Kjarasamningar losna ekki

Greinar

Launahækkun stjórnmálamanna og embættismanna gefur stéttarfélögum ekki tækifæri til að segja upp samningum. Hækkunin hefur ekki slík áhrif á verðlag, að það leiði sjálfkrafa til opnunar á kjarasamningum. Hækkunin er siðlaus, en hún er eigi að síður lögleg.

Forustumenn Alþingis hafa fallið frá skattfrelsinu, sem fór verst í fólk. Þar með er ekki annað við launahækkun stjórnmálamanna og embættismanna að athuga en, að þær eru umfram aðrar hækkanir í landinu og stríða gegn þjóðarsátt um jöfnun launamisréttis.

Alþingi hefur hlotið skaða af máli þessu. Komið hefur í ljós, að með stuðningi alls þorra þingmanna er því stjórnað af taumlausri græðgi manna, sem ekkert hafa til þjóðmálanna annað að leggja en að skara eld að eigin köku og köku umbjóðenda sinna, svonefndra gæludýra.

Fleiri hafa hlotið skaða. Þar fer fremst embætti Ríkisskattstjóra, er allir kónar segja, að hafi bent á skattsvikaleiðina, sem síðan var hætt við. Þar með er upplýst, að stofnunin hefur veitt valdastéttinni óviðurkvæmilega aðstoð við að reyna að koma tekjum undan skatti.

Kjaradómur og kjaranefnd hafa líka hlotið skaða. Komið hefur í ljós, að stofnanir þessar eru skálkaskjól í samtryggingu embættismanna um að efla tekjur stéttarinnar umfram aðrar stéttir í landinu. Þessar siðlitlu stofnanir hafa ekki reynzt valda hlutverki sínu.

Mest sker í augu lágkúran í vörnum stjórnmálamanna. Sumir þeirra væla yfir bágum kjörum, alveg eins og fátækt eigi að réttlæta lögbrot og siðleysi. Aðrir væla yfir góðum kjörum gagnrýnenda sinna, alveg eins og tekjur manna eigi að stjórna skoðun þeirra á máli þessu.

Lágkúran hefur sokkið á það stig, að tilraunin til skattsvika er varin með því, að hliðstæð skattsvik hafi tíðkazt um langan aldur, einkum í kjörum ráðherra. Þar með virðist valdastéttin telja sig hafa aflað sér eins konar hefðarréttar á slíkum lögbrotum og siðferðisbresti.

Svo er beinlínis rangt hjá talsmönnum subbuskaparins, að gagnrýnendur hafi látið fyrri skattsvik sér í léttu rúmi liggja. Til dæmis hefur allt það svindl árum saman verið harðlega gagnrýnt hér í blaðinu. Sú gagnrýni hefur bara ekki hlotið nægan hljómgrunn fyrr en núna.

Hallærislegust var tilraun yfirmanna Alþingis og þingflokka til að bera sín aumu laun saman við kjör starfsbræðra í nágrannalöndunum. Það var eins og þeim væri gersamlega ókunnugt um, að laun íslenzkrar alþýðu eru stórum lakari en alþýðu manna í nágrannalöndunum.

Sem betur fer hafa undanbrögðin framlengt umræðuna og opnað augu manna fyrir því, að skattsvikin voru ekki eina hneykslið í málinu, þótt þau væru sýnu verst. Fólk er að átta sig á, að fleiri atriði í gerðum Alþingis og Kjaradóms fara langt út fyrir almennt velsæmi.

Það eru léttvæg málsrök að segja kjör valdastéttarinnar þurfa að batna í samanburði við aðrar stéttir í landinu. Slík rök geta gilt á tímum, þegar ekki er almennt stefnt að kjarajöfnun í samningum vinnumarkaðarins. Hækkun hálaunamanna er tímaskekkja á þessum tíma. Eftir fráhvarfið frá skattsvikunum situr það eftir, að samsæri Alþingis, ríkisstjórnar, Kjaradóms, Kjaranefndar og Ríkisskattstjóra er löglegt, þótt það sé siðlaust fráhvarf frá kjarajöfnunarstefnu gildandi þjóðarsáttar. Samsærið er því ekki tilefni til að taka upp kjarasamninga.

Fólkið í landinu verður að finna sér pólitíska en ekki stéttarpólitíska leið til að ná sér niðri á gráðugri valdastétt, sem skarar markvisst eld að sérhagsmunakökum.

Jónas Kristjánsson

DV