Kinda- og kúafrumvarp.

Greinar

Ekki er við að búast, að ný ríkisstjórn geri nein kraftaverk við smíði fyrsta fjárlagafrumvarpsins. Til þess hefur hún of skamman tíma. Enda hefur gerð frumvarpsins fyrir árið 1984 að flestu leyti verið með hefðbundnum hætti.

Safnað hefur verið saman óskhyggju allra ráðuneyta og opinberra stofnana í einn pakka, sem reynist eins og venjulega vera allt of stór. Hingað til hefur vandinn verið “leystur” með því að þenja út ríkið á kostnað annarra.

Samneyzlan eða rekstur hins opinbera hefur vaxið á hverju ári að undanförnu, meðan þjóðartekjur hafa minnkað. Atvinnuvegir og almenningur hafa tekið allar byrðarnar, en hið opinbera engar. Þetta er auðvitað út í hött.

Ekki er vitað, hver samneyzlan verður á þessu ári. Tekjur ríkisins hafa minnkað, til dæmis af innflutningi hátollavöru á borð við bíla. En þjóðartekjurnar hafa einnig minnkað, svo að hlutdeild ríkisins gæti vel hafa staðið í stað.

Með tveggja milljarða króna niðurskurði á óskhyggju hins opinbera, sem ríkisstjórnin þykist geta náð, ætti hlutdeild ríkisbúsins í þjóðarbúinu ekki að vaxa á næsta ári. Segja má, að það sé sæmilegur árangur í fyrsta áfanga.

Hitt er svo forkastanlegt að ná þessum árangri með því að skera niður ótal gagnlega hluti, en halda inni óbreyttum stuðningi við fáránlegan búskap með kindur og kýr. Sá stuðningur hefur oft verið um 10% fjárlaganna.

Fjármögnun framkvæmda og rekstrar í kúa- og kindabúskap er stærsta verkefni ríkissjóðs. Krabbameinsþensla hins opinbera verður ekki stöðvuð af alvöru, fyrr en landbúnaðarstuðningurinn verður skorinn niður.

Þá hefur í vaxandi mæli tíðkazt sá ósiður að láta fjárlög ganga upp hallalaust á yfirborðinu, en setja afganginn af óskhyggjunni í lánsfjáráætlun. Því er marklaust að tala um niðurstöður fjárlagafrumvarps einar sér.

Hinar hrikalegu lánsfjáráætlanir hins opinbera eru einmitt meginþáttur hinnar óbærilegu skuldasöfnunar í útlöndum. Mikið af því fé fer til gagnlegra hluta, en menn verða að sníða sér stakk eftir vexti og gera ekki allt í einu.

Ekki verður hægt að meta fjárlagafrumvarpið og væntanlegan niðurskurð þess, nema hafa lánsfjáráætlunina til hliðsjónar. Raunar ætti að vera föst regla að hafa þessi tvö frumvörp í einu og sama frumvarpinu.

Nú eins og áður er vandinn sá, að ríkissjóður er eini aðilinn í landinu, sem skammtar sár tekjur. Heimili og fyrirtæki landsins eru vön að láta tekjurnar ráða útgjöldum, en ríkið lætur útgjaldaóskhyggju ráða tekjunum.

Þessi vandi er óviðráðanlegur, þangað til ráðamenn fara að byrja fjárlagagerð á að ákveða, hver skuli vera hluti opinbers rekstrar og opinberra framkvæmda af þjóðarbúinu í heild og finni sér á þann hátt lokaðan ramma.

Síðan á að skipta niðurstöðutölunum milli ráðuneyta og svo milli stofnana og verkefna, en ekki öfugt eins og nú er gert. Þá verða fjárlagasmiðir að sæta því að leggja niður gamla starfsemi, ef þeir telja nýja brýnni.

Við skulum vona, að næst verði svigrúm til slíkra vinnubragða. Á meðan skulum við meta þetta fjárlagafrumvarp eftir því, hvernig ríkisstjórnin velur þar milli fjármögnunar kúa og kinda annars vegar og íbúðalánakerfisins hins vegar.

Jónas Kristjánsson

DV