Afstaða alþjóðlegs fjármagns til Kína og Indlands er bezta dæmið um heimsku þess. Allir vilja fjárfesta í Kína, en enginn vill fjárfesta í Indlandi. Samt sýnir reynslan mun betri árangur af fjárfestingum í Indlandi, sem hefur miklu betra dómskerfi og margfalt betra bankakerfi en Kína.
Reynsla íslenzks fjármagns er hin sama. Fræg er sagan af lakkrísverksmiðjunni, sem Íslendingar ætluðu að reka í Kína með stuðningi íslenzkra stjórnvalda. Samstarfsaðilarnir þar í landi reyndust ekki vera nógu traustir og fyrirtækið varð gjaldþrota nokkurn vegin um leið og því var hleypt af stað.
Samanburðurinn milli Kína og Indlands skiptir máli, því að þetta eru tvö langfjölmennustu ríki í heiminum, með meira en milljarð íbúa hvort um sig. Kína er enn kommúnistaríki, þar sem myrkur hvílir yfir kerfinu, en Indland er gamalt krataríki, sem hefur fetað rólega inn í markaðshagkerfið.
Indland er lýðræðisríki, þar sem valdhafar eru sendir heim í kosningum, nú síðast fyrir mánuði, þegar Kongress-flokkurinn komst aftur til valda og gerði Manmohan Singh, föður markaðshagkerfisins í landinu, að forsætisráðherra. Í Kína eru valdhafar aldrei sendir heim í frjálsum kosningum.
Fyrirtæki, sem skila hagnaði í Kína, eru flest erlend. Innlendu stórfyrirtækin eru yfirleitt rekin með miklum halla, sem er fjármagnaður með bankalánum. Þetta rugl verður seint gert upp, því að það mundi verða ávísun á kreppu í landinu. Indversk fyrirtæki eru hins vegar mörg hver öflug.
Indland er meira eða minna gegnsætt ríki að vestrænum hætti, síðan Manmohan Singh var þar fjármálaráðherra 1991. Frá þeim tíma hefur verið 5% hagvöxtur í landinu, núna 8%. Singh telur, að 6,5% hagvöxtur verði til frambúðar, enda er Indland komið í fremstu röð ríkja heims í tölvuiðnaði.
Alþjóðlegt fjármagn hefur ekki næga yfirsýn. Það sogast að ríkjum, þar sem eru svokallaðir sterkir leiðtogar, sem halda þjóðum sínum í skefjum með harðri hendi. Það áttar sig ekki á, að einhvern tíma hlýtur að koma að því, að fólkið rísi upp gegn kvölurum sínum og þeim, sem hafa stutt kvalarana. Indverjar gera slíkt í kosningum. Nú unnu veraldlega sinnuð öfl sigur í kosningunum gegn trúarofstækisflokkum hindúa. Flokksmenn Atal Bihari Vajapayee höfðu reynt að siga kjósendum á múslíma, sem eru fjölmennir í landinu. Það tókst ekki, indverskir kjósendur höfnuðu trúarofstækisflokkum.
Indland er fjölbreytt land sárustu fátæktar og mikils ríkidæmis, sem reynir að nota vestrænt hagkerfi með góðum árangri. Það hefur sigrazt á vanda, sem kraumar enn í Kína.
Jónas Kristjánsson
DV