Japanir eru fjórðu stærstu kaupendur íslenzkra afurða á eftir Bretum, Þjóðverjum og Bandaríkjamönnum. Þeir kaupa af okkur vörur fyrir 13-15 milljarða króna á hverju ári, en selja hingað í staðinn vörur fyrir þriðjung þess verðs, um 5 milljarða króna á hverju ári.
Kaup Japana á íslenzkum vörum eru eitt hundrað sinnum meiri en kaup Kínverja á íslenzkum vörum, sem nema rúmlega 0,1 milljarði króna. Samt höfum við sendiráð í Kína, en ekki í Japan. Sendiráðið í Kína kostar 50 milljónir á ári, sem fara allar beint í súginn.
Ríkisstjórn Íslands hefur nokkrum sinnum rætt þörfina á íslenzku sendiráði í Japan, en fjárskortur hefur staðið framkvæmdum fyrir þrifum. Er þó til sú einfalda og ódýra lausn á málinu að leggja niður óþarft sendiráð í Kína og nota peningana í sendiráð í Japan.
Eðlilegt er, að fámenn þjóð leitist einkum við að hafa sendiráð sín, þar sem viðskiptahagsmunir eru mestir. Við höfum sendiráð í fimm af mestu kaupalöndum okkar öðrum en Japan og svo auðvitað á stöðum, þar sem starfa fjölþjóðastofnanir, er varða okkur miklu.
Við höfum einnig sendiráð í löndum, sem kaupa lítið af okkur. Mest sker þar Kína í augu, en síðan kemur Svíþjóð, þar sem menn kaupa þó af okkur tíu sinnum meiri verðmæti og eru nátengdir okkur í menningarlegum samskiptum. Eina óþarfa sendiráð okkar er í Kína.
Þrjú lönd önnur en Japan kaupa mikið af okkur, án þess að við höfum þar sendiráð. Það eru Spánn, Holland og Sviss. Samanlagt nema kaup þeirra á íslenzkum vörum svipaðri upphæð og Japansviðskiptin. Það er því ekki eins brýnt að koma þar upp sendiráðum.
Sendiráð í Japan er þeim mun nauðsynlegra fyrir þá sök, að landið er langt í burtu og þjóðin að ýmsu leyti frábrugðin í siðum og háttum. Við þurfum að leggja okkur fram við að átta okkur á sérstöðu Japana og auðvelda starfsfólki í útflutningi að umgangast þá af prýði.
Japanir hafa einnig þá sérstöðu meðal þjóða Asíu að hafa samið sig bezt að vestrænum stjórnarháttum og lagaformum. Í Japan gilda formleg lög, en ekki geðþótti valdhafa eins og í Kína. Í Japan er farið eftir leikreglum vestræns lýðræðis, viðskipta og markaðsbúskapar.
Út af fyrir sig er Japan margfalt stærri markaður en við getum sinnt og tekur við vörum, sem ekki seljast á öðrum markaði. Við höfum mikla möguleika á að efla þennan markað og gera það í trausti þess, að viðskiptaumhverfi þar í landi haldizt óbreytt um langan aldur.
Öðru máli gegnir um Kína. Reynslan sýnir, að þar taka valdhafar ákvarðanir út og suður eftir geðþótta. Reynslan sýnir líka, að það, sem gildir í einu héraði, gildir ekki í hinu næsta, af því að víða eru mútuþægnir héraðshöfðingjar, sem taka lítið mark á miðstjórninni.
Þótt sendiráð í Kína geti fengið ráðamenn þar í landi til að undirrita pappíra um viðskiptahætti, hafa slíkir pappírar hvorki gildi utan höfuðborgarinnar né fyrir ósjálfstæðum dómstólum, sem fylgja skipunum flokksins. Viðskipti við Kína eru því óeðlilega áhættusöm.
Ekki má heldur gleyma, að Kína á eftir að taka út blóðugt millibilsástand, þegar alræði flokksins víkur fyrr eða síðar fyrir valdaskiptakerfi á borð við þau, sem tryggja á Vesturlöndum og í Japan, að stjórnarskipti fari reglulega fram á friðsaman og formfastan hátt.
Með því að leggja niður sendiráð í Kína fæst fé til að stofna og reka sendiráð í Japan, sem nánast allir eru sammála um, að sé efst á óskalista kaupsýslunnar.
Jónas Kristjánsson
DV