Kísiliðja á náttúruminjaskrá?

Greinar

Einu sinni voru tíu álver í Sviss. Nú er þar ekkert álver. Svisslendingar ákváðu í millitíðinni að vilja ekki álver og flæmdu þau brott. Þess vegna varð Alusuisse að hasla sér völl í þriðja heiminum, þar á meðal Íslandi, þar sem álveri var tekið sem sendingu af himnum ofan.

Nú eru Þjóðverjar byrjaðir að losa sig við álver. Eitt álveranna, sem rifið var þar í landi, hefur verið sett í pakka til útflutnings til Grundartanga, þar sem þriðja heims þjóðin tekur við því sem himnasendingu. Svona breytileg geta sjónarmið þjóðanna verið.

Við stöndum á mörkum iðnríkjanna og þriðja heimsins. Sem þriðja heims þjóð þráum við það, sem iðnríkin eru farin að hafna. Sem þriðja heims þjóð áttum við okkur ekki heldur á verðgildi ósnortinna víðerna, þjóðgarða og vandlega varðveittra náttúruminja.

Þess vegna höfum við áratugum saman sætt okkur við, að Landsvirkjun legði loftlínur út og suður um auðnir landsins. Þess vegna höfum við áratugum saman sætt okkur við, að Landsvirkjun reisti í auðnunum lífvana miðlunarlón með breytilegri vatnshæð.

Nú eru viðhorf þjóðarinnar byrjuð að breytast. Þeim fjölgar, sem átta sig á, að reikningsdæmi stóriðjunnar hafa verið meira eða minna vitlaus og standast ekki samjöfnuð við reikningsdæmi ferðaþjónustunnar annars vegar og reikningsdæmi almennra lífsgæða hins vegar.

Kísiliðjan við Mývatn stendur á þessum krossgötum. Hún er ekki beinlínis stóriðja, en er verksmiðja af sama toga. Hún átti lengi fjárhagslega erfitt uppdráttar, en hefur um langt skeið verið öflugt fyrirtæki, sem safnað hefur í kringum sig notalegu íbúðahverfi við Mývatn.

Þar í sveit hefur alla tíð verið deilt um Kísiliðjuna. Hún hefur því alltaf staðið ótraustum fótum í almenningsálitinu, enda hefur hún takmarkað starfsleyfi, sem ætlunin er að renni út, ef fræðilega er talið líklegt, að hún skaði lífríki Mývatns og Mývatnssveitar.

Á sama tíma hafa menn þar í sveit og víðar á landinu vaknað til vitundar um verðgildi Mývatnssvæðisins sem auðlindar í ferðaþjónustu. Liður í eflingu verðgildis svæðisins sem slíks var tilraun til að koma því á alþjóðlega skrá yfir örfáar helztu náttúruminjar heimsins.

Mývatn verður heimsfrægt, ef það kemst á slíka skrá. Fulltrúar náttúru- og ferðatímarita munu í auknum mæli leggja leið sína þangað og erlendar ferðaskrifstofur taka í auknum mæli upp ferðir þangað. Tekjuaukinn af slíkum áhuga yrði á við margar Kísiliðjur.

Sóttur var hingað maður til að afgreiða það, sem talið var nánast formsatriði, staðfestingu á réttmætri stöðu Mývatns sem einstæðs fyrirbæris. Maðurinn fór til Mývatns og sá það, sem heimamenn sáu ekki. Hann sá fyrst og fremst Kísiliðjuna og hristi bara hausinn.

Hann upplýsti einfaldlega, að tilgangslaust væri að tala um, að Mývatn færi á einhverjar náttúruminjaskrár, meðan þar væri eldspúandi verksmiðja í sviðsljósinu. Hugsanlega mætti taka upp málið síðar, þegar Kísiliðjan væri örugglega horfin á vit feðra sinna.

Áhugamenn um verndun gamalla verksmiðja sjá nú þá leið úr ógöngunum við Mývatn, að gleyma náttúruminjamálinu og stæla fremur Bláa lónið, þar sem ferðatekjur stafa af annarri ástæðu, meintri heilsulind. Þeir vilja búa til lón undir veggjum Kísiliðjunnar.

Þetta eru dæmi um vandræði, sem fólk lendir í, er það stendur ótraustum fótum í tilverunni og veit til dæmis ekki, hvort það er enn í þriðja heiminum eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV