Gary Younge segir í Guardian, að nú sé talið siðlaust í Bandaríkjunum að efast um utanríkisstefnu George W. Bush forseta. Bandaríkjamenn telji sig vera í heilögu stríði gegn hryðjuverkum og eru svo þjóðernissinnaðir, að þeir vilja ekki hlusta á neinar efasemdir. Younge segir, að lítil vitræn umræða sé í Bandaríkjunum um Íraksstríðið, en meira um upphrópanir og stríðsæsingar. Bandarískri fjölmiðlun sé stjórnað af nokkrum samsteypum, sem fylgja stjórnarstefnunni eindregið. Bandarískir blaðamenn séu flestir marklausar kisur. Bíða verði eftir ljónum sagnfræðinnar til að geta lesið sannleikann um utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Raunar er athyglisvert, að uppljóstranir um fölsun gagna um gereyðingarvopn Íraks hafa ekki vakið neina athygli í Bandaríkjunum, ekki einu sinni í New York Times.