Kindur víki fyrir hrossum

Greinar

Langt er síðan beitarþolsrannsóknir á íslenzkum afréttum leiddu í ljós, að mikil ofbeit er á flestum íslenzkum afréttum. Helzta undantekningin er á norðanverðum Ströndum, sem eru í eyði og sæta ekki ágangi sauðfjár.

Kindasinnar hafa lengst af neitað að viðurkenna þessa staðreynd. Þeir hafa einnig reynt að kenna öllu öðru en sauðfé um rýrnandi gróður á afréttum. Fyrrum búnaðarmálastjóri sagði raunar, að kindur bættu gróðurinn.

Á sama tíma hefur ástandið sums staðar orðið svo alvarlegt, að félög bænda hafa neyðst til að beita ítölu, það er að segja ákveða hámarkstölu leyfilegra kinda á afrétt. Þessi aðgerð hefur sums staðar dregið úr ofbeit.

Í leitinni að öðrum skaðvöldum hafa kindasinnar upp á síðkastið einkum beint geiri sínum að hrossum. Þeir segja, að frekar sé rúm fyrir sauðfé á afréttum, ef fækkað sé hrossum og helzt bannað að hafa þau þar.

Í fyrradag var upplýst hér í blaðinu, að 747.000 ær og 1.045.000 lömb þurfa 107,5 milljón fóðureininga sumarbeit. Ennfremur var upplýst, að 52.000 hross og 5.000 folöld þurfa 19 milljón fóðureininga sumarbeit.

Ekki er því fjarri lagi að álykta, að kindur noti 85% af gæðum afréttanna og hrossin 15%. Kindasinnar telja að vísu, að hrossin noti töluvert meira og fari verr með landið. En einkum segja þeir, að hesturinn sé efnahagslega óæðri skepna.

Sú er trú og firra þessara manna, að kindur og kýr séu sá landbúnaður, sem máli skipti, enda er hann hinn eini, sem hefur málfrelsi á þingum Stéttarsambands bænda. Hrossin eru hins vegar á óæðri bekk með svínum og hænsnfuglum.

Staðreyndin er hins vegar þveröfug. Hrossarækt á Íslandi er ekki að neinu leyti á framfæri hins opinbera. Hún þarf ekki á neinum niðurgreiðslum að halda, útflutningsuppbótum, beinum styrkjum né sérstökum lánafyrirgreiðslum.

Ræktun reiðhesta er raunar orðin að arðbærum atvinnuvegi, sem er samkeppnisfær á alþjóðlegum markaði. Árlega koma inn tugir milljóna í gjaldeyri fyrir sölu hrossa og önnur viðskipti, sem byggjast á þeirri sölu.

Erlendir eigendur íslenzkra hesta hafa á þessu ári ferðast um landið fyrir 40 milljónir króna, keypt hesta fyrir 10 milljónir, auk lopapeysa og íslenzka hundsins, sem orðinn er að stöðutákni hinna erlendu hestaeigenda.

Margir kindasinnar viðurkenna mikilvægi ræktunar reiðhesta. Þeir segja hins vegar, að ekki þurfi nema 19.000 hross af 52.000 til að standa undir þeirri útgerð. Aðrir hafa nefnt töluna 38.000 um heppilega stofnstærð.

Hvora töluna, sem menn nota, er ljóst, að hrossin í landinu eru fleiri en nauðsynlega þarf til að ná upp reiðhestum. Afgangurinn er notaður til framleiðslu á hrossakjöti, sem kindasinnar telja heldur tilgangslitla iðju.

En staðreyndin er hins vegar sú, að hrossakjöt er framleitt og selt, án þess að ríkið komi þar til skjalanna. Hrossakjötsframleiðsla byggist ekki frekar en reiðhestaútflutningur á niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum, beinum styrkjum eða sérstökum lánafyrirgreiðslum.

Skattgreiðendur og neytendur þurfa því ekki að hafa áhyggjur af hrossarækt, þótt hún sé umfram það, sem þarf til að fá reiðhesta. En ofbeit kindanna á afréttum kostar hins vegar neytendur og skattgreiðendur á annan milljarð á hverju ári.

Kindurnar eiga því að víkja, fremur en hrossin.

Jónas Kristjánsson

DV