Lýðræði á í vök að verjast í þriðja heiminum þessa dagana eins og oftast áður. Stundum gengur betur sums staðar, en oftast gengur þó verr víðast hvar. Síðustu daga höfum við fengið fréttir af margs konar vandræðum, er steðja að þessu illskásta þjóðskipulagi jarðar.
Svo virðist á yfirborðinu, að lýðræði hafi unnið sigur á Filippseyjum í síðustu viku, þegar Corazon Aquino vann yfirburðasigur í heiðarlegustu þingkosningum, sem þar hafa farið fram. Enrile og Marcosarmenn fengu þar hina háðulegu útreið, sem þeir áttu skilið.
Undir niðri hafa vandamál Filippseyja hrannast upp. Aquino hefur tregðast við að framkvæma loforð um skiptingu lands milli fátækra bænda og þar með fært skæruliðum kommúnista vopn í hendur. Jafnframt hefur hún í vaxandi mæli hallað sér að Bandaríkjunum.
Sendimenn bandarísku leyniþjónustunnar og varnarmálaráðuneytisins hafa verið að flykkjast til Filippseyja. Þar er nú verið að endurtaka í hundraðasta skipti hinn alþjóðlega sorgarleik um ljóta Ameríkanann, sem hvarvetna hefur óafvitandi komið þjóðum í klandur.
Síðan Marcos var hrakinn frá völdum og gerður að óvirkum þjófi, hefur Suharto, forseti Indónesíu, verið stórtækasti virki þjófur heimsins. Hann hefur löngum getað nuddað sér utan í Bandaríkin, síðan hann lét í upphafi ferils síns myrða nokkur þúsund kommúnista.
Um daginn hélt Suharto gervikosningar til þingsins í landi sínu. Allt var notað til að tryggja hans mönnum sigur, þar á meðal allt litróf siðleysisins. Nú má búast við, að hann noti kosningasigurinn til að slá sig til riddara í augum hins fávísa Bandaríkjaforseta.
Ekki er langt síðan vinstri menn unnu meirihluta af hægri mönnum í þingkosningum á Fidji-eyjum. Um daginn var her landsins notaður til að reyna að strika yfir niðurstöðu lýðræðisins. Síðustu fréttir herma, að þetta hafi ekki tekizt, en í nokkra daga var staðan tæp.
Víðar í austurálfum jarðar stendur lýðræði höllum fæti. Suður-Kóreu er stjórnað með ofbeldi, þótt skammt sé til ólympíuleikanna þar í landi. Í Singapúr hefur prentfrelsi verið stórlega skert, auk þess sem stjórnarstörf einræðisherrans verða sífellt sérvizkulegri.
Suður-Ameríku hefur ekki tekizt að feta áfram í átt til lýðræðis, þar sem Alfonsín Argentínuforseti er fremstur í flokki. Hann hefur átt í mestu erfiðleikum með herinn í landinu og varð að ganga til samninga til að hindra, að uppþot í hernum yrðu að uppreisn.
Alfonsín hefur reynt að koma lögum yfir nokkur hundruð af verstu glæpamönnunum, sem léku lausum hala á valdatíma hersins. Í því hefur hann sérstöðu meðal lýðræðislega kjörinna valdhafa í Rómönsku Ameríku, því að þeir hafa engum lögum komið yfir slíka.
Þetta varnarleysi gegn hernum einkennir alla álfuna. Valinkunnir leiðtogar á borð við Duarte í El Salvador, Cerezo í Guatemala og Sanguinetti í Uruguay hafa neyðzt til að halda hlífiskildi yfir dauðasveitum hersins. Sömu sögu er að segja frá Brasilíu og Perú.
Herinn í þessum löndum skákar óbeint í bandarísku skjóli, því að reynslan sýnir, að bandaríska leyniþjónustan og varnarmálaráðuneytið hafa tekið opnum örmum dólgum suður-amerískra herja, en litið af tortryggni á lýðræðislega kjörna valdhafa álfunnar.
Sorglegt er, að Bandaríkin skuli leyfa leyniþjónustunni, varnarmálaráðuneytinu og kjallaramönnum í Hvíta húsinu að stjórna utanríkisstefnu ríkisins.
Jónas Kristjánsson
DV