Kínahúsið

Veitingar

Alltaf traust og alltaf eins

Kínahúsið við Lækjargötu er alltaf eins, ár eftir ár, í tæpan áratug. Þar er sama elskulega þjónustan, sömu notalegu húsakynnin í stöðluðum Kanton-stíl rauðum, sama rólyndið og sama lágværa tónlistin og fyrst og fremst sama góða, staðlaða Kanton-eldamennskan.

Þarna er boðið upp á hefðbundna matreiðslu frá Kanton, hingað komna frá Singapúr. Þetta eru einkum súrsætar rækjur djúpsteiktar, pönnusteiktur kjúklingur með bambus og sveppum eða kjúklingakarrí, pönnusteikt lambakjöt eða svínakjöt í sterkri ostrusósu, nautakjöt með blaðlauk, jasmínte og súpa dagsins, oftast eggjadropasúpu eða grænmetissúpu með núðlum.

Þetta eru svo sem sömu réttirnar og á öllum öðrum stöðluðum Kínastöðum. En hér er matreiðslan betri en annars staðar. Hér er eldað fyrir hvert borð fyrir sig, en maturinn ekki veiddur ofeldaður upp úr hitakössum. Hér er hæfilega mikið af sósu í hádeginu, en heldur of mikið á kvöldin. Í seinni tíð hefur djúpsteikingahjúpur stundum farið örlítið úr hófi fram.

Þetta er líka ódýr staður, 800 krónur súpa og súrsætar rækjur djúpsteiktar í hádeginu, 900 krónur súpa og þríréttað í hádeginu og 1950 krónur súpa og fimmréttað á kvöldin. Þá eru nokkrar sérstakar kvöldverðarsyrpur á 2750 krónur að meðaltali. Allt eru þetta meira eða sömu endurtekningar á sama hráefninu og sömu matreiðslunni.

Einnig er hægt að fara í langa matseðilinn og panta einstaka rétti af honum, svo sem meyran og fínan hörpudisk með sterkri ostrusósu eða hæfilega pönnusteiktar rækjur með cashew-hnetum eða bragðsterkan Szekkuan-kjúkling í rauðri sósu. Slík matreiðsla af sérseðli hefur tilhneigingu til að vera örlitlu betri en matreiðslan á stöðluðu réttunum í framboði dagsins.

Ég kem ekki hingað að leita að nýjungum í matargerðarlist. Þegar ég nenni ekki að elda, kem ég oftar hingað en annað, af því að ég veit, að hér snýst hnötturinn ekki, heldur stendur kyrr og traustur. Of fáir vita, að Kínahúsið hefur árum saman verið einn af hornsteinum veitingarekstrar í Reykjavík. Oftast eru laus pláss í hádeginu og á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV