Kjarkmikil spilling

Greinar

Guðmundur Árni Stefánsson vakti snemma athygli, þegar hann varð heilbrigðisráðherra fyrir rúmu ári. Mannaráðningar hans og embættaveitingar þóttu verri en annarra ráðherra og er þá mikið sagt. Síðan hafa hlaðizt upp tilvik, sem hljóta að teljast umdeilanleg.

Þegar hann skildi við ráðuneytið eftir eitt ár í starfi, mátti heita að flest væri þar í rúst. Sparnaður, sem forveri hans hafði náð fram með ærinni hörku, hafði rokið út í veður og vind á einu stjórnlausu ári og ráðuneytið hafði farið milljarð króna fram úr ráðgerðum útgjöldum.

Embættislega er heilbrigðisráðuneytið með slakari ráðuneytum. Ráðherrar þurfa að halda þar vel á spöðunum til að halda utan um mál. Guðmundur Árni kom með ættingja sína og vini inn í ráðuneytið og þeir reyndust auðvitað engir bógar til að hjálpa honum og vernda.

Hann virðist hafa vanizt því í bæjarstjórasessi Hafnarfjarðar að þurfa ekki að setja sig sjálfur inn í mál. Þetta leiddi meðal annars til, að hann úrskurðaði, að alþjóðlega viðurkenndur arfgengissjúkdómur væri sjálfskaparvíti, sem ætti að vega léttar hjá ríkinu en aðrir.

Hafnarfjörður hefur sérstöðu meðal sveitarfélaga. Hann hefur lengi haft mjólkurkú í álverinu. Þess vegna ætti fjárhagur bæjarins að vera betri en hinna, sem ekki hafa slíka kú. Þvert á móti er að koma í ljós, að Guðmundur Árni kom bænum í tveggja milljarða skuldasúpu.

Eitt dæmið um sukkið í Hafnarfirði var formaður húsnæðisnefndar bæjarins, sem varð að fara frá, þegar fjármál hennar voru gerð upp. Síðan gerði ráðherrann formann nefndarinnar að formanni Hollustuverndar ríkisins. Sukkarinn var fluttur frá bæ til ríkis.

Í ljós kom eftir vistaskipti ráðherrans, að hann hafði sem bæjarstjóri látið greiða sér og vildarmönnum sínum miklar greiðslur umfram umsamin laun. Þessi iðja hélt síðan áfram í ráðuneytinu, þar sem ráðherrann lét greiða fylgdarsveini sínum 600.000 króna mánaðarlaun.

Fræg eru milljónabiðlaunin, sem hann lét Hafnarfjarðarbæ greiða sér, enda þótt hann væri þegar kominn í ráðherrastarf. Ummæli ráðherrans um þetta bentu til, að hann hefði ekki hefðbundin viðhorf í siðferðismálum og ætlaði sér ekki að láta neitt fé úr hendi sleppa.

Ráðherrann réð þekktan flokksbróður sinn sem forstjóra Tryggingastofnunar ríkisins og lét áfram greiða forveranum full forstjóralaun, enda var hann líka flokksbróðir. Þetta er svo sem ekki önnur spilling en sú, sem tíðkast í gerspilltum Alþýðuflokki, en spilling samt.

Smám saman hafa verið að birtast fréttir af sérkennilegum embættisverkum hans og ættrækni sem bæjarstjóra í Hafnarfirði. Hann réð tengdaföður sinn sem skólahúsvörð, án þess að staðan væri auglýst. Hann lét náfrænku sína hafa nánast leigufría íbúð hjá bænum.

Ennfremur hefur komið í ljós, að hann heimilaði framkvæmdastjóra Alþýðublaðsins sjálfdæmi í birtingu auglýsinga frá Hafnarfjarðarbæ. Mátti framkvæmdastjórinn klippa auglýsingar úr öðrum blöðum og birta hjá sér. Reikningar, sem hann sendi, voru orðalaust greiddir.

Meðan slík atriði hafa verið að koma í dagsins ljós, hefur Alþýðuflokkurinn verðlaunað ráðherrann með því að gera hann að varaformanni í stað þeirrar konu, sem áður hélt uppi siðferðisímynd flokksins. Má nú segja að skel hæfi kjafti í þeirri valdastöðu flokksins.

Pólitískur frami Guðmundar Árna er dæmi um, hve langt menn geta komizt á kjaftavaðli, kunnáttuleysi og kjarklegri spillingu, ef kjósendur eru nógu heimskir.

Jónas Kristjánsson

DV