Kínahúsið

Veitingar

Á síðustu árum hef ég komið oftar í Kínahúsið við Lækjargötuna en nokkurt annað veitingahús. Margt er það, sem dregur, matreiðsla, verðlag og andrúmsloft, sem samanlagt gera Kínahúsið að einni af helztu matarvinjum miðbæjarins. Þar er framreiddur bezti Kínamatur landsins á hóflegu verði.

Stemningin er samt minnisstæðust, vingjarnleg og friðsæl, studd mildri tónlist austrænnar ættar að tjaldabaki. Einföld salarkynni lifna við vandaðar Kínaskreytingar á borð við ljósakrónur, útskorna tréskerma og skelplötumyndir. Vestræn þjónusta er hlýleg og látlaus.

Í hádeginu kostar rækjuréttur 575 krónur og þríréttað með súpu 675 krónur. Á kvöldin fást fimm smáréttir saman á 1375 krónur og ýmsar aðrar réttasyrpur á 1975 krónur að meðaltali. Meðalverð á þríréttuðu að frjálsu vali af löngum seðli með kaffi er 2.165 krónur.

Matreiðslan er vönduð og traust, alltaf eins, dag eftir dag og ár eftir ár. Djúpsteikingar eru hóflegar og eldunartímar skammir. Hér er sérstaklega eldað fyrir hvern og einn, en ekki ausið pottréttum upp úr hitakössum, svo sem víða tíðkast í veitingahúsum, sem sögð eru kínversk eða austræn.

Súpur eru yfirleitt matarmiklar, flestar eggjablandaðar, svo sem mild sjávarréttasúpa, sterk Pekingsúpa með andakjöti og sterk karríkrydduð andakjötsúpa. Bezt slíkra var humarsúpa með stórum og meyrum humarbitum. Súpa dagsins hefur verið tær og mild hvítkálssúpa, ekki áhugaverð.

Rækjur hafa reynst mér vel í ótal útgáfum. Algengastar og þó lakastar eru milt hjúpaðar, djúpsteiktar rækjur í súrsætri sósu. Betri voru pönnusteiktar rækjur með cashew-hnetum og rækjur í karrí með grænmeti. Aðrir sjávarréttir voru líka góðir, svo sem meyr og fínn hörpudiskur með sterkri ostrusósu. Of seigur var þó smokkfiskur með grænni papriku og bambusspírum.

Kjúklingar hæfa matreiðslu af þessu tagi, svo sem bragðsterkur Szechuan-kjúklingur með rauðri sósu, meðalsterkur kjúklingur í karrí eða mildur kjúklingur með grænmeti. Andakjöt er lakara og sízt er Pekingönd. Lambakjöt var sæmilegt með ostrusósu, sveppum og bambus. Vorrúllur hafa alltaf reynzt sérstaklega góðar, þunnar og stökkar, greinilega gerðar á staðnum.

Af eftirréttum er áhugaverðust eplarúlla, djúpsteikt pönnukaka með eplasultu. Jasmínte drekkum við með matnum og milt kaffi á eftir, ef tími vinnst til. Hingað fer ég oftast, þegar ég nenni ekki að elda.

Jónas Kristjánsson

DV