Kjólsvík

Frá Bakkagerði í Borgarfirði eystra til Brúnavíkur og Kjólsvíkur og til baka aftur.

Leiðin frá Brúnavík til Kjólsvíkur er ekki fær jeppum.

Kjólsvík er stutt vík með berghlaupum milli Glettings og Grenmós. Berghlaup setja svip á landslagið, Háuhlaup efra og Láguhlaup neðra. Bærinn í Kjólsvík er í eyði. Hann stóð á sjávarbakka undir snarbröttum hlíðum Glettings sunnanverðum. Ofan bæjarins er kletturinn Kjóll, sem víkin dregur nafn sitt af, og varði bæinn fyrir snjóflóðum.  Þetta er vel gróið, en snjóþungt sauðfjárland.

Byrjum á veginum frá Bakkagerði til Hafnar í Borgarfirði mitt á milli brúar á Fjarðará og Hofstrandar. Þar er jeppaslóð austur af veginum. Við fylgjum henni austur og upp hjá Mæli og síðan norður fyrir Svartfell og förum þar um Hofstrandarskarð milli Geitfells að norðan og Svartfells að sunnan. Erum þar í 300 metra hæð. Áður var farið norðar, um Brúnavíkurskarð milli Geitfells að sunnan og Gránípu að norðan. Förum síðan í sneiðingum niður í Brúnavík. Þar endar jeppaslóðin. Þaðan förum við norður og út að sjó að sæluhúsi á eyðibýlinu Brúnavík. Síðan förum við suður fyrir Dagmúla og Geldingahnjúk og upp í Súludal, síðan um Súluskarð austan við Súlutind og erum í 400 metra hæð ofan við Hvalvík. Við höldum áfram suður um Syðra-Varp milli Súlutinds að vestan og Víðidalsfjalls að austan og förum niður úr skarðinu, fyrst suður að Kjólsvíkurá og síðan austur og út að eyðibýlinu Kjólsvík. Þaðan förum við til baka inn dalinn og síðan beint vestur í Kjólsvíkurskarð og náum þar 430 metra hæð milli Súlutinds að norðan og Krossfjalls að sunnan. Þaðan förum við beint vestur og niður á jeppaveginn milli Borgarfjarðar og Loðmundarfjarðar. Förum norðvestur með þeim vegi um Þrándarhrygg og eyðibýlið Þrándarstaði út í Bakkagerði í Borgarfirði.

22,0 km
Austfirðir

Skálar:
Brúnavík: N65 31.600 W13 41.200.

Nálægar leiðir: Loðmundarfjörður, Brúnavíkurskarð, Dyrfjöll, Borgarnes, Kjólsvíkurvarp.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort