningarræðum Savonarola og árásum hans á lifnaðarhætti hinna ríku valdamanna, gekk fólkið berserksgang, brenndi bækur og listaverk og braut höggmyndir og önnur dæmi um spillta hugsun þáverandi nútíma.
Meðan hrifinn múgurinn brenndi skart sitt, spariföt og óþarfan húsbúnað, réðst Savonarola að nútímaspillingu, siðleysi og trúleysi víðar en í Flórenz. Hann beindi spjótum sínum að sjálfum páfanum, Alexander Borgia.
Þessi páfi var glæpamaður, sem hafði komizt yfir páfastól þetta sama ár með augljósum og jafnvel opinberum mútum. Sonur hans var hinn illræmdi Cesare Borgia, frægasti stjórnmálahrappur og baktjaldamakkari allra tíma, tífaldur Nixon.
Örlögin ollu því, að Cesare varð fyrirmynd eins af embættismönnum Savonarola-stjórnarinnar í Flórenz, þess er samdi friðinn við franska herinn, sem ógnaði borginni. Þetta var stjórnvitringurinn Machiavelli, maki þriggja Kissingera.
Machiavelli ritaði bókina um “prinsinn”, hinn fullkomna stjórnmálamann, fullan af krafti og markvissum vilja, takmarkalausu siðleysi og bragðvísi, svikum, grimmd og hræsni. Þessi bók þykir enn hin merkasta.
Í fjögur ár ríkti lýðveldi guðs í Flórenz undir handleiðslu Savonarola. Á meðan undirbjó Alexander páfi samsæri gegn honum og fékk því komið til leiðar, að hugsjónamunkurinn var brenndur á aðaltorginu í Flórenz árið 1498.
Kaldhæðni örlaganna var sú, að nokkru síðar komust Medici-furstarnir til valda á ný í Flórenz og tóku aftur upp fyrri þráð, tilfærsluna í átt til nútímans. Og aumingja Machiavelli naut ekki skilnings og var rekinn í útlegð.
Samanburður á Savonarola og Khomeini er ýmsum annmörkum háður, svo og á Medici-ætt og hinni persnesku Pahlevi-ætt. Enn langsóttari er samanburður á Cesare Borgia og Nixon annars vegar og Machiavelli og Kissinger hins vegar.
Samanburðurinn sýnir þó, að ekkert er nýtt undir sólinni. Óbeit almennings á of örum breytingum er gamalkunn og sömuleiðis tímabundið hvarf fólks til trúarofsa og fornra dyggða.
Og hann gefur til kynna, að valdaskeið Khomeinis kunni fljótt eða að nokkrum árum liðnum að hrynja jafn óvænt og það hófst á sínum tíma.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið